Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun

                                                                                                                                                                                       9. desember 2022

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum samningsins. 33. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Framkvæmd og eftirlit innan lands, hljóðar svo:


     1.      Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samnings þessa og taka til tilhlýðilegrar umfjöllunar hvort koma skuli á eða tiltaka samræmingarkerfi innan stjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum á ólíkum sviðum og ólíkum stigum.
     2.      Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á innviðum, þar á meðal einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að styrkja, vernda og hafa eftirlit með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi þjóðbundinna mannréttindastofnana.
     3.      Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Ákvæði greinarinnar þýða m.a. að sú skylda hefur hvílt á Íslenska ríkinu frá fullgildingu þess á samningnum árið 2016, þ.e. í sex ár, að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun, sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles) til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks. Samtökin telja að það eftirlit sem nú er hér landi með því að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda, sem áréttuð eru og varin í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sé engan veginn fullnægjandi. Að mati samtakanna er það eftirlit ómarkvisst og brotakennt og alls ekki nægilega óháð félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, sveitarfélögum og fleiri stjórnvöldum, sem bera mesta ábyrgð lögum samkvæmt á að veita fötluðu fólki nauðsynlegan stuðning og þjónustu til að það geti notið þeirra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita og tryggja.

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Í 3. mgr. greinarinnar segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.).

 

Þessi skylda til að hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess á augljóslega við um stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar og setningu laga og reglna varðandi hana, enda er þjóðréttarlega skyldan á íslenska ríkinu til að setja á fót slíka stofnun í samningnum, eins og fyrr sagði.

Mjög mikilvægt er að við þetta samráð verði þess sérstaklega gætt að taka fullt tillit aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks, þ.m.t. fólks með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og að sérstaklega verði hugað að viðeigandi aðlögun til að tryggja að fólki verði ekki mismunað á grundvelli fötlunar hvað varðar tækifæri til að taka virkan þátt og að koma reynslu sinni og sjónarmiðum á framfæri á öllum stigum þeirrar vinnu.

Landssamtökin Þroskahjálp leggja mikla áherslu á að við stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar, setningu laga og reglna varðandi hana, skipulag hennar og staðsetningu í stjórnkerfinu verði litið sérstaklega til þess sem best hefur gefist í öðrum ríkjum þar sem slíkar stofnanir eru, almennt og sérstaklega m.t.t. framfylgdar og verndar mannréttinda fatlaðs fólks.

Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við að í þeim áformum, sem hér eru til umsagnar, skuli gert ráð fyrir að starfsmenn mannréttindastofnunar eigi einungis að vera þrír. Þá gera samtökin einnig alvarlegar athugasemdir við hversu lítið fé gert er ráð fyrir að leggja til stofnunarinnar. Samtökin telja augljóst að þessar fyrirætlanir séu í engu samræmi við verkefnin og þarfirnar og uppfylli alls ekki kröfur, sem leiða hvað þetta varðar, af Parísarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í lögum nr. 88/2011, með síðari breytingum, er kveðið á um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Sú réttindagæsla er, eins og reynslan hefur sýnt og mörg dæmi sanna, gríðarlega mikilvæg til að þessi berskjaldaði hópur fólks fái notið mannréttinda og tækifæra sem hann á rétt á samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fái til þess nauðsynlegan og viðeigandi stuðning.

Réttindagæslan er hluti af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Sú staðsetning þessa mikilvæga eftirlits í stjórnkerfinu samræmist engan veginn kröfum, sem í réttarríki verður að gera til að eftirlit af þessu tagi sé óháð stjórnvöldum, sem það beinist oft að, beint eða óbeint. Trúverðugleiki eftirlitsins er þar í húfi. Þessi staðsetning réttindagæslunnar er ekki heldur í neinu samræmi við kröfur sem hvíla á íslenska ríkinu að tryggja sjálfstætt og óháð eftirlit með að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafna við aðra, eins og kveðið er á um í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp skora því að ríkisstjórnina, forsætisráðuneytið og Alþingi að koma réttindagæslunni sem fyrst undir sjálfstæða mannréttindastofnun, sem fjallað er um hér að framan. Samtökin telja að það megi vel gera mjög fljótt, þar sem skipulag og verkefni réttindagæslunnar er með þeim hætti að það krefst alls ekki flókinna eða tímafrekra breytinga á lögum, reglum og/eða stjórnkerfi.

Samtökin ítreka vilja sinna og áhuga til náins samráðs við stjórnvöld varðandi stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar og virkrar þátttöku í því mikilvæga verkefni og vísa í því sambandi til skyldna íslenska ríkisins til að tryggja það samkvæmt ákvæðum 4. gr. og 33. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan.

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Nálgast má áform sem umsögnin á við hér.