Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018 (lögheimilisflutningar), 895. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018 (lögheimilisflutningar), 895. mál

      12. apríl 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er hafin af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Rannsóknir sýna og staðfesta að fatlað fólk er mun líklegra til að vera beitt ofbeldi af öllu tagi, þ.m.t. heimilisofbeldi, en aðrir hópar fólks.

Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er því lögð mikil áhersla á skyldur ríkja til að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi af öllu tagi. 16. gr. samningsins hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum. Þar segir í 1. mgr.:

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, þar á meðal kynbundnum hliðum þessa. (Feitletr. Þroskahj.)

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þess sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu styðja samtökin frumvarpið.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri

 

 

Nálgast má lagafrumvarpið sem umsögnin á við hér.