Til baka
Almanak Þroskahjálpar 2026, forsíða, Elín Sigríður María Ólafsdóttir
Almanak Þroskahjálpar 2026, forsíða, Elín Sigríður María Ólafsdóttir

Almanak 2026

Vörunúmer
Verð með VSK
5.000 kr.

Vörulýsing

Listaverkaalmanak Landssamtakanna Þroskahjálpar 2026.

7 listamenn eiga verk í almanaki ársins.

Sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu.

 

Landssamtökin Þroskahjálp berjast fyrir réttindum og hagsmunum fatlaðs fólks.
Á hverju ári er sala almanaksins ein af stærstu fjáröflunum Þroskahjálpar.

Fyrstu mánuðina er almanakið selt með happdrættismiða, og eftir það er almanakið selt eitt og sér.


Listafólk almanaksins 2026

Í ár kynnum við almanak með listaverkum eftir sjö fatlaða listamenn sem öll starfa á vettvangi Listvinnzlunnar.

Margrét M. Norðdahl stofnaði Listvinnzluna árið 2022 til að vera vettvangur á sviði inngildingar, menningar, menntunar og lista. Hjá Listvinnzlunni starfar öflugt teymi listafólks sem býr yfir fjölbreyttri reynslu og þekkingu. Listvinnzlan hlaut Múrbrjótinn, hvatningarverðlaun Þroskahjálpar, árið 2023.

Innan jaðarlistheimsins hafa fatlaðir listamenn skapað kraftmikla og fjölbreytta list, en sýnileikinn er í takt við fábreytt tækifæri til þátttöku og listmenntunar.

Þroskahjálp og Listvinnzlan eru samhent í baráttu sinni fyrir sýnileika og tækifærum fatlaðra listamanna, og í almanaki ársins kynnumst við og fögnum listsköpun fatlaðs fólks.

 

 

Listaverkaalmanak Þroskahjálpar 2026

 

Forsíða

ELÍN SIGRÍÐUR MARÍA ÓLAFSDÓTTIR
f. 1983

Elín býr og starfar í Reykjavík og var listamanneskja Listar án landamæra árið 2024. Hún lauk diplómanámi í myndlist frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2017 og hefur einnig sótt nám bæði hér á landi og erlendis. Elín starfar með Listvinnzlunni sem listamaður og ráðgjafi og er meðlimur í Tjarnarleikhópnum.

Hún hefur haldið einkasýningar í Hafnarborg og á Mokka og tekið þátt í fjölda samsýninga, meðal annars í Hörpu, á Safnasafninu á Svalbarðsströnd, í Inuti gallerí í Stokkhólmi og í Listasal Mosfellsbæjar..

 

Janúar, febrúar, mars

HELGA MATTHILDUR VIÐARSDÓTTIR
f. 1971

Helga Matthildur var listamanneskja Listar án landamæra árið 2020. Hún hélt einkasýningu í Listasal Mosfellsbæjar og hefur síðan tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, svo sem Áhrifavöldum á Safnasafninu á Svalbarðsströnd, Bjartast á Annesjum í Hörpu og í Inuti gallerí í Stokkhólmi.

Helga starfar á vinnustofu Listvinnzlunnar og byggir verk sín upp beint á pappír eða striga, án undirbúnings skissa. Stíll hennar einkennist af festu og orku, þar sem mörg lög mynda kraftmiklar og dýnamískar myndir.

 

Apríl

GÍGJA GARÐARSDÓTTIR
f. 1987

Gígja lauk tveggja ára diplómanámi frá Kennaraháskólanum og útskrifaðist úr Myndlistarskólanum í Reykjavík árið 2017. Hún vinnur verk sín á vinnustofu Listvinnzlunnar og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga þar á meðal í Inuti gallerí í Stokkhólmi, Safnasafninu á Svalbarðseyri, í Hörpu, og á listahátíðinni List án landamæra.

Gígja sækir innblástur í tónlist og dægurmenningu og vinnur með fjölbreytta miðla, þar á meðal myndverk og skúlptúra..

 

Maí

SIGRÚN HULD HRAFNSDÓTTIR
f. 1970

Sigrún Huld var áður margverðlaunuð afreksíþróttakona í sundi en sneri sér alfarið að myndlistinni. Sigrún lauk tveggja ára diplómanámi frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2017 og hefur einnig sótt nám í Lýðháskóla í Danmörku, námskeið hjá Fjölmennt og Listaháskóla Íslands, og starfar með Listvinnzlunni.

Sigrún Huld hélt sína fyrstu einkasýningu í Eden í Hveragerði árið 1999 og hefur síðan tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, meðal annars á Safnasafninu, á Listasafni ASÍ, í Týsgallerí og á Kjarvalsstöðum. Sigrún Huld var listamanneskja Listar án landamæra árið 2014.

Sigrún Huld vinnur að mestu verk sín með akrýlmálningu á striga. Viðfangsefni hennar eru fjölbreytt: arkitektúr borga, bæja og sundlauga, dýr á láði og legi, og flóra landsins.

 

Júní, júlí, ágúst

ÞÓRIR GUNNARSSON / LISTAPÚKI
f. 1978

Þórir hélt sína fyrstu einkasýningu í Listasal Mosfellsbæjar árið 2021, og var útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar sama ár.

Þórir hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og hlotið viðurkenninguna Múrbrjótinn frá Þroskahjálp fyrir baráttu sína fyrir aðgengi að listnámi og jafnrétti í listheiminum.

Þórir lauk eins árs námi í Myndlistaskólanum í Reykjavík og hefur sótt þar fjölda námskeiða. Hann starfar með Listvinnzlunni sem listamaður og ráðgjafi og vinnur ötullega að því að gera listina aðgengilega sem flestum.

 

September

KOLBEINN JÓN MAGNÚSSON
f. 1990

Kolbeinn lauk námi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og eins árs námi í myndlist við Myndlistaskólann í Reykjavík árið 2021, auk þess að hafa sótt þar fjölda námskeiða. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og listviðburðum um land allt, þar á meðal á Safnasafninu á Svalbarðseyri og List án landamæra hátíðinni síðustu sjö ár.

Kolbeinn vinnur með fjölbreytt efni og aðferðir, til dæmis módelteikningu, keramik og gjörninga. Skúlptúrar hans í leir og gjörningar með leiklistartengingu sýna fjölhæfni hans og leikandi nálgun á listina.

 

Október, nóvember, desember

ATLI MÁR INDRIÐASON
f. 1993

Atli Már útskrifaðist úr tveggja ára diplómanámi við Myndlistaskólann í Reykjavík árið 2017 og hefur einnig sótt nám í leiklist. Hann var meðlimur hljómsveitarinnar Gunnar and the Rest, sem gaf út vínylplötu.

Atli hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar á Þjóðminjasafninu, í Listasal Mosfellsbæjar og í Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Árið 2019 var hann listamaður Listar án landamæra. Hann vinnur einnig að sviðslistum og tók þátt í sýningunni Dúettar, á Listahátíð í Reykjavík árið 2024

Verk Atla spanna myndlist, tónlist og leiklist, þar sem fjölmiðlun og tilraunir eru í lykilhlutverki.