Varðar búsetuskilyrði í lögum um almannatryggingar.

 

Landsamtökin Þroskahjálp hefur ítrekað tekið þessi mál upp við stjórnvöld og sendi í júlí og september 2016 eftirfarandi erindi til félags- og húsnæðismálaráðherra og afrit til forstjóra Tryggingastofnunar og þáverandi formanns og annarra sem þá sátu í velferðarnefnd Alþingis. Málið hefur einnig verið tekið upp á fundum með Tryggingastofnun og velferðarnefnd Alþingis.

 

Engin viðbrögð hafa komið frá þessum aðilum við þessum erindum samtakanna.

(Eftirfarandi er erindi sem sent var í júlí og september 2016)

 

Varðar búsetuskilyrði í lögum um almannatryggingar

 Til félags- og húsnæðismálaráðherra.

Afrit: Formaður velferðarnefndar og forstjóri Tryggingastofnunar.

Efni: Varðar búsetuskilyrði í lögum um almannatryggingar.

 

Landssamtökin Þroskahjálp vilja vekja athygli á eftirfarandi.

Samkvæmt a-lið 18. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er réttur til örorkulífeyris bundinn m.a. því skilyrði að viðkomandi hafi „verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu.“

 Réttur til endurhæfingarlífeyris er bundinn þessu sama skilyrði, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

 Í 1. mgr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir:  „Foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, og þeir sem barni koma í foreldra stað ráða persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga og lögum um vernd barna og ungmenna.“

 Í 1. ml. 5. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir: „Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess.“ (undirstr. okkar)

Af framangreindu leiðir að einstaklingur sem hefur öðlast lögræði (sjálfræði) við 18 ára aldur, sbr. 1. gr. lögræðislaga, en hefur ekki náð 21 árs aldri, og hefur þörf fyrir örorkulífeyri og/eða endurhæfingarlífeyri vegna fötlunar eða heilsubrests, fær ekki lífeyrinn hafi foreldrar eða forsjáraðilar hans ákveðið búsetustað hans utan Íslands einhvern tíma á þremur árum áður en hinn lögráða einstaklingur sækir um lífeyrinn, enda þótt hann uppfylli öll önnur skilyrði laga til að fá þann rétt.

 Með öðrum orðum leiða ákvarðanir sem foreldrar eða aðrir forsjáraðilar samkvæmt lögum hafa tekið um búsetustað ólögráða einstaklings á grundvelli laga sem íslenska ríkið hefur sett til þess að einstaklingurinn fær ekki eftir að hann verður lögráða (sjálfráða) lífeyrisréttinn þar sem sami aðili, þ.e. íslenska ríkið, hefur með lögum bundið þann rétt skilyrðum sem einstaklingurinn réð ekki sjálfur heldur var öðrum fengið það vald samkvæmt lögum ríkisins.

 Landssamtökin Þroskahjálp telja augljóst að ofangreint búsetuskilyrð er, í þeim tilvikum sem hér er um fjallað, afar ósanngjarnt og til þess fallið að vega alvarlega að framfærslumöguleikum og þar með sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti þeirra einstaklinga sem í hlut eiga sem þeir hafa rétt á fá og njóta við 18 ára aldur samkvæmt lögræðislögum. Í því sambandi þarf einnig að líta til þess að fatlað fólk sem og fólk sem glímir við alvarleg veikindi er vegna fötlunar sinnar og/eða veikinda mjög oft berskjaldað og háð öðrum um ýmiss konar aðstoð og stuðning.

 Samtökin telja einnig ljóst að umrætt skilyrði samræmist afar illa jafnræðisreglu íslenskra laga og stjórnarskrár sem bannar mismunun nema hún byggist á málefnalegum og nægilega veigamiklum sjónarmiðum. Þá er að mati samtakanna augljóst að þetta skilyrði eins og það er nú, fær illa staðist m.t.t. skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skyldum ríkja samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem leggur sérstaka áherslu á að ríkjum beri að tryggja fötluðu fólki tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs m.a. með því að tryggja að lög, reglur og stjórnsýsluframkvæmd stuðli að því og skapi ekki beinar eða óbeinar hindranir fyrir fatlað fólk sem vill nýta rétt sinn til sjálfstæðs og eðlilegs lífs.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið hvetjum yður til að láta fara fram vandaða skoðun og greiningu á umræddu skilyrði m.t.t. þess hvort ekki sé rétt og skylt að endurskoða það í ljósi fyrrnefndra raka og sjónarmiða í tengslum við þá endurskoðun á lögum og reglum um almannatryggingar sem nú er unnnið að í ráðuneyti yðar.

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna þroskahjálpar.

 

 

Sjá umfjöllun mbl.is hér.