Fatlað fólk er fítonskraftur, og það er Þjóðleikhússins að virkja þennan kraft.

Þjóðarleikhúsið er okkar allra. Það er eign almennings og hefur það einstaka hlutverk. Því er ætlað að glæða áhuga landsmanna á sviðslistum og stuðla að þróun og nýsköpun. Það er flaggskip.

Þjóðleikhúsið er okkar allra. Það á að stuðla að frumsköpun. Það á að hafa fjölbreytni í verkefnavali. Það á að starfa með öðrum, og auka fjölbreytni og skapa listrænan ávinning.
Þjóðleikhúsið er okkar allra og á að vera bæði framsækið og aðgengilegt.

Þjóðleikhúsið á að vera okkar allra. Sama hver við erum, hvaðan við komum, hvar við fæddumst. Óháð trú okkar, óháð húðlit, óháð því hvað bankabókin segir. Óháð því hvern við elskum. Óháð því hvort við séum fötluð.

Þjóðleikhúsið hefur sérstakt hlutverk í íslenskum lögum. Sem opinber stofnun hefur það hlutverk sem nær lengra en listina listarinnar vegna. Íslensk stjónvöld hafa nefnilega skuldbundið sig til að fylgja alþjóðlegum mannréttindasamningi um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn er kraftmikill, framsækinn og hann hefur þá sérstöðu að vera skrifaður af fötluðu fólki.

Eitt stærsta tólið sem við höfum til þess að enda aðskilnað fatlaðs fólks frá samfélaginu er sýnileikinn. Ísland, eins og önnur lönd sem hafa undirgengist samninginn, lofar því að vinna gegn staðalímyndum og fordómum á öllum sviðum lífsins. Ísland hefur lofað því að ætla að efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks. Að styrkja jákvæða ímynd, að stuðla að viðurkenningu á færni, verðleikum og getu. Að hvetja til þess að fjölmiðlar, í sinni breiðustu merkingu, gefi mynd af fötluðu fólki sem er í takt við þá mannréttindahugsun sem á að vera ríkjandi.

Og með þessum loforðum íslenskra stjórnvalda hefur Þjóðleikhúsið lofað að gera slíkt hið sama.
Þjóðleikhúsið verður að vera með í þessu ferðalagi. Við þurfum þess öll.

Samningurinn fjallar sérstaklega um þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi af þeirri einföldu ástæðu að um allan heim er sá réttur fótum troðið. Fatlað fólk er ekki með.

Ísland hefur með samningnum lofað að ætla að veita fötluðu fólki tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna hæfileika.
Ekki einungis í eigin þágu, heldur til þess að auðga samfélagið með sköpun sinni og hæfileikum.

Auðga.

Við sem samfélag lítum ekki á fatlað fólk með þeim hætti að það geti auðgað.
Á okkur er litið sem þiggjendur, einhver sem þurfa ölmusu og vorkunn. Okkur er leyft að vera með, við erum byrði ef við tökum þátt. Við erum harmleikur. Líf okkar er harmleikur í augum hins ófatlaða.

Fatlað fólk getur auðgað. Það getur veitt innblástur. Það getur styrkt. Það getur eflt.

Fatlað fólk er ekki þiggjandi áhorfandi, heldur fítonskrafturinn sem brýtur niður múra. Múra sem byggðir eru upp af litlum væntingum, vantrú, útilokun og staðalmyndum.

Fatlað fólk er fítonskraftur, og það er Þjóðleikhússins að virkja þennan kraft.