Gildi túlkaþjónustu fyrir notendur óhefðbundinna tjáskipta

Rakel Marteinsdóttir
Rakel Marteinsdóttir

Greinin birtist í 3. tölublaði Tímarits Þroskahjálpar 2020. Auðlesin útgáfa neðst.

Rakel Marteinsdóttir útskrifaðist sem þroskaþjálfi í sumar frá Háskóla Íslands. Lokaverkefni hennar „Gildi túlkaþjónustu fyrir notendur óhefðbundinna tjáskipta“ , hlaut viðurkenningu frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Lokaverkefnið var gert undir handleiðslu Jónu G. Ingólfsdóttur. Í þessari grein mun Rakel segja frá efni ritgerðarinnar en hún fjallar um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem notast við óhefðbundin tjáskipti og möguleika þeirra til þess að nýta sjálfræði sitt og taka eigin ákvarðanir, eins og samningur Sameinuðu þjóðanna (2007) kveður á um. Einnig er fjallað um gildi þess að hafa aðgang að faglegri túlkaþjónustu og stöðu þessa hóps skoðuð á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. 

Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir er hugtak sem nær yfir margskonar aðferðir til tjáskipta og eru nýttar af einstaklingum sem eiga við tjáskiptaörðugleika að etja í töluðu og skrifuðu máli. Dæmi um óhefðbundin tjáskipti eru tákn með tali, Bliss tungumálið og PECS myndir og þar sem tákn, myndir og hlutir eru iðulega notaðir sem hjálpartæki í samskiptum (ASHA, e.d.).

Aðferðunum er skipt upp í tvo meginflokka, hlutbundin tákn (e. aided communication) og hreyfitákn (e. unaided communication). Hreyfitákn eru þær aðferðir þar sem einstaklingur er ekki háður hjálpargögnum til þess að eiga í samskiptum eins og tákn með tali og látbragð. Aðferðir sem tilheyra flokki hlutbundinna tákna gera kröfu um að einstaklingur sem nýtir sér þær aðferðir notist við hjálpargögn líkt og ljósmyndir, táknmyndir eða hluti (Sigrún Grendal Magnúsdóttir, 2010).

Flæðirit. Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir er efst og skiptist í þrennt. Fyrst er hreyfitákn sem leiðir niður í látbragð, tákn með tali og táknmál heyrnarlausra. Næsta grein er Hlutbundin tákn sem flæðir niður í Hluti. Síðast er Myndræn tákn sem flæðir niður í Ljósmyndir, myndir (ýmsar), PCS (táknmyndir), Pictogram (táknmyndir), Bliss táknmál og Bókstafi.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um réttindi fatlaðs fólks til tjáskipta og mikilvægi þess að rödd þeirra fái að heyrast til jafns við aðra. Í 21. grein samningsins segir að aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki rétt sinn til tjáningar og skoðanafrelsis, þar með talið frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum til jafns við aðra með samskiptamiðli að eigin vali. Þetta er gert með því að viðurkenna og stuðla að notkun á óhefðbundnum tjáskiptaleiðum í opinberum samskiptum (Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 21. grein/2007). Miðað við það sem stendur í ofan nefndri grein um rétt fatlaðs fólks til tjáningar er hægt að gera ráð fyrir því að notendur óhefðbundinna tjáskipta hafi rétt til þess að nýta sér hjálpartæki á borð við faglega túlkaþjónustu í opinberum samskiptum.

Í siðareglum túlka á vefsíðu Túlka- og þýðingamiðstöðvarinnar (e.d.) stendur að hlutverk túlkaþjónustu sé að túlka samskipti sem eiga sér stað á milli einstaklinga sem tala sitthvort tungumálið.

Túlkurinn má ekki láta skoðanir sínar í ljós eða freistast til þess að tjá eigin viðhorf heldur ber honum skylda að túlka samskipti málsaðila eins nákvæmlega og hægt er án þess að breyta einhverju, sleppa eða bæta við (Túlka og þýðingamiðstöð Íslands, e.d.). Einstaklingur sem hefur ekki hlotið viðeigandi nám í túlkun er líklegri til þess að bæta við eða sleppa upplýsingum sem koma fram og setja eigin skoðanir í túlkunina sem getur valdið því að einstaklingurinn sem þiggur þjónustuna fær rangar eða misvísandi upplýsingar (National health and nutrition examination survey, 2006).

Sjálfræði er háð því að einstaklingar þekki þá valkosti sem þeir hafa. Af þeim ástæðum er afskaplega mikilvægt að fólk fái réttar upplýsingar þegar samtöl eru túlkuð svo það viti hvaða valkosti það raunverulega hefur og geti verið virkt í ákvarðanatöku er varðar eigið líf. Eins og staðan er á Íslandi í dag þá stendur einstaklingum sem nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir ekki til boða að nýta sér túlkaþjónustu og þarf þessi hópur því alla jafna að reiða sig á ættingja og aðra umönnunaraðila til opinberra samskipta. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks bendir einnig á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir mannlegri göfgi, sjálfræði einstaklingsins og banni við mismunun (Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 3. grein/2007). Þegar þjónustan á Íslandi við fatlað fólk er skoðuð er greinilegt að aðeins útvaldir aðilar geta nýtt sér faglegan túlk. Fatlað fólk sem notar til dæmis íslenskt táknmál, óháð því hvort um aðra fötlun er að ræða, hefur aðgengi að túlkaþjónustu á meðan að þeir sem ekki geta notað tal eða táknmál fara á mis við þjónustuna. Af þeim sökum fá þeir sem nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir ekki sama tækifæri til þess að öðlast eða þróa sjálfræði sitt og aðrir, en í því felst mismunun.

„Taltjänst“ er túlkaþjónusta sem veitir þjónustu til þeirra sem eru með fötlun sem hefur áhrif á rödd, tal eða tungumálagetu fólks. Þjónustan aðlagar sig að þeirri samskiptaleið sem skjólstæðingar þeirra nota og túlkarnir gefa sér tíma til þess að kynnast skjólstæðingnum og hans þörfum (Habilitering & Hälsa, e.d.). Auk þess má benda á að Íslendingar vilja iðulega bera sig saman við hin Norðurlöndin og voru meðal fyrstu þjóðanna sem skrifuðu undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á sínum tíma. Við viljum vera fyrirmyndar þjóð og því þurfum við að gæta þess eftir fremsta megni að það sé ekki að neinum vegið hvað réttindi varðar.

GoTalk samskiptatæki

Fatlað fólk hefur oft ekki haft frelsi til þess að viðra skoðanir sínar og hugmyndir um eigið líf í gegnum tíðina. Í 19. grein samnings Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að aðildarrríki viðurkenni jafnan rétt alls fatlaðs fólks til þess að lifa í samfélaginu og rétt til þess að hafa jafna valkosti á við aðra.

Aðildarríki eiga þess vegna að gera viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir svo fatlað fólk geti notið réttar síns til fulls og geti tekið þátt í samfélaginu að fullu. Það er gert með því að tryggja að fötluðu fólki sé veittur aðgangur að margskonar þjónustu, meðal annars nauðsynlegri þjónustu til þess að getað lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun (Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 19. grein/2007). Einstaklingur sem getur ekki átt í samskiptum við aðra án aðstoðar þriðja aðila á erfiðara með að taka virkan þátt í samfélaginu og ákvarðanatöku er varðar eigið líf þegar skortur er á faglegri túlkaþjónustu.

Af þessum ástæðum má segja að túlkaþjónusta sé nauðsynleg þjónusta fyrir notendur óhefðbundinna tjáskipta til þess að þessir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu, lifað án aðgreiningar og notið valfrelsis til jafns við aðra.

Rakel Marteinsdóttir

AUÐLESIÐ

 • Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir er notað þegar við erum að tala um margskonar aðferðir til tjáskipta.

 • Þær eru nýttar af þeim sem eiga erfitt með að tjá sig í töluðu og skrifuðu máli.   

 • Dæmi um óhefðbundin tjáskipti eru: Tákn með tali, Bliss tungumálið og PECS myndir

 • Í samningi Sameinuðu þjóðanna er sagt að fatlað fólk eigi rétt til tjáskipta og að það sé mikilvægt að rödd þeirra fái að heyrast.

 • Í 21. grein samningsins segir að það eigi að tryggja fötluðu fólki rétt til að tjá sig og hafa skoðanir.

 • Og frelsi til að miðla upplýsingum með samskiptamiðli að eigin vali.

 • Þetta er gert með því að viðurkenna og stuðla að notkun á óhefðbundnum tjáskiptaleiðum í samskiptum.

 • Notendur óhefðbundinna tjáskipta hafa rétt til þess að nýta sér hjálpartæki á borð við faglega túlkaþjónustu í opinberum samskiptum.

 • Í siðareglum túlka stendur að hlutverk þeirra sé að túlka samskipti á milli fólks sem talar sitthvort tungumálið.

 • Túlkurinn má ekki láta skoðanir sínar í ljós.

 • Hann á að túlka samskipti eins nákvæmlega og hægt er.

 • Það má ekki bæta við eða sleppa upplýsingum sem koma fram.

 • Það má ekki setja eigin skoðanir í túlkunina.

 • Það getur valdið því að einstaklingurinn sem þiggur þjónustuna fær rangar upplýsingar.

 • Sjálfræði er háð því að einstaklingar þekki þá valkosti sem þeir hafa.

 • Þess vegna er mikilvægt að fólk fái réttar upplýsingar.

 • Fólk sem notar íslenskt táknmál, hefur aðgengi að túlkaþjónustu.

 • Á Íslandi stendur þeim sem nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir ekki til boða að nýta sér túlkaþjónustu.

 • Þessi hópur reiðir sig á ættingja og aðra umönnunaraðila til opinberra samskipta.

 • Þeir sem ekki geta notað tal eða táknmál fara á mis við þjónustuna. Í því felst mismunun.

 • Í 19. grein samnings S. þ. er viðurkenndur jafn réttur alls fatlaðs fólks til þess að hafa jafna valkosti á við aðra.

 • Aðildarríki eiga að gera ráðstafanir svo fatlað fólk geti notið réttar síns til fulls.

 • Túlkaþjónusta er nauðsynleg fyrir notendur óhefðbundinna tjáskipta svo þeir geti notið valfrelsis til jafns við aðra.