Baráttan heldur áfram: viðtal við Freyju Haraldsdóttir

Viðtalið birtist fyrst í 2. tölublaði Tímaritis Þroskahjálpar 2019. Auðlesin útgáfa er neðst á síðunni.

Freyja Haraldsdóttir, doktorsnemi og baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks, stendur nú í strangri baráttu við stjórnvöld um rétt sinn til réttlátrar málsmeðferðar en hún vill fá að ljúka umsóknarferli um að gerast fósturforeldri. Málið fer fyrir Hæstarétt á næstunni.

Um svipað leyti og mál Freyju fór fyrir Landsrétt þar sem það vannst fyrir dómstólum kom hið svokallaða Klaustursmál upp. Þar létu þingmenn Miðflokksins falla afar niðrandi ummæli um þingkonur, hinsegin fólk og fatlað fólk. Í samtalinu sem náðist á upptöku var Freyja nafngreind og hún niðurlægð. Freyja tók á móti ritstjóra tímarits Þroskahjálpar á heimili hennar í Hafnarfirði á dögunum þar sem þau ræddu málið sem brátt fer fyrir Hæstarétt, foreldrahlutverkið og Klaustursmálið.

Mál Freyju gegn Barnaverndarstofu hefur vakið athygli landsmanna en misskilnings gætir í umræðunni um það. Þegar Freyja er spurð á hvaða mannréttindi fatlaðs fólks reyni sérstaklega í málinu segir hún: „Í grunninn reynir helst á bann við mismunun í málsmeðferðinni sem snýr að því að fatlað fólk skuli hafa aðgang að réttlátri málsmeðferð og að óheimilt sé að mismuna á grundvelli fötlunar. Það er kannski það sem málið í raun snýst um.“ Mál hennar varðar ekki síður réttinn til fjölskyldulífs, sem eru skilgreind sérstaklega í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar er kveðið á með beinum hætti að það megi ekki mismuna fólki á grundvelli fötlunar í ættleiðingarferlum og öðru sambærilegu.

„Það er einnig margt í málinu sem varðar íslenska löggjöf. Ísland er til dæmis nýbúið að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) en afstaða Barnaverndarstofu í málinu verður ekki skilin með öðrum hætti en svo að það sé skaðlegt fyrir börn að alast upp hjá foreldrum sem nýta sér NPA. Þarna eru augljósar mótsagnir í afstöðu stjórnvalda til NPA, því að á sama tíma og stjórnvöld eru búin að lögfesta NPA sem viðurkennt þjónustuform fyrir fatlað fólk er mjög undarlegt að sömu stjórnvöld telji það síðan vera skaðlegt þjónustuform. Á það benti Landsréttur.“

Málið þýðingarmikið fyrir allt fatlað fólk

Að sögn Freyju var niðurstaða Landsréttar að rannsóknarregla hafi verið brotin og að mismunað hafi verið á grundvelli fötlunar. „Það liggja fyrir fjöldi meðmæla. Bæði frá aðstandendum sem hafa sett börn sín í mína umsjá og fyrrverandi yfirmönnum þar sem ég hef unnið með börnum. Einnig var lagt fram læknisvottorð um að ég væri með fötlun, en að hún ætti ekki að koma í veg fyrir að ég gæti annast barn. Það voru sem sagt fullt af gögnum sem gáfu til kynna að fötlun væri ekki hindrun í þetta hlutverk. Barnaverndarstofa hunsaði í raun þessi gögn en drógu hins vegar bara fram þá neikvæðu þætti sem gætu fylgt því að vera fósturforeldri sem voru í ofanálag ekki byggðir á rökum. Einu gögnin sem Barnaverndarstofa hefur notað til að færa rök fyrir máli sínu eru almennar rannsóknir sem þau handvelja og mat frá fagfólki sem hefur aldrei hitt mig.“ Þessi niðurstaða Landsréttar þýðir að Barnaverndarstofa hafi ekki kynnt sér öll fyrirliggjandi gögn.

Stofnunin gaf Freyju ekki leyfi til þess að sækja námskeið sem eru hluti af matsferlinu til þess að taka barn í fóstur. Þar hefði, að sögn Freyju, verið tækifæri til þess að fækka þeim óvissuþáttum sem Barnaverndarstofa telur að séu fyrir hendi um hæfni hennar til þess að verða fósturforeldri. Freyja segir að málið geti haft mikla þýðingu fyrir allt fatlað fólk. „Það var ein af þeim ástæðum að ég fór í þessa vegferð, þó mig langaði auðvitað fyrst og fremst að gerast foreldri.“ segir Freyja. Hún segir jafnframt að niðurstaðan sé óásættanleg og sýni afdráttarlausa fordóma í garð fatlaðs fólks. „Ef þetta verkferli er viðurkennt af dómstólum og stjórnvöldum þá má færa rök fyrir því að réttur fatlaðs fólks sé í mikilli hættu“ og nefnir þar dæmi um hvort hafna megi umsókn fatlaðs fólks til skólagöngu og atvinnu án þess að meta ferilskrá og meðmæli. „Þau viðhorf sem birtast í málflutningi Barnaverndarstofu eru að mörgu leiti sambærileg og þau viðhorf sem fólk með þroskahömlun verður gjarnan fyrir með þeim afleiðingum að það tapar oftar forræði en ófatlað fólk og af mun minna tilefni. Það er því einnig mjög mikilvægt að að láta á reyna fyrir dómsstólum hvort fatlað fólk hafi sambærileg tækifæri til barneigna og ófatlað fólk. Einnig má benda á að þau rök sem eru notuð gegn mér í málinu, einhverjar óstaðfestar vangaveltur um hvort ég sé vanhæf móðir, hafa í gegnum söguna ýtt undir þvingaðar ófrjósemisaðgerðir og þungunarrof á fötluðu fólki. Það er grafalvarlegt.“

Þegar Freyja er spurð út í þýðingu þess fyrir mál hennar að taka samning SÞ inn í íslensk lög og fullgilda valkvæða viðaukann segir hún það mikilvægt. „Í Héraðsdómi, þar sem ég tapaði málinu, notaði dómarinn það gegn mér að samningurinn væri ekki lögfestur og þess vegna bæri honum ekkert sérstaklega að taka tillit til hans. Að mínu mati er það auðvitað fásinna, en það er greinilega hægt að nýta sér það gegn fötluðu fólki.“ Hún segir að svo hafi ekki verið í Landsrétti, sem byggði niðurstöður sínar að hluta til á samningnum. Afstaða dómara sé ólík. „Auðvitað ber aðildarríki sem er búið að fullgilda samninginn og undirrita að fara eftir honum. En þau íhaldsöfl sem vilja ekki tileinka sér þau vinnubrögð sem fylgja eðlilegri framþróun í málaflokknum geta falið sig á bak við þá staðreynd að þetta er ekki orðið að lögum. Ég held að það myndi alltaf styrkja stöðu fatlaðs fólks ef samningurinn væri lögfestur. Þá bæri að virða hann. Einnig er mjög vont að valfrjálsa bókunin sé ekki enn fullgild vegna þess að þá hefur fatlað fólk ekki möguleika á að kvarta undan misrétti og brot á samningnum til Sameinuðu þjóðanna.“

Heimilið stofnanalegt vegna NPA

Mál Freyju fór fyrir Landsrétt fyrr á þessu ári og sigraði hún. Barnaverndarnefnd ætlar ekki að una niðurstöðu dómstólsins og hefur áfrýjað málinu til Hæstaréttar. „Ég vona auðvitað fyrir mína hönd og annars fatlaðs fólks að Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar. Þannig er búið að viðurkenna að það sé ólögmætt að mismuna á grundvelli fötlunar og það myndi styrkja stöðu fatlaðs fólks þegar það þarf að sækja rétt sinn, að við fáum almennilega málsmeðferð og að mál séu rannsökuð til hlítar.“

Hún segir að sérstaka eftirtekt veki að í dómi Landsréttar sé bent á þá mikilvægu staðreynd að fötlun og veikindi séu ekki sjálfkrafa sami hluturinn, og að þeim megi ekki rugla saman. „Það hefur verið stór hluti af sögunni að sjúkdómsvæða fatlað fólk. Landsréttur tekur einnig fram að NPA eigi ekki að verða til þess að hindra þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu heldur tæki til að stuðla frekar að henni. Þetta á líka við um menntun og atvinnutækifæri. Vonandi getur þetta líka leitt til þess að foreldrar með þroskahömlun fái greiðari aðgang að NPA við að sinna foreldrahlutverkinu.“

Aðspurð segist Freyja finna fyrir mjög miklum fordómum og segir þá taka á sig ýmsar myndir. „Fyrst og fremst hef ég fundið fyrir fordómum hjá Barnaverndarstofu. Það er upphaf og endir þessa alls. Stofan heldur því fram að heilsan mín sé ekki nægilega góð til þess að annast barn. Þau gera ekki greinarmun á heilsu og fötlun.“

Freyja segir að Barnaverndarstofa haldi því einnig fram að heimili hennar sé stofnanalegt því hún hafi aðstoðarfólk á heimilinu. „Það er ótrúlega sárt að að vera búin að berjast af öllum sálar og lífsins kröftum fyrir NPA til þess að vinna gegn stofnanavæðingu fatlaðs fólks, einkum barna, en vera svo sökuð um að halda úti stofnun heima hjá mér. Svo til þess að bæta gráu ofan í svart er Barnaverndarstofa á sama tíma að stofnanavista fósturbörn, bæði á áfangaheimilum og skammtímadvölum og ýmsum úrræðum sem þau reka sem eru í raun nákvæmlega eins og þau segja að mitt heimili sé en það er auðvitað ekki.“

Allir þiggja einhverja aðstoð

Barnaverndarstofa heldur því fram að Freyja geti ekki veitt barni líkamlega nánd og því ekki alið upp barn. „Fötlun mín á að koma í veg fyrir að ég geti tengst barninu tilfinningalega og sömuleiðis að barnið geti tengst mér. Það er ekkert sem staðfestir þetta í neinum fræðum að hreyfhamlað fólk geti ekki tengst hverjum sem er og þetta gengur þvert á mína persónulega reynslu. Ég hef starfað yfir áratug með börnum og ég er einnig rík af börnum í mínu lífi. Ég hef aldrei upplifað það að þau eigi í einhverju basli með að tengjast mér, reyndar þvert á móti.“

Freyja segir erfitt að sitja undir ásökunum sem þessum og að almenningur taki oft undir þær án þess að hafa kynnt sér málið. „Það er nógu erfitt að sitja í dómssal og heyra hvernig talað er um heimili mitt, líkama og líf en umræðan í kringum málið tekur ekki síður á. Kommentakerfið er stundum fullt að hrottalegum hlutum og ótrúlegt hvað fer þar fram. Að sumu leyti kom það ekkert á óvart, en maður vill samt alltaf trúa því besta upp á fólk. Það virðist þó því miður vera mjög lítill skilningur og áhugi á að kynna sér málið.“ Freyja segir lítinn skilning á því að þó fólk þurfi aðstoð, geti það líka veitt hana. „Mér er stillt upp sem passívri manneskju sem liggur bara þarna og hefur ekkert fram að færa eða ekkert að gefa, af því að ég þarf aðstoð.“ Hún bendir á að fólk fái allskyns aðstoð við barnauppeldi: „Fólk nýtir sér leikskóla og frístund. Sumir eru með barnfóstrur eða Au Pair. Fólk kaupir sér „take-away” mat sem einhver annar eldar. Það sem ég á við að það eru langflestir nýta sér einhvers konar aðstoð við uppeldi og heimilisstörf. Foreldrahlutverkið á sér aldrei stað í einangrun óháð því hvort foreldrar eru fatlaðir eða ekki. Það að ég fái aðstoð við að reima skó barns eða elda kvöldmatinn dregur ekki á nokkurn hátt úr verðmæti mínu sem móður. “

Óvenjuleg framganga gegn borgara

Mál Freyju hefur staðið yfir í fimm ár og segist hún orðin þreytt. „Þetta hefur tekið mikið á. Þó allt fari á besta veg er mikil vinna eftir. Ég þarf að sækja námskeiðið, fara á biðlista og fleira. En það geri ég að sjálfsögðu glöð til leiðarenda.“

Freyja segir að ef allt fari á versta veg fyrir dómsstólum hér heima geti hún farið áfram með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, en hefur ekki ákveðið hvort hún muni gera það. Ekki hafi verið sjálfgefið að fara með málið fyrir Landsrétt. „Ég er glöð með að hafa tekið ákvörðun um að fara með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur áfram fyrir Landsrétt en það var þungbær ákvörðun, ég var niðurbrotin, Það var einnig áfall þegar Barnaverndarstofa ákvað að áfrýja niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar.“ Að sögn Freyju hefur Barnaverndarstofa ekki sýnt auðmýkt eða vilja til að hlíta þeim dómi. „Þau eru mjög föst í því að þetta ógni réttindum barna og hugmyndin um það að ég geti mögulega orðið fósturforeldri muni ógna réttindum allra fósturbarna.

En eins og Landsréttur benti á í sínum dómi þá er málið ekki einu sinni komið á það stig að hægt sé að meta það, þannig að það er ekki einu sinni tímabært að ræða það á þann hátt.“ Hún segir að athyglisvert og áhyggjuefni sé að stjórnvöld gangi fram með þessum hætti gegn borgara því að valdastaðan sé afar ójöfn. Hún furðar sig á því að ekki sé hægt að setjast niður og komast að niðurstöðu. „Umsóknin mín um að gerast fósturforeldri er mjög opin. Ég gerði til dæmis engar kröfur um tiltekin aldur barns. Það er vöntun á fósturforeldrum fyrir táninga og unglinga sem eru nú oftast hópar sem þurfa ekki mikla líkamlega umönnun. Þeir þurfa fyrst og fremst ástríkt og öruggt heimili, leiðsögn, hvatningu, mörk, stuðning og heilbrigð samskipti. En það er enginn vilji fyrir slíkri umræðu hjá Barnaverndarstofu.“

Ummælin á Klausturbar komu ekki á óvart

Mynd af Freyju Haraldsdóttur fyrir framan Alþingishúsið

Þegar Freyja rak mál sitt fyrir Landsrétti kom Klaustursmálið upp. Málið snérist um að niðrandi ummæli þingmanna Miðflokksins í garð þingkvenna, hinsegin fólks og fatlaðs fólks náðust á upptöku. Freyja var nafngreind í upptökunum og hún niðurlægð af þingmönnunum. Hún segist ekki hissa á ummælunum: „Það eru ekki nýjar fréttir fyrir mér að það sé verið að smána mig og minn líkama, eða annað fatlað fólk. Það sem sagt var um mig og annað fatlað fólk í þessum upptökum er veruleiki sem við búum við alla daga. Ég veit til dæmis ekki hversu mörgum dýrum mér hefur verið líkt við í gegnum tíðina.“

Hún viðurkennir þó að málið hafi aukið mjög á álagið á þeim tíma sem hún var fyrir dómstólum en að fordómarnir vegna fósturforeldrismálsins særi miklu dýpra en það sem sagt var á Klausturbar. „Það sem er þó alvarlegast í Klausturmálinu er að þar er fólk í valdastöðu, þingmenn og fyrrverandi ráðherrar, sem eiga að vera fyrirmyndir og gæta hagsmuna okkar allra, það sýna þau ekki með þessu framferði.“

Hún segir að niðurstaða Siðarnefndar Alþingis hafi verið henni óskiljanleg og gert málið enn verra. Þar segi að ummælin sem þingmennirnir létu falla skaði ímynd Alþingis, og því gefið til kynna að ímynd Alþingis skiptir meira máli en líðan þolenda. „Niðurstaða Siðanefndar var einnig að ekki væri hægt að sanna að umræða um mig og annað fatlað fólk hafi haft skaðleg áhrif á okkur. Mér er fyrirmunað að skilja hvaða munur er á því að tala niður til kvenna og að tala niður til fatlaðs fólks. Ég held að þessi niðurstaða hafi sært mig einna mest, því að með þessu er verið að segja að það sé ekki eins alvarlegt að ég verði fyrir kvenfyrirlitningu og að Lilja Alfreðsdóttir verði fyrir kvenfyrirlitningu.“

Freyja segir að þannig opinberist enn og aftur afstaða stjórnvalda um að fatlað fólk sé minna virði en ófatlað fólk. „En baráttan heldur áfram. Maður tekur bara eitt skref í einu, reynir að horfa á heildarmyndina og mikilvægi hennar fyrir réttarstöðu okkar allra.“

Landssamtökin Þroskahjálp þakka Freyju fyrir kjark hennar og áralanga baráttu fyrir réttindum fatlaðs fólks, með bestu óskum um gott gengi. Þroskahjálp mun fylgjast náið með framvindu þessa mikilvæga mannréttindamáls í Hæstirétti.

 

AUÐLESIÐ

  • Freyja Haraldsdóttir er doktorsnemi og baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks.

  • Hún stendur nú í baráttu um rétt sinn til að fá að sækja um að gerast fósturforeldri. Málið fer fyrir Hæstarétt á næstunni.

  • Hvaða mannréttindi fatlaðs fólks reynir á í dómsmáli þínu gegn Barnaverndarstofu?

    • Í grunninn reynir helst á bann við mismunun. Það er bannað að mismuna á vegna fötlunar. Það er það sem málið snýst um.

    • Það er mælt með mér sem fósturforeldri frá heimilisumdæminu en síðan stoppar ferlið strax.

    • Svörin frá Barnaverndarstofu eru að ég sé ekki hæf. Það er búið að ákveða það áður en ég fæ að fara á matsnámskeiðið.

    • Ég fæ ekki að fara venjulega leið sem allir aðrir fara. Þarna er hrein og klár mismunun.

    • Niðurstaðan er óásættanleg og sýnir fordóma í garð fatlaðs fólks.

    • Ef þetta verkferli er viðurkennt af dómstólum og stjórnvöldum þá er réttur fatlaðs fólks í mikilli hættu.

  • Er eitthvað í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem reynir á í málinu?

    • Já það þarf að fara eftir öllum reglum. Það eru skýr ákvæði og almennir mannréttindasamningar sem banna mismunun.

    • Eins er með stjórnarskránna. Hún bannar einnig mismunun.

  • Hefði það þýðingu í málinu ef samningur SÞ hefði verið tekinn í íslensk lög og viðaukinn við hann verið fullgiltur?

    • Já. Í Héraðsdómi þar sem ég tapaði málinu notaði dómarinn það gegn mér að samningurinn væri ekki lögfestur og þess vegna þurfti hann ekki að taka tillit til hans.

  • Hefur þú fundið fyrir fordómum hjá opinberum aðilum, fjölmiðlum og almenningi vegna málsins?

    • Mjög miklum. Fordómarnir birtast víða og í ýmsum myndum.

  • Hvernig gekk að sækja um vinnu. Lentirðu í einhverjum hindrunum þar?

    • Ég lenti aldrei í neinum fordómum þegar ég sótti um vinnu. Mér var alltaf tekið mjög vel.

    • Ég var ekki með NPA fyrst þegar ég byrjaði að vinna í leikskóla en fékk aðstoð frá starfsfólki skólans. Þetta gekk mjög vel og ég fann mér leiðir til að annast börnin.

  • Viltu segja eitthvað um Klausturmálið og niðurstöðu þess hjá Siðanefnd?

    • Ég er ekkert hissa á þeim orðum sem þarna voru sögð.

    • Það sem sagt var um mig og annað fatlað fólk í þessum upptökum er veruleiki sem við búum við alla daga. Það er ótrúlegt hvað fólk leyfir sér að segja.

    • Þetta minnir mann á hversu viðkvæm staðan er hjá fötluðu fólki.

    • En baráttan heldur áfram. Maður tekur bara eitt skref í einu. Málið er mikilvægt fyrir réttarstöðu okkar allra.