Skorað á félagsmálaráðherra að tryggja umönnunargreiðslur til foreldra í COVID-19 faraldrinum

Fundur stjórnar og aðildarfélaga Landssamtakanna Þroskahjálpar, haldinn laugardaginn 7. nóvember 2020, skorar á félagsmálaráðherra að tryggja greiðslur til foreldra sem þurfa að vera frá vinnu vegna umönnunar og stuðnings við fötluð börn sín vegna skertrar þjónustu í tengslum við COVID-19 eða vegna verndarsóttkvíar. Mikilvægt er að sá réttur nái einnig til foreldra  fullorðins fatlaðs fólks sem býr í foreldrahúsum og einnig annarra aðstandenda fatlaðs fólks sem taka þetta að sér.

 

Greinargerð

Fatlað fólk á skýran rétt á margvíslegri þjónustu og stuðningi sem það þarf á að halda. Þessi réttur er tryggður í íslenskum lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016 og skulbundu sig þar með til að framfylgja.  Þegar skólum og/eða ýmis konar þjónustu er lokað eða skert vegna sóttvarnarráðstafana verður fatlað fólk sem almennt fær þjónustu þar að vera heima en getur oft ekki, vegna fötlunar eða veikinda, verið þar eitt. Það leiðir til þess að aðstandendur, oftast foreldrar, þurfa að sinna þeim lögbundnu skyldum sem í raun hvíla á stjórnvöldum.

Í september síðastliðinn felldi Alþingi tillögu minnihluta velferðarnefndar um að úrræði um greiðslu launa í sóttkví nái til fólks sem annast fötluð eða langveik börn og getur ekki sinnt vinnu vegna skerðingar á lögbundinni þjónustu hins opinbera við þau vegna faraldursins.

Stjórn og aðildarfélög Landssamtakanna Þroskahjálpar lýsa miklum vonbrigðum með þá ráðstöfun og skora því á félagsmálaráðherra að tryggja greiðslur til foreldra og/eða annarra aðstandenda sem þurfa að vera frá vinnu til að sinna umönnun og stuðningi við fatlaða einstaklinga, börn eða fullorðna sem búa í foreldrahúsum, vegna skertrar þjónustu vegna áhrifa COVID-19.

Augljóst er að um óhjákvæmilegar fjarvistir frá vinnu er að ræða þar sem foreldrar eða aðstandendur sinna þá þjónustu sem er lögbundin og alla jafna veit utan heimilis og verða af tekjum á meðan.

Hér er um mikið réttlætismál að ræða sem þarf að bregðast við tafarlaust!