Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, formálsorð 4

Formálsorð.

Ríkin, sem eiga aðild að samningi þessum,

d) sem minnast alþjóðasamningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningsins um afnám alls kynþáttamisréttis, samningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningsins gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu, samningsins um réttindi barnsins og alþjóðasamningsins um verndun réttinda allra farandlaunþega og fjölskyldumeðlima þeirra,

e) sem viðurkenna að hugtakið fötlun er breytingum undirorpið og að rekja má fötlun til víxlverkunar milli skertra einstaklinga og viðhorfstengdra tálma og umhverfishindrana sem koma í veg fyrir fulla og virka þátttöku þeirra í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli,

k) sem hafa af því áhyggjur að þrátt fyrir þá margvíslegu gerninga og skuldbindingar er áður getur er fatlað fólk eftir sem áður hindrað í að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra og stendur frammi fyrir því að mannréttindi þess eru brotin alls staðar í heiminum,

p) sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum sem fatlað fólk, sem reynir fjölþætta eða stóraukna mismunun sakir kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna eða frumbyggjaættar, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu, stendur frammi fyrir,

r) sem viðurkenna að fötluð börn ættu að njóta til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn og minnast skuldbindinga í þá veru sem ríki, sem eru aðilar að samningnum um réttindi barnsins, hafa undirgengist,

t) sem vilja draga fram þá staðreynd að meirihluti fatlaðs fólks lifir í fátækt og viðurkenna í því sambandi að knýjandi þörf er á að vinna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem fátækt hefur á fatlað fólk,

v) sem viðurkenna gildi þess að fötluðu fólki sé tryggt aðgengi að hinu efnis-, félags-, efnahags- og menningarlega umhverfi, njóti heilbrigðis og menntunar og aðgengis að upplýsingum og samskiptamiðlum til þess að það megi njóta allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls,

x) sem eru þess fullviss að fjölskyldan er hin eðlilega undirstöðueining samfélagsins og að samfélaginu og ríkinu beri skylda til að vernda hana og enn fremur að fötluðu fólki og fjölskyldum þess beri nauðsynleg vernd og aðstoð til þess að fjölskyldum verði gert kleift að leggja sitt af mörkum til þess að fatlað fólk geti notið réttinda sinna til fulls og jafns við aðra,

y) sem eru þess fullviss að gerð alþjóðasamnings, sem er alhliða og heildstæður að allri gerð, í því skyni að auka og vernda réttindi og göfgi fatlaðs fólks yrði mikilvægt framlag til þess að bæta úr óviðunandi félagslegri aðstöðu fatlaðs fólks og myndi stuðla að framgöngu þess sem borgara og þátttöku í stjórnmálum og efnahags- og menningarlífi til jafns við aðra, bæði í þróunarlöndum og iðnríkjum,