Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, greinar 4

3. grein Almennar meginreglur.
Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:

b) bann við mismunun,

c) að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar,

d) virðing fyrir því sjónarmiði að fatlað fólk sé ólíkt og viðurkennt í þeim skilningi að um mannlega fjölbreytni og mannlegt eðli sé að ræða,

e) jöfn tækifæri,

h) virðing fyrir síbreytilegri getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína,

5. gr. Jafnrétti og bann við mismunun.
1. Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt, án nokkurrar mismununar, á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt.

2. Aðildarríkin skulu leggja bann við hvers kyns mismunun vegna fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og nægilega réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.

3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.

7. gr. Fötluð börn.
1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn.

2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska, til jafns við önnur, börn og veita þeim aðstoð, þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs, til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

8. gr. Vitundarvakning.
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:

a) til þess að vekja þjóðfélög til vitundar, m.a. fjölskylduna, um fatlað fólk og auka virðingu fyrir réttindum þess og meðfæddri göfgi,

b) til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, m.a. þeim sem heimfæra má til kyns og aldurs, á öllum sviðum mannlífs,

2. Meðal ráðstafana í þessu skyni má nefna:
a) að hefja og vinna stöðugt að átaksverkefnum um vitundarvakningu hjá almenningi sem miða að því:

i. að gera almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks,

ii. að stuðla að jákvæðri ímynd fatlaðs fólks og efla vitund í samfélaginu um málefni þess,

iii. að færni, verðleiki og geta fatlaðs fólks sé viðurkennd í ríkari mæli, ennfremur framlag þess til vinnustaða sinna og vinnumarkaðarins í heild,

b) að ýta undir það sjónarmið, á öllum skólastigum, þ.m.t. hjá börnum frá unga aldri, að virða beri réttindi fatlaðs fólks,

c) að hvetja alla fjölmiðla til þess að gefa mynd af fötluðu fólki sem samræmist tilgangi samnings þessa,

23. gr. Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.
1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi:

a) að réttur alls fatlaðs fólks, sem til þess hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,

b) að réttur fatlaðs fólks til óheftrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, þar sem tekið er tillit til aldurs, að upplýsingum og fræðslu um getnað og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu tiltæk nauðsynleg ráð sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt.

c) að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.

2. Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks með tilliti til lögráða, forráða,  fjárhalds eða ættleiðingar barna eða svipaðrar íhlutunar, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum,  og skal setja hagsmuni barnsins ofar öllu. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð  við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.

4. Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.
5. Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda er ófær um að annast fatlað barn, að fá annan aðila innan stórfjölskyldunnar til þess að annast barnið og reynist það ekki unnt þá ráðstafa því til fjölskyldu innan samfélagsins.
 
24. gr. Menntun.
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu, í því skyni að þessi réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri, koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og símenntun sem miða að því:

a) að auka mannlega getu til fulls og tilfinningu fyrir meðfæddri göfgi og eigin verðleikum og auka virðingu fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni,

b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,

c) að gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þátttakendur í frjálsu þjóðfélagi.

2. Til þess að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:

a) að fatlað fólk sé ekki útilokað frá hinu almenna menntakerfi vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi, eða námi á framhaldsskólastigi, vegna fötlunar,

b) að fatlað fólk hafi aðgang að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, til jafns við aðra í þeim samfélögum þar sem það býr,

c) að viðkomandi einstaklingur njóti viðeigandi aðlögunar til þess að þörfum hans sé mætt,

d) að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning, innan hins almenna menntakerfis, til þess að stuðla að haldgóðri menntun þess,

e) að árangursríkar, einstaklingsbundnar stuðningsaðgerðir séu boðnar fram í umhverfi sem ýtir hvað mest undir framvindu í námi og félagslega þróun sem aftur samræmist því markmiði að fatlað fólk geti lifað í samfélaginu án nokkurrar aðgreiningar.

3. Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem þjóðfélagsþegnar. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:

a) auðvelda fötluðu fólki að læra blindraletur, óhefðbundna skrift, bættar og óhefðbundnar samskiptaaðferðir, -leiðir og -form og færni í áttun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjaaðstoð og handleiðslu,

b) auðvelda fötluðu fólki að læra táknmál og stuðla að samsemd heyrnarlausra með tilliti til tungumáls,

c) tryggja að menntun einstaklinga, og þá sérstaklega barna, sem eru blindir, heyrnarlausir eða daufblindir, fari fram á þeim tungumálum og samkvæmt og eftir þeim aðferðum og leiðum sem henta viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem ýtir hvað mest undir framvindu í námi og félagslegan þroska.

4. Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, þ.m.t. fatlaða kennara, sem eru sérhæfðir í táknmáli og/eða blindraletri, og að þjálfa fagmenn og starfsmenn sem starfa á öllum sviðum menntakerfisins. Fyrrnefnd þjálfun skal meðal annars fela í sér vitund um fötlun og notkun bættra og óhefðbundinna aðferða, leiða og forma í samskiptum, auk kennslutækni og kennsluefnis sem er ætlað að styðja fatlað fólk.

5. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi og að það fái aðgang að starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

26. gr. Hæfing og endurhæfing.
1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir, m.a. annars með tilstyrk jafningjaaðstoðar, til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast sem mest sjálfstæði, fulla líkamlega, andlega og félagslega getu, ásamt starfsgetu, og að vera þátttakendur í lífinu á öllum sviðum án aðgreiningar, ásamt því að viðhalda þessum gæðum. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka þjónustu og áætlanagerð á sviði alhliða hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim hætti að fyrrnefnd þjónusta og áætlanir:

a) hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrk hvers einstaklings um sig,

b) stuðli að þátttöku í samfélaginu og þjóðfélaginu á öllum sviðum án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst samfélögum þess, einnig til sveita.

2. Aðildarríkin skulu stuðla að vexti og viðgangi grunnþjálfunar og stöðugrar þjálfunar fagmanna og starfsmanna sem vinna við hæfingu og endurhæfingu.

3. Aðildarríkin skulu gera gangskör að því að hjálpartæki og -gögn, sem eru hönnuð fyrir fatlað fólk, séu á boðstólum, þekking á þeim sé til staðar og að þau séu notuð í þágu hæfingar og endurhæfingar.

27. gr. Vinna og starf.
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, m.a. fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að mynda með lagasetningu, til þess meðal annars:

a) að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, m.a. nýskráningar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,

b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, m.a. jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað, þ.m.t. vernd gegn stöðugri áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,

c) að tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að nýta sér atvinnuréttindi sín og réttindi sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,

d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa með virkum hætti aðgang að tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfsþjálfun og símenntun sem almenningi stendur til boða,

e) að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,

f) að stuðla að tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,
g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,

h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,

i) að tryggja að fatlað fólk á vinnustað fái notið viðeigandi aðlögunar,

j) að stuðla að því að fatlað fólk geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,

k) að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðs fólks, að því að það haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að það geti snúið aftur til starfa.

2. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu. - 18 –

28. gr. Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.

2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar vegna fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, m.a. ráðstafanir:

a) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt til aðgangs að hreinu vatni og að tryggja aðgang að viðeigandi þjónustu, tækjabúnaði og annarri aðstoð gegn viðráðanlegu gjaldi vegna þarfa sem tengjast fötlun,

b) til þess að tryggja fötluðu fólki, einkum fötluðum konum og stúlkum og fötluðu eldra fólki, rétt til þátttöku í áætlunum á sviði félagslegrar verndar og áætlunum um að draga úr fátækt,

c) til þess að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að mæta útgjöldum vegna fötlunar, þ.m.t. útgjöld vegna viðeigandi þjálfunar, ráðgjafar, aðstoðar í fjármálum og hvíldarumönnunar,

d) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að áætlunum um byggingu húsnæðis á vegum hins opinbera,

e) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að eftirlaunum og eftirlaunasjóðum.