Vegna tölvuárásar á kerfi Strætó

 

AUÐLESIÐ

  • Hópur af tölvu-þrjótum braust inn í tölvukerfi Strætó.
  • Þeir vildu fá peninga frá Strætó og sögðust ætla að setja upplýsingarna á netið.
  • Þeir náðu upplýsingum um fólk sem notar akstursþjónustu Strætó sem heitir Pant.
  • Þeir náðu upplýsingum um aðra, til dæmis starfsfólk Strætó.
  • Margt fatlað fólk notar Pant akstursþjónustuna.
  • Þroskahjálp segir að þetta mál sé mjög alvarlegt.
  • Þroskahjálp leggur til að málið verði rannsakað til að sjá hvort að reglum hafi verið fylgt sem segja hvernig eigi að geyma upplýsingar um fólk.
  • Það er skiljanlegt að fatlað fólk og fjölskyldur þeirra hafi áhyggjur.
  • Það þarf að passa að fatlað fólk fái upplýsingar um málið. 

Hópur tölvuþrjóta réðst á kerfi Strætó sem varð til þess að viðkvæmum persónuupplýsingum um notendur akstursþjónustu, sem margt fatlað fólk nýtir sér, var rænt og lausnargjalds krafist.

Þetta er grafalvarlegt mál. Landssamtökin Þroskahjálp treysta því að Persónuvernd muni rannsaka málið mjög vel og ganga úr skugga um að söfnun og varðveisla Strætó á þessum upplýsingum, sem eru augljóslega sumar viðkvæmar og sumar mjög viðkvæmar í skilningi laga og reglna á sviði persónuverndar, hafi verið fullnægjandi og í fullu samræmi við lög og reglur sem gildi um meðhöndlun og varðveislu slíkra upplýsinga og bregðist við með viðeigandi hætti, ef svo hefur ekki verið.

Augljóst er að þessi leki veldur fólki sem í hlut á verulegum tilfinningalegum skaða, áhyggjum og óvissu sem og aðstandendum þess, og mögulegt er að einhverjir verði ekki aðeins fyrir þeim miska, heldur einnig fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess hvernig óprúttnir aðilar geti mögulega misnotað þessar upplýsingar. Þroskahjálp reiknar með og gerir kröfur um að málið allt sé rannsakað og meðhöndlað í samræmi við alvarleika þess og það fatlaða fólk sem í hlut á fái örugglega allan þann rétt sem það á samkvæmt lögum og reglum sem við eiga og alls ekki minni rétt en aðrir hópar fólks myndu fá ef þeir ættu í hlut.

Ljóst er að þetta mál á að vera öðrum aðilum sem vegna starfsemi sinnar og þjónustu sem þeir veita, safna upplýsingum um fatlað fólk og mjög oft viðkvæmum persónuupplýsingum, tilefni til að skoða sérstaklega hvort söfnun og varðveisla þeirra upplýsinga sé ekki nauðsynleg, örugg og í fullu samræmi við lög og reglur sem við eiga.

Því miður er of oft ekki borin sama virðing fyrir einkalífi og persónuvernd fatlaðs fólks og annarra, en Landssamtökin Þroskahjálp árétta að alls ekki er víst að það eigi við í þessu máli Strætó. Niðurstaða vandaðrar rannsóknar af hálfu Persónuverndar og/eða annarra til þess bærra eftirlitsaðila verður að svara því hvort svo hafi verið.

Það er hætta á að lekinn haldi áfram að valda fötluðu fólki skaða og að það verði útsett fyrir blekkingum og misnotkun. Af þeim sökum er nauðsynlegt að stjórnvöld tryggi fötluðu fólki aðstoð og stuðning til að fara yfir sín mál.