Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025, mál 643.

 Landssamtökin Þroskahjálp fagna þingsályktunartillögunni og áætluninn og þakka fyrir að hafa fengið málið til umsagnar. Samtökin vilja koma eftirfarandi á framfæri við allsherjar- og menntamálanefnd.

Samtökin benda á að allar rannsóknir sýna að fatlað fólk og alveg sérstaklega fatlaðar konur og fötluð börn eru mun berskjaldaðari fyrir alls kyns ofbeldi, þ.m.t. kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi, en fólk almennt. Samtökin telja mikilvægt að sú staðreynd komi með skýrum hætti fram í þingsályktunartillögunni og áætluninni til áréttidngar og til að þeir sem bera ábyrgð á framkvæmdinni taki örugglega nægilegt og viðeigandi tillit til þess.

Fatlaðar konur eru í sérstökum áhættuhópi að þessu leyti. Í því sambandi má m.a. benda á að ófatlaðar konur eiga oft erfitt með að komast úr ofbeldissamböndum en fatlaðar konur eru þar almennt í enn verri stöðu því að þær eru vegna fötlunar sinnar oft mjög háðar öðrum og jafnvel þeim sem beita þær ofbeldi, um aðstoð við margar og stundum allar athafnir daglegs lífs og eiga oft í fá hús að venda ef þær vilja komast útr ofbeldisaðstæðum

Konur með þroskahömlun og/eða einhverfu eru sérstaklega berskjaldaður hópur hvað varðar alls kyns ofbeldi og þyrfti það að koma skýrar fram í ályktuninni og áætluninni. Þær eru í aukinni hættu á að verða fyrir ofbeldi og hafa mjög oft fá úrræði ef þær búa við ofbeldisaðstæður vegna þess að þær eru jafnvel háðar aðstoð og stuðningi ofbeldismanns og vegna fötlunar sinnar gera þær sér stundum ekki fulla grein fyrir að þær eru beittar misnotkun og/eða ofbeldi.

Samtökin telja því að meiri áhersla þurfi að vera í tillögunni og áætluninni á ráðstafanir til að verja  fullorðið fatlað fólk gegn ofbeldi af þessu tagi og þá sérstaklega fatlaðar konur, en þær eru í sérstökum áhættuhópi að þessu leyti eins og fyrr segir.

Þá vilja samtökin sérstaklega benda á að rannsóknir og söfnun og sundurliðun tölfræðilegra gagna varðandi kynferðislegt- og kynbundið ofbeldi í garð fatlaðs fólks, barnaog fullorðinna, er mjög mikilvægtil að greina megi stöðuna að þessu leyti og taka ákvarðanir um viðbrögð og ráðstafanir á áreiðanlegum grundvelli.

 Mjög mikilvægt er að ræðsluátak um vernd kynferðislegrar friðhelgi nái einnig til fullorðins fatlaðs fólks og að fræðsla og fræðsluefni sé í  fullu samræmi við þarfir fatlaðs fólks, ekki síst fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu.

í 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans, er kveðið á um skyldur ríkja til tryggja vernd og mannréttindi fatlaðra kvenna og stúlkna sérstaklega og í 16. gr. samningsins eru ákvæði um skyldur ríkja til að verja fatlað fólk fyrir „ofbeldi og misþyrmingum“ af öllu tagi, „einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.“[2]

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samstarfs við öll hlutaðeigandi stjórnvöld og aðra sem að koma um hvernig megi best tryggja vernd fatlaðs fólks fyrir ofbeldi af öllu tagi og vísa í því sambandi til skyldna stjórnvalda til samráðs samkvæmt 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks,  sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ en þar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir tillögum sínum og áherslum.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.

 

 

 [1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum

[2] Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólk má nálgast hér: https://www.althingi.is/altext/145/s/1637.html