Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, 625. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri.

 Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 árið skuldabatt sig þar með til að virða og framfylgja ákvæðum samningsins. Stjórnvöldum ber að tryggja að lög, reglur og framkvæmd þeirra sé í fullu samræmi við skyldur samningsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“

Í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ segir m.a.:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.[2]

 Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa þýðingu hvað varðar nýtingu stafrænnar tækni stjórnvalda í samskiptum við borgarana og þjónustu við þá. Afar mikilvægt er að þess sé gætt við stefnumótun, setningu laga og reglna og framkvæmd hvað varðar þróun og nýtingu stafrænnar tækni að fatlað fólk og fatlað fólk með tilteknar skerðingar njóti góðs af þessari tækni og ekki verið aukið þá jaðarsetningu sem hópurinn býr þegar við. Hætta er á að slíkt leiði af sér minni tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og auki aðgreiningar en meginmarkmið samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er að tryggja þátttöku, sjálfstæði og virkni. Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á að meginþáttur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sem íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á, er orðaður svo: „Enginn skilinn eftir“.

Meðal ákvæða samningsins sem þarf sérstaklega að líta til í þessu sambandi eru ákvæði 9. gr. sem hefur yfirskriftina „aðgengi“. Þar segir m.a.:

Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ráðstafanir þessar, sem skulu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til: [...] „standa fyrir fræðslu fyrir hagsmunaaðila um þau aðgengis vandamál sem fatlað fólk stendur frammi fyrir, […] efla önnur viðeigandi form aðstoðar og stuðnings við fatlað fólk í því skyni að tryggja aðgang þess að upplýsingum, […] efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu, […] við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.” (Undirstr. Þroskahj.)

Þá hafa ákvæði 12. gr. samningsins mikla þýðingu í  þessu sambandi. Greinin hefur yfirskriftina „Jöfn viðurkenning fyrir lögum“ og þar kveðið er á um skyldur stjórnvalda til að virða og verja löghæfi (rétthæfi og gerhæfi) fatlaðs fólks og tryggja að það fá viðeigandi og fullnægjandi aðstoð til að nýta gerhæfi sitt. Í greininni segir m.a.:

1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk á rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem persónur að lögum. 
2. Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.
3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir löghæfi sitt.

Eins og fram kom í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarpið þegar það var í samráðsgátt, fagna samtökin því að einfalda eigi stafræna þjónustu við almenning. Það er hægðarauki fyrir marga, m.a. fatlað fólk, að nálgast megi öll skjöl á sama stað, enda getur verið flókið að halda utan um samskipti sín við hinar ýmsu stofnanir og að læra á ólíkar „Mínar síður“.

Landssamtökin Þroskahjálp fá reglulega til sín aðila sem gæta hagsmuna fatlaðs fólks, t.d. persónulega talsmenn og aðstandendur, sem mæta miklum hindrunum þegar kemur að því að aðstoða fólk við nýtingu stafrænna lausna. Einstaklingar sem ekki geta skrifað nafn sitt, tjáð sig með hefðbundnu máli eða notað PIN-númer geta t.a.m. ekki fengið rafræn skilríki. Mikil þörf er á endurskoðun laga til að þeir sem hafa lagalegt hlutverk sem hagsmunagæsluaðilar fái rétt til þess að aðstoða sína umbjóðendur. Því fagna samtökin því sem fram kemur í 3. gr. lagafrumvarpsins þar sem segir að „Aðili, sem falið er á grundvelli laga að gæta hagsmuna einstaklings eða lögaðila, skal hafa aðgang að pósthólfi viðkomandi.“ Mikilvægt er að réttindagæslulögin verði endurskoðuð samhliða þessu svo nýting rafrænna skilríkja verði auðveldari fyrir fatlað fólk og aðstandendur þess.

Hvað varðar lausnir sem fjallað er um í frumvarpinu til þess að komast hjá notkun rafrænna skilríkja hafa samtökin nokkrar efasemdir. Þar segir: „Verður í þessum undantekningartilvikum unnt að veita aðgang að stafrænu pósthólfi með öðrum leiðum en í gegnum pósthólfið, til dæmis skriflega. Auk þess má nefna lögbókandaðgerðirsamkvæmt lögum um lögbókandagerðir, nr. 86/1989, en það úrræði getur nýst þeim einstaklingum sem geta ekki skrifað sjálfir, fötlunar sinnar vegna.“ Samtökin benda á að hópur sem er hvað jaðarsettastur í þessu samhengi getur ekki auðkennt sig með undirskrift, eins og fram kemur í þessari umsögn og fyrri umsögn samtakanna um frumvarpið. Hvað varðar lögbókandagerðir, þá er ekki vel ljóst hvernig það muni nýtast hópnum þar sem margir geta ekki skrifað undir og auðkennt sig með þeim hætti sem ætlast er til. Samtökin treysta því að haft verði samráð og allra lausna leitað til þess að takast á við þennan brýna vanda sem fatlað fólk og hagsmunagæsluaðilar standa frammi fyrir.

Þá óttast samtökin að einstaklingar sem ekki hafa nægilega tölvufærni fari á mis við mikilvægar upplýsingar. Því er mikilvægt að stjórnvöld kynni vel þær breytingar sem þetta frumvarp leiðir af sér fyrir almenningi, sér í lagi fötluðu fólki og á auðlesnu máli. Þá er mikilvægt að kynna að hægt verði að óska eftir bréfpósti áfram. Skyldur til slíkrar upplýsingagjafar eru áréttaðar í 21. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Á sama tíma og það er mikilvægt að tryggja að fatlað fólk geti veitt þeim sem hafa lagalega stöðu sem hagsmunagæsluaðilar umboð til að skrá sinn inn á stafrænt pósthólf, er mikilvægt að minna á rétt fatlaðs fólks til friðhelgis og virðingu fyrir einkalífi þess.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá fund með efnahags- og viðskiptanefnd til að geri betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum.

 

Virðingarfyllst.

Árni Júli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála

: Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun eða skyldar raskanir og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

[2] Í þessari umsögn er notuð þýðing á samningi SÞ í þingsályktunartillögu sem er nú til meðferðar á Alþingi:

https://www.althingi.is/altext/151/s/0960.html