Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf, 408. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf, 408. mál

  1. desember 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Landssamtökin Þroskahjálp styðja þingsályktunartillöguna.

Það er mikilvægt skref til framtÍðar að innleiða lýðheilsumat til að bregðast við þeim áskorunum sem framundan eru í tengslum við almenna heilsu landsmanna.

Margar og miklar vísbendingar eru um að heilsa fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir og einhverft fólk sé almennt lakari en annarra og jafnframt um að aðgengi þessa hóps að upplýsingum, úrræðum og heilsutengdum forvörnum og lýðheilsustarfi sé verulega ábótavant. Á þetta m.a. við um átaksverkefni til heilsueflingar, aðgengi að viðeigandi stuðningi og fræðslu um heilsueflingu og sértæk úrræði til að efla heilsu og vellíðan. Mjög mikilvægt er að er að tryggja að allir hafi jöfn og raunhæf tækifæri til að njóta þess sem gert er á sviði almennrar lýðheilsu og að í því sambandi sé sérstaklega litið til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks. Nauðsynlegt er því að tekið verði  sérstakt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks almennt og fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir sérstaklega þegar lýðheilsumat er framkvæmt.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nú í gangi af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Í sambandi við það mál hér er til umsagnar þarf m.a. sérstaklega að líta til réttinda fatlaðs fólks og til skyldna sem hvíla á stjórnvöldum samkvæmt 5. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og 25 gr., sem hefur yfirskriftina Heilbrigði.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa sig reiðubúin til samstarfs og ráðgjafar við framkvæmd þingsályktunartillögunnar verði hún samþykkt og minna í því sambandi á samráðsskylduna sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Samtökin óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi þingsályktunartillöguna.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Arna Sigríður Albertsdóttir, verkefnisstjóri heilsuefliingarverkefnis Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér