Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019 – 2022, 771. mál.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019 – 2022, 771. mál.

Landssamtökin þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Í samtökunum eru rúmlega 20 aðildarfélög með u.þ.b. sex þúsund félaga. Samtökin byggja stefnu sína og starf á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem eru áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá er það stefna samtakanna að fötluð börn fái notið allra þeirra mannréttinda sem mælt er fyrir um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til jafns við önnur börn.

Samtökin þakka velferðarnefnd fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna senda til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi hana.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða hann og framfylgja ákvæðum hans. Íslensk stjórnvöld segjast nú vinna að innleiðingu samningsins, sbr. m.a. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir:

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur. 

Í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ er hveðið á um skyldur ríkja sem hafa fullgilt samninginn hvað varðar innleiðingu hans. Þar segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
...
          c)      að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, 
(Undirstr. Þroskahj.).

Í 3. mgr. 4. gr. samningsins er kveðið á um skyldur ríkja til samráðs við innleiðingu samningsins. Þar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.  (Undirstr. Þroskahj.).

Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er lögð mikil áhersla á skyldu ríkja til að greina stöðu og þarfir fatlaðs fólks, þ.m.t. fatlaðra barna og til að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja mannréttindi þess. 31. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun“. Þar segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og fram­fylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar.  ...

Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín. 

Í 7. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Fötluð börn“segir:

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika. 

 

Í þessu samhengi vísa Landssamtökin Þroskahjálp á nýja skýrslu um sjónarmið og ábendingar fatlaðra barna og unglinga sem unnin var fyrir umboðsmann barna. Samtökin hvetja alþingismenn eindregið til að kynna sér skýrsluna sem má nálgast á þessum hlekk:  

 

https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=b2e2df9d-7277-11e9-943d-005056bc4d74

 

Í 23. gr. samnings SÞ um réttidni fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina „Virðing fyrir heimili og fjölskyldu“, kveðið á um skyldu stjórnvalda til að tryggja fötluðum börnum rétt til fjölskyldulífs og til að grípa til ráðstafana til að vernda þann rétt. Í 16. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum“, segir m.a.:

 

Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, ... .(Feitletr. þroskahj.).

 

Í 23. gr. Barnsasáttmála SÞ er sérstaklega kveðið á um skyldur ríkja til að vernda fötluð börn og tryggja þeim mannréttindi og til að grípa til ráðstafana til að vernda þann rétt.

 

Í ljósi þess sem að framan segir varðandi skyldur ríkja samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, hvað varðar innleiðingu hans, m.a. með stefnumótun og áætlanagerð og samráðsskyldna stjórnvalda við fatlað fólk og fötluð börn „með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þeirra hönd“ getur ekki hjá því farið að það veki vonbrigði og undrun að fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar skuli ekki hafa verið skipaður í ráðgjafarhóp þann sem kom að gerð þessarar framkvæmdaáætlunar og um er fjallað í byrjun greinargerðar í þingsályktunartillögunni. Ekki verður sé að þar sé að finna aðra aðila sem geta talist koma sérstaklega fram fyrir hönd fatlaðra barna.

 

Ekki þarf að hafa mörg orð um það að fötluð börn eru sérstaklega berskjölduð og það er mjög mikil hætta á að þau verði fyrir mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi. Mjög margar rannsóknir staðfesta þetta svo ekki verður um villst. Alþjóðasamfélagið og þ.m.t. Ísland hafa viðurkennt það í orði og verki með því að kveða á um skyldur ríkja til að vernda mannréttindi þeirra ekki aðeins með samningi SÞ um réttindi barnsins heldur einnig með samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Samningur SÞ er ekki nefndur í framkvæmdaáætluninni og ekki verður séð að við gerð hennar hafi verið litið sérstaklega til stöðu, þarfa og mannréttinda fatlaðra barna.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið óska Landssamtökin Þroskahjálp eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nánari grein fyrir þessari umsögn og sjónarmiðum sínum og áherslum varðandi framkvæmdaáætlunina og þingsályktunartillöguna.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.

Þingsályktunartillögunina sem umsögnin á við má lesa hér