Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingályktun nr. 10/148, um fjármálastefnu 2018-2022, 953. mál.

Í þingsályktunartillögunni sem fjármálaráðherra hefur lagt fram er gert ráð fyrir að fjárveitingar til málaflokksins dragist saman um 8 milljarða kr. á árunum 2021 – 2024 frá því sem áður var gert ráð fyrir. Það hlýtur að vekja sérstaka athygli og furðu að í tillögu ráðherrans er gert er ráð fyrir að fé til þessa málaflokks verði skorið meira niður en til nokkurs annars málaflokks.

Þá er það mjög ámælisvert og vekur furðu og vonbrigði að ráðherra skuli hafa undirbúið og lagt fram þessar breytingatillögur án nokkurs samráðs við fatlað fólk eða samtök þess og án þess að skýra með nokkrum hætti hvaða liðir í málaflokknum er gert ráð fyrir að verði skornir niður.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir undir yfirskriftinni „Lýðræði og gagnsæi“:

Ríkisstjórnin leggur áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi. Kappkostað verður að miðla upplýsingum um ákvarðanir og ferli sem varða hagsmuni almennings með aðgengilegum hætti.

Þar segir einnig:

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. 

Landssamtökin Þroskahjálp telja það verklag sem haft hefur verið við undirbúning, gerð og framlagningu þessarar þingsályktunartillögu samrýmast afar illa ofangreindum yfirlýsingum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.

Þetta verklag virðir einnig fullkomlega að vettugi aðgerð F.6. í þingsályktun um stefnu og  framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017-2021. Sú aðgerð hljóðar svo:

„Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð. 
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós. 
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila. 
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið. 
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög. 
     Tími: 2017–2021. 
     Kostnaður: Innan ramma. 
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.“ 

Þá vilja samtökin minna fjármálaráðherra og ríkisstjórnina á skyldur þeirra til samráðs við fatlað fólk og samtök sem vinna að hagsmuna- og réttindamálum þess samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja.[1]

Landssamtökin Þroskahjálp telja með ólíkindum að enn skuli stjórnvöld ætla að vega sérstaklega að þeim hópi sem býr við verstu kjörin og nýtur minni og færri tækifæra á flestum sviðum samfélagsins en aðrir sem í landinu búa og skora á alþingismenn að hafna þessum vondu og illa unnu tillögum fjármálaráðherra.

 

Samtökin óska eindregið eftir að fá að koma á fund fjárlaganefndar til að skýra sjónarmið sín, áherslur og rök í því mikilvæga máli sem hér er til umfjöllunar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.[1] 3. mgr. 4. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ og hljóðar svo:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við má lesa hér