Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023 – 2026

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023 – 2026

                                                                                                                               19. janúar 2023

Landssamtökin Þroskahjálp fagna fyrirætlunum um gerð og samþykkt sérstakrar aðgerðaáætlunar gegn hatursorðræðu og vilja á þessu stigi koma eftirfarandi á framfæri varðandi drög að þingsályktun um það.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja honum hér á landi og tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi og þá vernd sem þar er mælt fyrir um. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og þá er hafin sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa mikla þýðingu m.t.t. hatursorðræðu gegn fötluðu fólki.

Í 1. gr. samningsins segir m.a.: „Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og mannfrelsis og að stuðla að virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.“ Og í 3. gr. samningsins kemur fram að virðing fyrir eðlislægri reisn fatlaðs fólks sé ein af meginreglum samningsins.

Í 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Vitundarvakning“ segir m.a. að ríki sem hafa fullgilt samninginn skuli „samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir ... til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vettvangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess“, og „til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins.“

16. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.“ Þar er kveðið á um ýmsar skyldur ríkja sem hafa fullgilt samninginn til að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi af ýmsu tagi. Þau ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan eru viðurkenning ríkja heims á þeirri staðreynd að fatlað fólk hefur orðið fyrir og verður enn fyrir miklum fordómum sem m.a. birtast í neikvæðri og lítillækkandi orðræðu, mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því eins og dæmin sýna.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar og þar segir m.a.:


     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,

Það er því hafið yfir vafa að nauðsynlegt er og skylt að líta sérstaklega til aðstæðna, þarfa og  réttinda fatlaðs fólks þegar ríkið gerir aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu.

Í því sambandi vilja samtökin sérstaklega benda á eftirfarandi:

  • Fræðsla um hatursorðræðu er mjög mikilvæg til að fatlað fólk viti hvenær það er beitt hatursorðræðu og geti sótt rétt sinn.
  • Fræðsla er líka mikilvæg á auðlesnu máli til að fatlað fólk gerist ekki brotlegt. Auðskilið efni nýtist líka öðrum hópum, t.d. fólki sem er að læra íslensku. 
  • Mikilvægt að skilgreina vel hugtakið hatursorðræðu og undirbúa vinnu á þessu sviði mjög vel, meðal annars með fræðslu, til að forðast bakslag í mannréttindabaráttu. Þetta er nauðsynlegt til að lágmarka líkur á að almenningur verði mótfallinn aðgerðum gegn hatursorðræðu og telji þær vera atlögu gegn tjáningarfrelsi sínu. 
  • Líta þarf til samtvinnunar. Fólk veit ekki alltaf hvort það er verið að beita það hatursorðræðu eða -ofbeldi vegna þess að það er með annan húðlit en hvítan eða vegna fötlunar.
  • Tryggja að fatlað fólk fái áætlun og stuðning í baráttunni fyrir réttindum til jafns við aðra, tækifærum og virðingu  og að það sé ekki bara fatlað fólk, sem þurfi að réttlæta stöðu sína.
  • Ríkari hefð er fyrir að tala um hatursorðræðu gegn hinsegin fólki, fólki af erlendum uppruna, fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð en kristna trú og fleiri hópum fólks en að talað um hatursorðræðu gegn fötluðu fólki, þó að hún geti verið mjög óvægin og full af fordómum.

Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér