Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga

Sagan, reynslan og dæmin sýna og sanna að miklar og margvíslegar hindranir mæta fötluðu fólki þegar það ætlar að nýta réttindi sín til lýðræðislegrar þátttöku. Allar rannsóknir og kannanir staðfesta það með óumdeilanlegum hætti. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu alvarlegt brot gegn alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum og íslenskum rétti það er að mismuna fólki á grundvelli fötlunar um tækifæri á þessu sviði.

Það er því skýlaus og mjög mikilvæg skylda íslenskra stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga að gera allt sem í þeirra valdi stendur, þ.m.t. við setningu reglna og alla framkvæmd þeirra, til að ryðja þeim hindrunum úr vegi. Þessi skylda er sérstaklega áréttuð í 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi samninginn. Þá hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að gerð skuli landsáætlun um innleiðingu á samningnum.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar og þar segir m.a.:

         Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin …

   29. gr. samnings SÞ hefur yfirskriftina þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi og hljóðar svo:
    Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
         a)          tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa að eigin frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosið, þar á meðal með því:
                   i.      að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð, …
                   iii.      að tryggja að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklings að eigin vali við að greiða atkvæði …

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið leggja Landssamtökin Þroskahjálp sérstaka áherslu á að reglugerð sú, sem hér er til umsagnar, verði sérstaklega og vandlega rýnd m.t.t. þess að tryggt verði að ákvæði hennar samræmist að fullu þeim réttindum fatlaðs fólks sem vernduð og áréttuð eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og þeim skyldum sem á stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga hvíla samkvæmt samningnum.

Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar,
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.