Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um sjálfbært Ísland 29. maí 2023

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um sjálfbært Ísland
29. maí 2023

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeim metnaði sem verkefnastjórn um sjálfbært Ísland hefur sýnt og þakka fyrir að hafa aðkomu að verkefninu með sæti í Sjálfbærniráði.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Mikilvægt er að tryggja að jaðarsettir hópar séu sérstaklega tilgreindir undir öllum þremur stoðum sjálfbærrar þróunnar og gert grein fyrir því hvaða sértæku aðgerðir séu þarfar til þess að tryggja að sá hópur verði ekki skilinn eftir. Jaðarsettir hópar eru t.d. fatlað fólk, fatlað fólk af erlendum uppruna, flóttafólk og hælisleitendur o.s.frv. Horfa þarf sérstaklega til samspils mismunarbreyta.

Þroskahjálp vill benda á að lítil umfjöllun er um stöðu fatlaðs fólks og hvernig sjálfbærnistefna mun bæði gera ráð fyrir fötluðu fólki og nýtast þeim hóp.

Þegar fjallað er um helstu viðfangsefni stjórnvalda og tengingu þeirra við sjálfbærnistefnuna er mikilvægt að skilgreina betur þær aðgerðir og verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í til að tryggja að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt bæði í orði og í verki. Aðgengi fatlaðs fólks, sér í lagi fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir, að mörgum grunnstoðum samfélagsins er skert og því nauðsynlegt að lögð sé sérstök áhersla á að mæta þörfum og uppfylla réttindi þessa hóps.

Landssamtökin Þroskahjálp koma hér með nokkrar athugasemdir og ábendingar og á sama tíma bjóðum við fram áframhaldandi samráð og samtal á vettvangi Sjálfbærniráðs við að skilgreina betur og útfæra hvernig sá hópur sem við erum í réttindabaráttu fyrir sé hluti af stefnu Íslands þegar kemur að sjálfbærni.

  1. Þegar fjallað er um jafnréttismál og mannréttindi er mikilvægt að tilgreina þá hópa sem hafa hingað til staðið eftir og ekki notið þeirra réttinda sem tilgreind eru í íslenskum lögum og í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja. Fólk með þroskahömlun er sérstaklega jaðarsettur hópur , þvert á málaflokka, og hefur í gegnum tíðina orðið eftir. Þetta á t.d. við um aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun, fjárhagslegt öryggi, húsnæðismálum o.s.frv. Þroskahjálp leggur mikla áherslu á að þessi hópur sé sérstaklega tilgreindur þegar rætt er um jafnrétti og mannréttindi og að allar aðgerðir í sjálfbærnimálum Íslands taki sérstaklega tillit til þessa hóps.
  2. Mikil áhersla er á menntun sem stuðning við atvinnulífið. Þroskahjálp vill benda á það að menntun hefur miklu stærri samfélagslegt hlutverk heldur en einungis það að styðja við atvinnulífið. Mikilvægt er að tryggja aðgengi allra íbúa landsins að viðeigandi menntun á öllum skólastigum. Fólk með þroskahömlun situr eftir þegar kemur að tækifærum til menntunar, sér í lagi eftir að framhaldsskóla lýkur.
  3. Þegar fjallað er um fjármál og efnahagsmál í því samhengi að draga úr skuldasöfnun og fjárhagslegum byrðum á framtíðarkynslóðir er mikilvægt að hafa í huga að niðurskurðir í fjármálum ríkisins hafa í sögulegu samhengi yfirleitt bitnað verst á þeim sem minnst hafa. Þjónusta við fatlað fólk og sú fjárfesting sem fylgir því að tryggja aðgengi allra að öllum sviðum íslensks samfélags má ekki vera talinn sem kostnaður sem má skera niður.
  4. Stafræn þróun er mikilvægur partur af sjálfbærnistefnu en þar er sérstaklega mikilvægt að huga að þeim hóp sem setur hefur eftir í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á Íslandi hingað til. Stór hópur fólks með þroskahömlun hefur t.d. ekki aðgang að rafrænum skilríkjum og er þar með útilokað frá ýmis konar grunnþjónustu í samfélaginu. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýr þegar fjallað er um aðgengi að samfélagslegri þátttöku, opinberri þjónustu og tækninýjungum. Mörg dæmi eru um að fólk fái ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu, fjármunum sínum og þurfi að eyða miklum tíma og fjármunum til þess að fá opinbera þjónustu sem við öll teljum sjálfsagða!
  5. Þegar fjallað er um heilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu þarf að tilgreina sérstakar aðgerðir sem miða að því að auka aðgengi fatlaðs fólks að þessari mikilvægu þjónustu. Kostnaður við  að sækja heilbrigðis- og geðheildbrigðisþjónustu kemur sér verst fyrir fatlað fólk, sér í lagi fólk með þroskahömlun, þar sem þessi hópur hefur oftar en ekki efnalítill. Langir biðlistar eftir greiningum og þjónustu er vandamál sem þarf að ráðast í að laga og tilgreina þarf sérstaklega aðgerðir í stefnu um sjálfbært Ísland til að stuðla að heilsu og lífsgæðum allra íbúa landsins.
  6. Algild hönnun þarf að vera að leiðarljósi þegar fjallað er um innviði landsins, sér í lagi í samgöngumálum og uppbyggingu mannvirkja. Þegar horft er til að lágmarka kostnað og kolefnisfótspor má ekki gefa afslátt af algildri hönnum, sem gerir ráð fyrir fjölbreytileika íslensks samfélags.

Með von um áframhaldandi gott samstarf og samtal,

Anna Margrét Hrólfsdóttir,

Verkefnisstjóri kynninga, upplýsinga- og gæðamála Þroskahjálpar og meðlimur í Sjálfbærniráði.