Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um skráningu einstaklinga, 101 mál.

Til Landssamtakanna Þroskahjálpar hafa leitað með umkvartanir og óskir um stuðning einstaklingar sem hafa sameiginlega forsjá fatlaðra barna en börnin hafa lögheimili hjá hinu foreldrinu sem einnig hefur forsjá þess. Þessir einstaklingar hafa greint frá því að þeir reki sig ýmsar hindranir, s.s. þegar þeir þurfa að fá upplýsingar varðandi börnin sem þeir segja nauðsynlegar til að þeir geti staðið vel við skyldur sínar gagnvart börnunum og gætt réttinda þeirra og hagsmuna m.t.t. þarfa þeirra almennt og sérstaklega m.t.t. fötlunar þeirra.

Með vísan til framangreinds beina Landssamtökin Þroskahjálp þeim eindregnu tilmælum til allsherjar- og menntamálanefndar að við meðferð þessa frumvarps verði skoða gaumgæfilega hvort haga megi skráningu einstaklinga með þeim hætti að tryggt verði að foreldrar fatlaðra barna rekist ekki á ónauðsynlegar hindranir sem geta torveldað þeim að gæta hagsmuna og réttinda barna sinna og að mæta eins vel og nokkur kostur er þörfum þeirra almennt og sérstaklega m.t.t. þarfa sem tengjast fötlun þeirra.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að gera betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.

Frumvapið sem umsögnin á við má skoða hér