Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu), 543. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks[1] árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim.

Í 1. gr. samningsins segir m.a.:

Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og mannfrelsis og að stuðla að virðingu fyrir eðlis­lægri reisn þess. 

Og í 3. gr. samningsins[2] kemur fram að virðing fyrir eðlislægri reisn fatlaðs fólks sé ein af meginreglum samningsins.

Í 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Vitundarvakning“ segir m.a. að ríki sem hafa fullgilt samninginn skuli „samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeig­andi ráðstafanir“
„til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vett­vangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess“, og „til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins.“

 16. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.“ Þar er kveðið á um ýmsar skyldur ríkja sem hafa fullgilt samningninn til að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi af ýmsu tagi.[3]

Þau ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan eru viðurkenning á  og viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þeirri staðreynd að fatlað fólk hefur orðið fyrir og verður enn fyrir miklum fordómum sem m.a. birtist í neikvæðri og lítilækkandi orðræðu, mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því, eins og dæmin. Einn þáttur í slíku ofbeldi er hatursorðræða sem skapar, ýtir undir og og viðheldur fordómum og leiðir til mismununar og ofbeldis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á allsherjar- og menntamálanefnd að breyta 233. gr. a. í almennum hegningarlögum þannig að hún nái einnig til fötlunar. Samtökin lýsa einnig andstöðu við að greinin verði þrengd með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Samtökin óska jafnframt eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að fylgja þessari umsögn sinni eftir og gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum.

 

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar    [1] https://www.althingi.is/altext/145/s/1637.html

[2] 3. gr. Almennar meginreglur.

    Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi: 
     a)      virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga, 
     b)      bann við mismunun, 
     c)      full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar, 
     d)      virðing fyrir frávikum og viðurkenning fatlaðs fólks sem hluta af mannlegum marg­breytileika og mannlegu eðli, 
     e)      jöfn tækifæri, 
     f)      aðgengi, 
     g)      jafnrétti á milli karla og kvenna, 
     h)      virðing fyrir getu fatlaðra barna sem er breytingum undirorpin og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

 

 

[3] 16. gr. Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. 
     2.      Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, einnig með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun. 
     3.      Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki. 
     4.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í ein­hverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit er tekið til sérþarfa hans miðað við kyn og aldur. 
     5.      Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við. 

Frumvarpið sem umsögnin á við má lesa hér