Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023 - 2027

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023 - 2027 

                                                                                                                               23. janúar 2023

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans og tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi og alla þá vernd sem mælt er fyrir um í samningnum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nýlega hafin sérstök landsáætlun um innleiðingu hans undir stjórn félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

 Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,

b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,

c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ... . (Undirstr. Þroskahj.).

Í 5. gr. samningsins er kveðið á um bann við mismunun á grundvelli fötlunar og skyldu ríkja til að tryggja fötluðu fólki „viðeigandi aðlögun“. Greinin hefur yfirskriftina “Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:

  1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
  2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
  3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
  4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. (Undirstr. og feitletr. Þroskahj.).

Í 2. gr. samningsins er „viðeigandi aðlögun“ skilgreind svo:

„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

Ekki verður séð að í drögum að þingsályktunartillögu sem eru hér til umsagnar sé minnst á aðstæður, þarfir og/eða réttindi aldraðs fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp leggja mikla áherslu á að við alla stefnumótun sem lýtur að þjónustu við aldraða verði sérstaklega litið til þeirra skyldna sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks hvað varðar réttindi aldraðs fatlaðs fólks og þá þjónustu sem það á rétt á samkvæmt því. Samtökin hvetja því eindregið til að farið verði sérstaklega yfir drögin að þingsályktunartillögunni með tilliti til þess að tryggja að hún taki örugglega tillit til þeirra skyldna sem hvíla á íslenska ríkinu hvað varðar þjónustu við fatlað fólk. Við þá yfirferð telja samtökin mjög mikilvægt að stuðst verði við skýrslu óháðs sérfræðings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (Special Rapporteur on the Rights of Persons with Disabilities) frá 2019 varðandi réttindi aldraðs fatlaðs fólks.

Framan á skýrslunni er þessi samantekt um efni hennar:

In the present report, the Special Rapporteur on the rights of persons with disabilities, Catalina DevandasAguilar, examines the situation of older persons with disabilities, and provides guidance to States on how to promote, protect and ensure their human rights and fundamental freedoms, paying particular attention to the intersection between ageing and disability.

Skýrsluna má nálgast á þessum hlekk:

https://undocs.org/en/A/74/186

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa vilja og áhuga til samráðs við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið í þessu máli og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.