Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að dómsmálaráðuneytið skuli hafa lagt fram til kynningar áform um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun. Mjög tímabært og afar mikilvægt er að slík stofnun verði sem fyrst til og að þannig verði um hnúta búið að hún verði eins öflug og nokkur kostur er til að vinna að framgangi og vernd mannréttinda og að stofnunin verði nægilega burðug til að geta veitt stjórnvöldum nauðsynlegt og virkt aðhald að því leyti.

Í áformum um lagasetninguna um stofnunina þar sem þau eru kynnt í samráðsgáttinni er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skyldna stjórnvalda sem leiða af ákvæðum samningsins varðandi eftirlit með framkvæmd hans. Eitt meginhlutverk innlendrar mannréttindastofnunar hlýtur samkvæmt því að vera að tryggja gott og skilvirkt eftirlit með því að fatlað fólk fái án mismununar notið mannréttinda sem eru sérstaklega áréttuð og varin í samningnum. Samtökin telja það markmið vera mjög mikilvægt þar sem á skortir að fullnægjandi eftirlit sé með að fatlað fólk á Íslandi fá þau réttindi og þjónustu sem það á lagalegan rétt á. Mjög oft er þar um að ræða réttindi sem eru mannréttindi í skilningi laga og fjölþjóðlegra mannréttindasamninga.

Samtökin telja vera brýnt að mjög vel sé vandað til laga og reglna varðandi stofnun sem á að gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja fólki þau mannréttindi sem það á rétt til að njóta eins og m.a. er áréttað í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í II. og III. kafla laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, eru ákvæði um réttindavakt ráðuneytisins og réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Eins og hlutverki og verkefnum réttindavaktar og réttindagæslumanna er þar lýst gegna þau afar mikilvægu hlutverki við að fylgjast með að fatlað fólk fái notið þeirra mannréttinda sem því eru tryggð í stjórnarskrá, lögum og fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Samtökin telja tímabært og mikilvægt að fram fari heildarendurskoðun á lögum og reglum varðandi réttindagæslu fyrir fatlað fólk í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra. Þá telja samtökin mjög veigamikil rök mæla með því að réttindagæsla fyrir fatlað fólk verði felld undir nýja sjálfstæða mannréttindastofnun, enda er það mjög til þess fallið að tryggja betur nauðsynlegt sjálfstæði og óhæði þess eftirlits frá framkvæmdavaldinu

Landssamtökin Þroskahjálp vísa að lokum til samráðskyldu stjórnvalda samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Og til 33. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Framkvæmd og eftirlit innanlands“ en 3. mgr. greinarinnar hljóðar svo:

Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem fara með mál þess, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir miklum vilja og áhuga til að taka þátt í nánu og virku samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld varðandi stofnun og starfrækslu sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar  með að markmiði að hún verði sem best í stakk búin til að geta staðið mjög vel vörð um mannréttindi fatlaðs fólks og hafi virk úrræði sem duga til að bregðast skjótt og með árangursríkum hætti við þegar þau eru ekki virt.

Málið sem umsögnin varðar má lesa hér