Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda)

       15. ágúst 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er mælt fyrir um „að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra".

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans. Ríkisstjórnin vinnur nú að innleiðingu samningsins samkvæmt sérstakri landsáætlun og hyggst einnig lögfesta samninginn.

Í 19. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu, segir:

 

    Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja: 
         a)          að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi ...

 

Mjög margt fatlað fólk þarf að láta grunnörorkubætur duga fyrir allri framfærslu sinni en þær bætur eru mjög lágar og mun lægri en lágmarkslaun. Hár húsnæðiskostnaður, ófullnægjandi húsnæðisöryggi og veik réttarstaða leigjenda kemur því sérstaklega illa við þennan fátækasta hóp samfélagsins. 

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja Landssamtökin Þroskahjálp mjög mikilvægt að sem fyrst gripið verði til róttækra aðgerða, sem duga til að bæta verulega réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda, með sérstaka áherslu á þá hópa sem fátækastir eru og að gerðar þær breytingar á lögum sem eru nauðsynlegar í því skyni.

 

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.