Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálp við tillögu að breytingu á Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla.

 

 

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

Árið 2016 fullgilti íslenska ríkið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hefur þar með skuldbundið sig til að fylgja öllum ákvæðum hans. Þá er það sérstaklega áréttað í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar að samningurinn verði innleiddur.

Í greinargerð með breytingatillögunni sem til umræðu er, kemur fram að tilefni hennar sé viðvarandi slakur árangur nemenda í íslensku og náttúrufræði sem ítrekað hefur birst í niðurstöðum PISA, sem er alþjóðleg rannsókn á vegum OECD og er framkvæmd á þriggja ára fresti með þátttöku 15 ára nemenda.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa áhyggjum af því að skerða eigi valfrelsi nemenda og fjölbreytni í námi og telur að ekki hafi verið færð rök fyrir því í greinargerð að aukinn tími í íslensku og náttúrugreinum muni leiða til betri frammistöðu í þessum greinum í PISA könnunum. Þá er einnig gerð athugasemd við að gengið sé út frá því að vandamálið sé „viðvarandi slakur árangur nemenda“ sem breyta á með aukinni kennslu í umræddum greinum á kostnað einstaklingsmiðaðra náms, þar sem nemendur hafa tækifæri til að velja námsgreinar eftir áhugasviði og hæfileikum, fremur en rýna í og endurskoða kennsluaðferðir og umgjörð náms með að það að markmiði að endurmeta kerfið sem veitir menntum í íslensku og náttúrugreinum.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að framfylgja, segir: 

24. gr. Menntun.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu, í því skyni að þessi réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri, koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og símenntun sem miða að því:

a) að auka mannlega getu til fulls og tilfinningu fyrir meðfæddri göfgi og eigin verðleikum og auka virðingu fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni,

b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,

c) að gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þátttakendur í frjálsu þjóðfélagi.

Með því að takmarka val og fjölbreytni nemenda í námi er hætt við því að unnið sé geng markmiðum um einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar, þar sem áhersla er lögð á að hver einstakur nemandi fái að njóta styrkleika sinna og hæfileika í námi sem höfðar til áhugasviðs. 

Landssamtökin Þroskahjálp leggja jafnframt ríka áherslu á að áður en breytingartillögur sem miða að því að bæta kennslu í íslensku og náttúrugreinum verða endanlega útfærðar og samþykktar verði samráðs leitað við börn, þar á meðal fötluð börn, eins og ber að gera samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Um samráð við fötluð börn segir í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:

7. gr. Fötluð börn.

1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn.

2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska, til jafns við önnur, börn og veita þeim aðstoð, þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs, til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir

Nágast má málið sem umsögnin á við hér.