Þroskahjálp ítrekar ósk um úttekt á starfsemi Sólheima

Landssamtökin Þroskahjálp ítreka og minna á erindi sem samtökin sendu félagsmálaráðuneytinu 24. september 2019 um áskorun sína til félagsmálaráðuneytisins um að sjálfstæð, óháð og vönduð úttekt fari fram á starfsemi Sólheima. Þau telja afar óheppilegt að félagsmálaráðherra sem ber ábyrgð á eftirliti með að fatlað fólk njóti mannréttinda og framfylgd margra ákvæða samnings S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks skuli lýsa því yfir opinberlega að starfsemi Sólheima sé góð og metnaðarfull án þess að farið hafi fram úttekt sem augljóslega er nauðsynleg.

Þann 24. september 2019 sendu Landssamtökin Þroskahjálp erindi til félagsmálaráðuneytisins þar sem fjallað er um mikilvægi þess að taka út starfsemi Skálatúns í Mosfellsbæ og Sólheima í Grímsnesi m.t.t. Samnings S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks og eftirlitsskyldu félagsmálaráðuneytisins með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk. Var í erindinu óskað eftir upplýsingum um hvaða áætlanir væru um faglega og óháða úttekt á þjónustu við fatlað fólk sem búsett er á Sólheimum og Skálatúni.

Landssamtökin fengu þær upplýsingar frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar þann 12. desember 2019 að unnið væri að útekt á þjónustu við fatlað fólk í Skáltúni en engin svör hafa borist frá ráðuneytinu um hvort úttekt á Sólheimum sé fyrirhuguð eða hafin.

Samtökin ítreka því áskorun sína til ráðuneytisins um að sjálfstæð, óháð og vönduð úttekt fari fram á starfsemi Sólheima þar sem sérstaklega verði litið til þess hvernig hún samræmist ákvæðum samnings S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks sem stjórnvöldum er skylt að fylgjast með að fái notið allra þeirra tækifæra og mannréttinda sem áréttuð eru í samningnum. Í þessu sambandi minna samtökin á úttekt Ríkisendurskoðunar á starsfemi og rekstri Sólheima þar sem komið hafa fram margar athugasemdir og aðfinnslur.

Landssamtökin Þroskahjálp telja afar óheppilegt að félagsmálaráðherra sem ber ábyrgð á eftirliti með að fatlað fólk njóti mannréttinda og framfylgd margra ákvæða samnings S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks skuli lýsa því yfir opinberlega að starfsemi Sólheima sé góð og metnaðarfull án þess að farið hafi fram úttekt sem augljóslega er nauðsynleg, eins og að framan er rökstutt og rakið.

Hér má lesa erindi Þroskahjálpar í heild sinni sem sent var þann 27. janúar 2020

Hér má lesa erindi Þroskahjálpar í heild sinni sem sent var þann 24. september 2019