Þroskahjálp og Samkaup undirrita samstarfsyfirlýsingu

Samkaup og Landssamtökin Þroskahjálp hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu sem snýr að jafnréttisstefnu Samkaupa. Þroskahjálp fagnar þessu mikilvæga skrefi og þakkar Samkaupum fyrir að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.

Markmið

Mikilvægt er að gera betur þegar kemur að atvinnumálum fatlaðs fólks á Íslandi. Veit þarf fötluðu fólki betri aðgang að vinnumarkaði á þeirra forsendum og í samræmi við þeirra hæfni og reynslu. Stjórnendur þurfa að sýna gott fordæmi og efla aðgengi að störfum. Mikilvægt er að þeir sem sækja um störf og starfa nú þegar hjá Samkaupum njóti viðeigandi aðlögunar á vinnustaðnum og í starfinu. Markmið samkomulagsins er að skapa vettvang fyrir umræðu, upplýsingaöflun og miðlun fræðslu, rannsókna og þróunarstarfs í þessum málefnum.

Verkefni

Samkaup og Þroskahjálp munu vinna saman að:

  • námskeiðahaldi og fræðslu, handa stjórnendum og öðrum starfsmönnum,
  • fræða stjórnendur og starfsfólk um mikilvægi aðlögunar á vinnustað, vinnstaðarmenningu og í starfi,
  • Samkaup mun setja sér markmið um aukningu á ráðningu fólks með skerta starfsgetu á starfsstöðvar sínar,
  • og útbúa ferla sem snúa að betri aðlögun fatlaðs fólks að vinnustaðnum og starfinu.

Samstarfsverkefnið mun eiga sér stað næsta árið og verður þá árangurinn af því metinn. Landssamtökin Þroskahjálp þakka Samkaup framsýnina og metnaðinn.

Í sumar tókum við einnig upp fræðsluerindi í samvinnu við Samkaup sem fjallar um viðeigandi aðlögun á vinnustað sem nálgast má með því að smella hér. Þroskahjálp gefur kost á að fylgja fræðslunni eftir með heimsókn hafi fyrirtæki áhuga á. 

Saman getum við gefið öllum tækifæri til atvinnu!