Þroskahálp óskar eftir fundi með félagsmálaráðuneytinu og UNICEF

Þann 26. júní s.l. sendu Landssamtökin Þroskahjálp félagsmálaráðuneyti og UNICEF erindi vegna verkefnisins „Barnvæn samfélög“, þar sem unnið er að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í sveitarfélögum víðs vegar um landið. Óskuðu samtökin jafnframt eftir fundi með ráðuneyti og UNICEF til að ræða verkefnið.

Þó að Þroskahjálp fagni því hversu mörg sveitarfélög taka þátt í verkefninu vekur það á sama tíma vonbrigði og undrun að ekki hafi verið talið tilefni til samráðs við Landssamtökin Þroskahjálp, sem standa sérstaklega vörð um hagsmuni og réttindi fatlaðra barna sem oft eru berskjölduðust allra barna í íslensku samfélagi. 

Félagsmálaráðuneytið og sveitarfélög bera mjög ríka skyldu til að tryggja fötluðum börnum ýmis réttindi og tækifæri sem þau eiga að njóta samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningnum sem ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, þ.m.t barnasáttmála SÞ og samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Þá eru réttindi fatlaðra barna áréttuð sérstaklega í 23. grein Barnasáttmálans og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að vinna að, fela í sér yfirlýsingu stjórnvalda um að þau ætli að tryggja að enginn verði skilinn eftir og gera það sem gera þarf til þess.

Mikil samráðsskylda hvílir á íslenskum stjórnvöldum og þar sem óhjákvæmilegt er að líta svo á að verkefnið „Barnvæn sveitarfélög“ sé meðal annars hugsað sem tæki til að tryggja fötluðum börnum mannréttindi og verja þau fyrir mismunun á grundvelli fötlunar, er afar mikilvægt að fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra sitji við borðið í slíkri vinnu.  

Í verkefninu er einnig unnið að svokölluðu mælaborði, sem ætlað er að mæla vísitölu barnvænna sveitarfélaga. Þar virðist ekki vera gert ráð fyrir söfnun sérstakrar tölfræði um stöðu fatlaðra barna, þrátt fyrir að einn af grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga samkvæmt skilgreiningu verkefnisins, sé jafnræði og að horft sé til réttinda allra barna. Þess má geta að í  samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýrt kveðið á um að safna skuli slíkri tölfræði sérstaklega sem auðveldar að leggja mat á stöðu mannréttinda fatlaðs fólks og framfylgd við samninginn.

Landssamtökin Þroskahjálp lýstu í erindi sínu miklum áhuga á að taka þátt í því að finna leiðir til að afla gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að meta stöðu fatlaðra barna við innleiðingu Barnasáttmálans í þeim sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu. Þá bentu samtökin á ungmennaráð Þroskahjálpar, skipað ungu fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir á aldrinum 16–24 ára, sem hafa góða og mikilvæga innsýn sem gæti nýst í verkefninu.

 

Bréfið í heild sinni:

„Góðan dag.  

Við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp höfum tekið eftir tíðum fréttum á heimasíðum Félagsmálaráðuneytisins og UNICEF sem fjalla um verkefni sem snúa að því að gera sveitarfélög barnvæn með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Aðrar upplýsingar um þetta mikilvæga verkefni höfum við ekki þar sem Þroskahjálp hefur hvorki fengið kynningu á verkefnunum, né hafa fulltrúar samtakanna verið kallaðir til samráðs. Það er auðvitað ánægjulegt hversu mörg sveitarfélög ætla að taka þátt í verkefninu en í ljósi þess hversu mikilvægu hlutverki sveitarfélögin gegna við að tryggja fötluðum börnum ýmis réttindi og tækifæri sem þau eiga að njóta og er mælt fyrir um í íslenskum lögum sem og mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, svo sem Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, lýsum við undrun og vonbrigðum okkar með að ekki hafi verið talið tilefni til samráðs við Landssamtökin Þroskahjálp. Samtökin standa sérstaklega vörð um hagsmuni og réttindi fatlaðra barna sem eru mjög oft berskjölduðust allra barna. 

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að tryggja fötluðu fólki, þar með talið fötluðum börnum, öll réttindi sem samningurinn mælir fyrir um. Innleiðing samningsins er að verulegu leyti á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins þar sem verksvið þess og ábyrgð lögum samkvæmt nær til margra sviða samfélagsins þar sem mikil hætta er á að fatlað fólk, ekki síst fötluð börn, þurfa að þola mismunun og skert tækifæri. Óhjákvæmilegt er að líta svo á að verkefnið „Barnvæn sveitarfélög“ sé meðal annars hugsað sem tæki til að tryggja fötluðum börnum mannréttindi og verja þau fyrir mismunun á grundvelli fötlunar. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögð þung áhersla á skyldur stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, til samráðs við fatlað fólk og samtök sem vinna að hagsmunum þeirra. Sú skylda sem varðar fötluðu börn sérstaklega er áréttuð í 4. grein samningsins sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ en þar segir: 

„Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Í Barnasáttmálanum eru réttindi fatlaðra barna einnig áréttuð sérstaklega í 23. grein. Þá fela Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að vinna að, í sér loforð um að enginn verði skilinn eftir og flest hafa þau undirmarkmið um hvernig skuli unnið markvisst og sérstaklega að því að bæta hag og aðstæður hópa í sérlega viðkvæmri stöðu, sem fötluð börn tilheyra vissulega. 

Við lýsum einnig vonbrigðum okkar með að ekki er fjallað um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem verkfæri við innleiðingu verkefnis sem hefur það að markmiði að efla réttindi allra barna. Í mælaborði sem ætlað er að mæla vísitölu barnvænna sveitarfélaga, og er að finna á vefnum barnvaensveitarfelog.is,  virðist ekki vera gert ráð fyrir söfnun sérstakrar tölfræði um stöðu fatlaðra barna, þrátt fyrir að einn af grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga samkvæmt skilgreiningu verkefnisins, sé jafnræði og að horft sé til réttinda allra barna. Þó fötlun sé skilgreind sem ein breyta sem taka þarf tillit til er ekki gert ráð fyrir því í mælaborði að sérstökum tölfræðigögnum, til að meta stöðu fatlaðra barna með tilliti til þeirra þátta sem mældir eru, sé sérstaklega safnað né minnst á samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Þess má geta að í  samningnum er skýrt kveðið á um að safna skuli slíkri tölfræði sérstaklega sem auðveldar að leggja mat stöðu mannréttinda fatlaðs fólks og framfylgd við samninginn. 

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir miklum áhuga á að taka þátt í því með félagsmálaráðuneytinu og UNICEF að finn leiðir til að afla þeirra gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að meta stöðu fatlaðra barna við innleiðingu Barnasáttmálans í þeim sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu. Þá bendum við á að Þroskahjálp til ráðgjafar starfar ungmennaráð skipað ungu fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir á aldrinum 16 – 24 sem hafa góða og mikilvæga innsýn sem gæti nýst í verkefninu.  

Hér með óskum við eftir fundi með félagsmálaráðuneytinu og UNICEF til að ræða þessi mál. 

Virðingarfyllst, 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar“