Orð eru til alls fyrst en verkin verða að tala

Ný lög um þjónustu við fatlað fólk

Ný lög um þjónustu við fatlað fólk og breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga  tóku gildi 1. október sl. Þar er tekið í íslensk lög margt mikilvægt sem mælt er fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Þessi nýju lög eru mikil réttarbót fyrir fatlað fólk á þeim sviðum sem þau ná til. Til að þau geti skilað þeim auknu tækifærum og lífsgæðum sem þeim er ætlað fyrir fatlað fólk verða ríki og sveitarfélög þó að sýna í verki við framkvæmd laganna áhuga og metnað til að tryggja það.

Þroskahjálp lýsir sem fyrr yfir miklum vilja til að eiga náið samstarf og samráð við stjórnvöld til að styðja við og greiða fyrir að svo verði.

Örokubætur og fjárlög.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að þeir 4 milljarðar kr. sem gert var ráð fyrir að færu til að bæta stöðu öryrkja á árinu 2019 samkvæmt fjárlagafrumvarpi verði lækkaðir um 1,1 milljarð kr. Öryrkjar á íslandi verða þar með af af ellefu hundruð miljónum króna á árinu 2019 eða sem svarar 55 þúsund krónum að meðatali á hvern einstakling. Þroskahjálp fordæmir harðlega þessi vinnubrögð stjórnvalda og það virðingarleysi sem í þeim felst gagnvart fötluðu fólki og og einnig þá ósvífni ríkisstjórnarinnar að halda því fram að þetta sé gert vegna vinnu starfshóps sem samtökin hafa í góðri trú tekið þátt í. Það augljóslega yfirvarp og stenst enga skoðun.

Þá er það, að mati Þroskahjálpar, mjög mikið áhyggju- og umhugsunarefni að í allri umræðunni um skerðingar, fjölgun öryrkja og hugsanlega nýtt matskerfi hefur gleymst að ræða megintilgang almannatrygginga, sem er að tryggja framfærslu þess hóps sem vegna skerðinga eða langvarandi sjúkdóma getur ekki séð sér farboða.  Nú eru grunngreiðslur örorkulífeyris 247.000 kr. sem er, eins og allir hljóta að viðurkenna, afar lág fjárhæð og t.a.m. 30.000 krónum lægri en atvinnleysisbætur. Mjög margir af skjólstæðingum þroskahjálpar búa við þessi sultarkjör. Það er samfélaginu okkar að sjálfsögðu til skammar. Og það er líka skammarlegt hversu fáir íslenskir stjórnmálamenn virðast hafa áhuga á því að ræða það og gera eitthvað til að bæta úr því.

Skortur á atvinnutækifærum.

Nú er í gangi að hálfu stjórnvalda vinna við að taka upp svonefnt starfsgetumat. Algjör forsenda þess að það geti skilað þeim ávinningi sem til er ætlast er að vinnumarkaðurinn, opinberi geirinn og einkageirinn, verði mun sveigjanlegri og miklu opnari fyrir fólki með skerta starfsgetu en hann er nú. Stjórnvöld verða því að vinna myndarlega og markvisst í því.

Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir því að það verði gert.

Skortur á tækifærum til náms.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða í samfélaginu um hversu takmörkuð tækifæri ungmenni með þroskahömlun hafa til náms og/eða atvinnu þegar þau hafa lokið  framhaldsskóla. Ýmsar upplýsingar hafa komið fram í fjölmiðlum sem varpa skýru ljósi á þá miklu mismunun og skort á tækifærum sem þessi ungmenni þurfa að þola vegna fötlunar sinnar. Hlutaðeigandi ráðherrar hafa viðurkennt vandann og talað um að þeir hafi ríkan vilja til grípa strax til markvissra aðgerða til að bæta úr.

Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir þeim aðgerðum.

Fordómar, virðingarleysi og vitundarvakning réttindi og mannlega reisn fatlaðs fólks. 
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir:

„Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeig­andi ráðstafanir til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vett­vangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess, og til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins“ og  grípa til aðgerða til „að gera almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks og að stuðla að jákvæðri ímynd fatlaðs fólks og efla vitund í samfélaginu um málefni þess.“ 

Nýlegir atburðir sýna svo ekki verður um villst að það er því miður mjög mikil þörf á því að íslensk stjórnvöld  vinni markvisst að því að auka virðingu fyrir fötluðu fólki og réttindum þess eins og þeim er skylt samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir því að það verði gert.

 

Þroskahjálp þakkar fyrir liðið ár og óskar landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.

 

Bryndís Snæbjörndsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar