Fundur með dómsmálaráðherra um mál Ólafs Hafsteins Einarssonar, vistun fatlaðra barna og fullorðins fatlaðs fólks.

Í gær var haldinn fundur í dómsmálaráðuneytinu þar sem rætt var um mál  Ólafs Hafsteins Einarssonar, sem var vistaður í nokkur ár á Bitru í Hraungerðishrepp þar sem var rekið kvennafangelsi í sama húsnæði af sömu aðilum og önnuðust þá fötluðu einstaklinga sem þar voru.

Á fundinum var einnig rætt um vistun fatlaðra barna og vistun fatlaðs fólks almennt í ljósi upplýsinga um slæma meðferð og aðbúnað á stöðum þar sem fólk var vistað, eins og m.a. er rakið í  ítarlegri skýrslu um Kópavogshælið sem vistheimilanefnd skilaði til dómsmálaráðherra í lok árs 2016. 

Sigríður Á. Andersen dómsálaráðherra boðaði til fundarins að beiðni Ólafs Hafsteins Einarssonar en Ólafur hafði óskað eftir að fá tækifæri til að segja ráðherra sögu sína og frá reynslu sinni af dvölinni að Bitru. Auk ráðherra og Ólafs tóku varaformaður Öryrkjabandalags Íslands framkvæmdastjóri Landssamtakanna þroskahjálpar og réttindagæslumaður fatlaðs fólks þátt í fundinum sem og almannatengill Landsamatakanna Þroskahjápar, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins og tveir aðrir starfsmenn ráðuneytisins.

Á fundinum greindi Ólafur ráðherra og öðrum sem þar voru frá aðstæðum og aðbúnaði að Bitru og þeirri meðferð sem hann fékk á þar og hvaða áhrif það hafði á líðan hans þá og hefur enn. Á fundinum voru ráðherra færð opinber gögn sem styðja frásögn Ólafs. Ólafur óskaði eindregið eftir því að ráðherra taki mál hans viðeigandi meðferðar og að ábyrg stjórnvöld gangist við því að hann hafi verið órétti beittur. Fulltrúar Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins tóku heils hugar undir þá sjáfsögðu ósk.

Fjölmiðlar hafa fjallað um sögu Ólafs og tekið við hann viðtöl að undanförnu.

RÚV: "Engin okkar var frjáls" , "Sorglegt að stór hópur fellur ekki undir lögin" 

Stundin: "Fatlaður maður sækist eftir réttlæti" , "Fatlaður maður var vistaður í kvennafangelsi"

Fulltrúar Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins lögðu á fundinum mikla áherslu á að dómsmálráðherra beitti sé fyrir því að án frekari tafa yrði markvisst ráðist í að skoða vistun fatlaðra barna annars staðar en á Kópavogshæli og vistun fatlaðs fólks almennt, eins og vistheimilanefnd leggur til að stjórnvöld geri í skýrslu sinni um Kópavogshælið.  (sjá bls. 340-344 í skýrslunni). Um væri að ræða mjög mikilvæg mannréttindamál sem verði að upplýsa og gangast við og læra af. Þannig og aðeins þannig megi læra af mistökum og órétti sem átt hefur sér stað og stuðla að því mannréttindi berskjaldaðs fólks verði virt og varin í nútíð og framtíð.

 Skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshælið má nálgast hér

Á fundinum kom fram að skýrslan um Kópavogshælið lá ekki fyrir fyrr en 10 árum eftir að Þroskahjálp skoraði á stjórnvöld að láta rannsaka vistun fatlaðra barna þar og annars staðar. Þá voru margir einstaklingar sem þar dvöldust sem börn fallnir frá og nutu því ekki þess réttlætis sem í því felst að fá viðurkenningu stjórnvalda á þeim órétti sem þeir voru beittir og sanngirnisbóta sem greiddar voru á þeim grundvelli.

Þeir fötluðu einstaklingar sem voru vistaðir sem börn annars staðar en á Kópavogshæli hafa ekkert réttlæti fengið og ekki heldur þeir fötluðu einstaklingar sem voru vistaðir á stofnunum á fullorðinsaldri og höfðu í engin önnur hús að venda og þurftu að þola vonda meðferð og slæman aðbúnað eins og má m.a. lesa um í Kópavogsskýrslunni.

Eftir því sem stjórnvöld draga það lengur að bregaðst með viðeigadni hætti við í þessum málum munu fleiri fatlaðir einstaklingar sem voru miklum órétti beittir falla frá án þess að stjórnvöld hafi rétt hlut þeirra á nokkurn hátt.

Það er von þeirra sem voru á þessum fundi í ráðuneytinu með ráðherra og hennar fólki að dómsmálaráðherra, sem jafnframt er mannréttindamálaráðherra, geri án frekari tafa það sem er rétt og skylt í þessum réttlætismálum þar sem mjög veigamikil mannréttindi eru í húfi.