Samfélagsleg ábyrgð íslenskra fyrirtækja og fatlað fólk

Anna Lára Steindal og Bryndís Snæbjörnsdóttir
Anna Lára Steindal og Bryndís Snæbjörnsdóttir

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjum þeirra árið 2015 undir yfirskriftinni: „Enginn skilinn eftir“. Síðan hafa fjölmargir aðilar frá öllum sviðum samfélagsins, opinberar stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar, heitið því að vinna í anda markmiðanna, sýna samfélagslega ábyrgð og leggja þannig sitt að mörkum til sjálfbærni í heimi þar sem enginn er skilinn eftir.

Öll eru heimsmarkmiðin samtvinnuð og nátengd viðurkenndum mannréttindum sem leggja áherslu á jöfn grundvallarréttindi fólks og tækifæri allra; lífsgæði og öryggi. Ef allir sem það geta og vilja hafa t.d. tækifæri til atvinnu er augljóslega lagt þungt lóð á vogarskálar markmiðs 1, „engin fátækt“, markmiðs 2, „ekkert hungur“, markmiðs 5 „jafnrétti kynjanna“ og markmiðs 10, „aukinn jöfnuður“.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans. Samningurinn kveður á um að fatlað fólk eigi að njóta sömu réttinda og tækifæra og allir aðrir og fá til þess þann stuðning sem það þarf. Þetta markmið og þessa mikilvægu áherslu er einnig að finna í yfirlýsingu heimsmarkmiðanna um að enginn verði skilinn eftir og sum markmiðanna fjalla sérstaklega um hvernig tryggja skuli að tillit sé tekið til aðstæðna og réttinda fatlaðs fólks við innleiðingu þeirra. Þar á meðal er markmið nr. 8 sem fjallar um góða atvinna og hagvöxt með það að markmiði að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Í undirmarkmiði þess nr. 5 segir:

Eigi síðar en árið 2030 verði full vinna og mannsæmandi störf í boði fyrir allar konur og karla, þar á meðal ungt fólk og fatlað fólk, og sömu laun greidd fyrir jafnverðmæt störf.

Í ljósi þeirra breytinga á vinnumarkaði sem eru að verða og fyrirsjáanlegar eru vegna aukinnar tæknivæðingar og ekki síður þeirra áhrifa sem heimsfaraldur COVID-19 hefur haft og mun hugsanlega hafa, er öllum sem vilja axla samfélagslega ábyrgð mikilvægt að gleyma ekki meginmarkmiði heimsmarkmiðanna um að skilja engin eftir. Hætt er við því að án meðvitaðrar viðspyrnu muni áhrifin á mannréttindi og stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði verða umtalsverð þegar störfum sem t.d. fólk með þroskahömlun hefur sinnt, fækkar vegna tæknivæðingar og fyrirtæki takast á við afleiðingar heimsfaraldurs. Með samstilltu átaki getum við þó komið í veg fyrir það.

Vitunarvakning og áskorun

Áttunda grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016, fjallar um vitundarvakningu. Það segir m.a. að aðildarríkin skuldbindi sig til „þess að stuðla að því að kunnátta, verðleikar og geta fatlaðs fólks sé viðurkennd í ríkari mæli, enn fremur framlag þess til vinnustaða og vinnumarkaðarins.“

Það veldur vonbrigðum að þessi skuldbinding og áhersla heimsmarkmiðanna á að gefa öllum tækifæri til atvinnu og þeirra lífsgæða og samfélagsþátttöku sem því fylgir, hafi ekki verið veigameiri í umræðu og stefnumótun um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Við skorum því á íslensk fyrirtæki og aðila Festu til að gera nú þegar myndarlegt átak í því.

Landssamtökin Þroskahjálp eru reiðubúin til samstarfs og ráðgjafar.

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra ungmenna og fatlaðs fólks af erlendum uppruna

 

Greinin birtist í október 2020 fréttabréfi Festu - miðstöð um sjálfbærni og samfélagsábyrgð