Ársskýrsla umboðsmanns barna afhent forsætisráðherra

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 
Myndin er fengin af vef…
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Myndin er fengin af vef Stjórnarráðsins.

Í dag afhenti Salvör Norðdal, umboðsmaður barna, Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, ársskýrslu fyrir árið 2022. Eitt af þeim verkefnum sem greint er frá í skýrslunni er öflun og opinber birting upplýsinga um biðlista barna eftir margvíslegri þjónustu. Eins og Þroskahjálp hefur ítrekað fjallað um eru biðlistar eftir greiningum og ýmiskonar bráðnauðsynlegri þjónustu fyrir fötluð börn óásættanlega langir. Jafnframt beindi umboðsmaður barna þeim tilmælum til stjórnvalda að huga betur að gagnaöflun um bið eftir ákveðinni þjónustu, svo sem þjónustu talmeinafræðinga.  Þá er í skýrslunni fjallað um barnaþing sem fram fór í annað sinn í Hörpu í mars 2022, en Þroskahjálp beitti sér fyrir því að fötluð börn fengju sérstakan stuðning til innihaldsríkrar þátttöku á þinginu, eins og samtökin gerðu þegar fyrsta þingið fór fram árið 2020,  

 

Þroskahjálp fagnar því mjög að nú séu reglulega birtar upplýsingar um biðlista og biðtíma barna eftir þjónustu. Öllum er ljóst að biðtíminn er óásættanlega langur og brýnt að bregðast við því af festu. Þá tökum við heilshugar undir ábendingar um að bæta þurfi öflun tölfræðigagna. Eins og við höfum ítrekað fjallað um er skortur á áreiðanlegri tölfræði um stöðu fatlaðra barna almennt vandamál og eitt af því sem Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gerði athugasemd við þegar nefndin skoðaði síðast stöðu sáttmálans og innleiðingu hans á Íslandi.

 

Þroskahjálp leggur sérstaka áherslu á mannréttindi allra fatlaðra barna og mun halda áfram að sinna verkefnum sem miða að því að tryggja réttindi þeirra, tækifæri til þátttöku og lífsgæða til jafns við önnur börn.

 

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/08/09/Umbodsmadur-barna-afhendir-forsaetisradherra-arsskyrslu-embaettisins-fyrir-2022/