Ályktanir landsþings Þroskahjálpar 2021

AUÐLESIN ÚTGÁFA

Á fjölmennu landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar þann 9. október 2021 voru samþykktar ályktanir með þeim málefnum sem brýnust eru í réttinda- og hagsmunabaráttu fatlaðs fólks. Landssamtökin Þroskahjálp hafa lagt áherslu á þessi málefni s.l. ár, og áratugi, margt hefur áunnist en í mörgum málaflokkum er langt í land.

Það er einlæg ósk samtakanna að stjórnmálamenn, bæði á Alþingi og sveitarstjórnarstigi, kynni sér áherslur samtakanna og taki höndum saman með samtökunum að vinna að hagsmunum, tækifærum og réttindum fatlaðs fólks.

Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Landsþing Landssamtakanna skorar á stjórnvöld og Alþingi að sýna fötluðu fólki og mannréttindum þess virðingu með því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, án frekari tafa og og hrinda þar með í framkvæmd eigin þingsályktun.

3. júní 2019 samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust þingsályktun um „að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“ og „að frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020.“

Þrátt fyrir þessa skýru og afdráttarlausu ályktun Alþingis hefur frumvarp um lögfestingu samningsins ekki enn verið lagt fram og samningurinn hefur ekki verið lögfestur.

Með lögfestingu samningsins yrði mannréttindum fatlaðs fólks veitt mjög aukin vernd. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir stjórnvöldum og dómstólum. Lögfesting samningsins mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki.

Fullgilding valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að virða vilja Alþingis og hrinda í framkvæmd eigin þingsályktun um fullgildingu valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og sýna fötluðu fólki og mannréttindum þess viðeigandi virðingu. 

20. september 2016 samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust þingsályktun um að valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017. 

Þrátt fyrir þessa skýru og afdráttarlausu ályktun Alþingis hefur viðaukinn ekki enn þá verið fullgiltur af íslenska ríkinu.

Með fullgildingu viðaukans opnast kæruleið fyrir fólk sem telur að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt því þann rétt sem þvíber að fá samkvæmt samningnum og hefur fullreynt að ná fram rétti sínum innan íslenska stjórn- og dómskerfisins. Með fullgildingu valfrjálsa viðaukans verður þannig virkara aðhald um framfylgd samningsins, réttaröryggi fatlaðs fólks eykst verulega og mannréttindi þess verða betur varin. 100 ríki hafa nú þegar fullgilt valkvæða viðaukann.

Sjálfstæð mannréttindastofnun til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti mannréttinda

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að sýna fötluðu fólki og mannréttindum þess þá virðingu að stofna, án frekari tafa, sjálfstæða mannréttindastofnun til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti allra mannréttinda til jafns við aðra.

Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 skuldbatt íslenska ríkið sig til að stofna sjálfstæða mannréttindastofnun til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti allra mannréttinda sem samningurinn áréttar. Þó að nú séu liðin fimm ár síðan þessi þjóðréttarlega skylda féll á íslenska ríkið hefur það ekki enn þá uppfyllt hana.

Mjög brýnt er að efla eftirlit með að fatlað fólk hér á landi njóti allra þeirra mannréttinda sem sérstaklega eru áréttuð í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

 Heildstæð mismununarlög sem banna mismunun á grundvelli fötlunar

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á íslensk stjórnvöld að virða lög sem Alþingi hefur samþykkt og leggja nú þegar fram frumvarp að heildstæðum mismununarlögum sem banna mismunun m.a. á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins.

Í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, sem öðluðust gildi 1. september 2018, er mælt fyrir um að forsætisráðherra skuli, innan árs frá gildistöku laganna, leggja fram frumvarp að heildstæðum mismununalögum sem banna mismunun, m.a. á grundvelli fötlunar, á öllum sviðum samfélagsins.

Þetta frumvarp hefur ekki enn verið lagt fram þó að nú séu liðin tvö ár frá því að það skyldi gert samkvæmt lögunum.

Meðferð mála fatlaðs flóttafólks og fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að innleiða verklag sem tryggir að tekið sé fullt tillit til fötlunar við meðferð mála fatlaðs flóttafólks og fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Fólk sem neyðist til að flýja heimili sín vegna styrjalda, ofbeldis eða ofsókna er allt í brýnni þörf fyrir stuðning og vernd. Stjórnvöldum er skylt að veita þá vernd samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum. Fatlað fólk sem neyðist til að flýja heimili sín og heimalönd er sérstaklega berskjaldað.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru ýmis ákvæði sem taka ber mið af við meðferð mála flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd þegar fatlað fólk á í hlut. Skýrar vísbendingar eru um að meðferð þessara mála sé alls ekki í samræmi við þær skyldur sem á hlutaðeigandi stjórnvöldum hvíla.

Stórefla þarf þekkingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks innan þeirra stofnana sem fara með mál umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks og innleiða þar verklag sem tryggir þau réttindi sem fatlað flóttafólk nýtur samkvæmt samningnum sem var fullgiltur af íslenska ríkinu árið 2016.

Þjónusta fylgi fötluðum börnum en sé ekki bundin við stofnun eða tiltekið húsnæði

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á veitendur stuðningsþjónustu að tryggja að stuðningur sem fötluð börn þurfa á að halda og eiga rétt á fylgi einstaklingnum en sé ekki bundin við stofnun eða tiltekið húsnæði.

Á tímum heimsfaraldurs Covid-19 hefur komið mjög berlega í ljós hversu mikilvægt það er að stuðningsúrræði sem fötluð börn njóta og eiga rétt á í skóla og frístund fylgi einstaklingum en séu ekki bundin við stofnun eða tiltekið húsnæði. Ítrekað hefur það gerst að fötluð börn hafa verið heima í sóttkví, án stuðnings í námi á meðan starfsfólk í stuðningsúrræðum hefur verið verkefnalaust í skólum og á frístundaheimilum.

Að veita þjónustuna þar sem fatlaða barnið dvelst er miög mikilvægur liður í því að mæta stuðningsþörfum í samræmi við réttindi þess. 

Ofbeldi gegn fötluðu fólki

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stofnanir ríkis og sveitarfélaga og samtök, sem koma að ofbeldismálum þar sem fatlað fólk á hlut að máli, að tryggja að málsmeðferð á öllum stigum taki mið af einstaklingsbundnum þörfum og aðstæðum hlutaðeigandi einstaklinga.

 

Fatlað fólk er miklu líklegra til þess að verða fyrir hvers kyns ofbeldi en aðrir hópar. Þetta er m.a. staðfest í skýrslu sem embætti ríkislögreglustjóra gaf út í janúar 2021 og lýsir sér einnig í gríðarlegri fjölgun ofbeldismála sem borist hafa réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Mjög brýnt er að bæta meðferð ofbeldismála, þar sem fatlað fólk á í hlut, á öllum stigum, hjá lögreglu sem rannsakar mál, hjá þeim sem veita þolendum stuðning sem og í dómskerfinu. 

Tækifæri til náms að loknum starfsbrautum framhaldsskóla

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að tryggja öllum ungmennum sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskólanna áframhaldandi val um að stunda nám., hvort heldur sem er með námsleiðum innan framhaldsskólanna, í háskólum eða skólum sem bjóða verk-, tækni- eða listgreinamenntun.

Námstækifæri fatlaðra ungmenna sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskólanna er af afar skornum skammti og svo takmarkandi að tækifærin bjóðast aldrei öllum útskriftarhópnum ár hvert.  Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 skuldbatt íslenska ríkið sig til þess að tryggja menntun fyrir alla.

Í 4. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem hefur yfirskriftina „Menntun fyrir alla“ er kveðið á um margvíslegar aðgerðir sem ríki verða að gera til að ná því markmiði.

Íslensk stjórnvöld verða að sýna í verki að þau ætli að standa við skuldbindingar sínar og yfirlýsingar samkvæmt samningi SÞ og heimsmarkmiðum SÞ með því að tryggja fötluðum ungmennum tækifæri til náms til jafns við önnur ungmenni.

 Störf fyrir fatlað fólk hjá ríki og sveitarfélögum

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að grípa til sértækra aðgerða (setja kvóta á stofnanir ríkis og sveitarfélaga) til að verja fatlað fólk gegn mismunun á grundvelli fötlunar og  tryggja því aukin tækifæri á vinnumarkaði.

Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 skuldbatt íslenska ríkið sig til þess að tryggja tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði og verja það fyrir mismunun þar.

Í samningnum og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, er kveðið á um að aðgerðir, sem ætlað er að bæta stöðu einstaklinga á vinnumarkaði á þeim sviðum þar sem á þá hallar vegna m.a. fötlunar í því skyni að stuðla að jafnri meðferð á vinnumarkaði, gangi ekki gegn lögum og samningnum.

Í 5. grein samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks segir: ,,Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.“ Því skorar landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar á stjórnvöld að beita jákvæðri mismunun og styðja þannig við aukin atvinnutækifæri fatlaðs fólks.

Geðheilbrigðisþjónusta og fíknimeðferð fyrir fólk með þroskahömlun og fólk á einhverfurófi

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að tryggja að fatlað fólk hafi jafnan aðgang á við aðra að mikilvægri heilbrigðisþjónustu með því að stórefla geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir, og tryggja því jafnframt viðeigandi og sérhæfða þjónustu sem tekur fullt tillit til sérstakra þarfa þess.

Fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir fær geðsjúkdóma og fíknisjúkdóma eins og annað fólk. Oft notar fatlað fólk fíkniefni til að deyfa vanlíðan sem stafar af ónógri þjónustu og slæmum félagslegum aðstæðum.

Tryggja verður að fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir standi til boða einstaklingsmiðuð geðheilbrigðisþjónusta og fíknimeðferð sem tekur fullt tillit til sérþarfa hvers og eins.

Örorkubótakerfið

Landsþing landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að gera, án frekari tafa og í fullu samráði við fatlað fólk og samtök sem vinna að hagsmuna- og réttindamálum þess, nauðsynlegar breytingar á örorkubótakerfinu með það að markmiði að tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

„Ríkisstjórnin mun efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Í því samráði munu stjórnvöld fyrst og fremst ræða við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp og stefna að því að ljúka þeirri vinnu sem fyrst. Fyrsta skref af hálfu stjórnvalda verður að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu en á síðari stigum er mikilvægt að atvinnulífið taki virkan þátt í því verkefni.“

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnin skuli ekki hafa staðið við þessa yfirlýsingu sína og skora á nýja ríkisstjórn að endurnýja þetta loforð gagnvart fötluðu fólki og standa við það, án frekari tafa.