Yfirlýsing Þroskahjálpar vegna innritunar á sérnámsbrautir

Í síðustu viku sendu kennslustjórar sérnámsbrauta/starfsbrauta í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir vonbrigðum og óánægju með innritunarferli á sérnámsbrautir og starfsbrautir.

Í yfirlýsingunni eru annmarkar á inntökuferlinu gagnrýndir þar sem það komi það niður á undirbúningi nýrra nemenda sem hefja framhaldsskólanám í haust. Þá gagnrýna kennslustjórarnir aukna kröfu um að taka æ fleiri nemendur inn á brautirnar og segja þá þróun bitna á námsumhverfi og einstaklingsmiðuðu námi. Kennslustjórarnir hvetja hvetja til þess að sérnámsbrautum/starfsbrautum verði fjölgað og að allir framhaldsskólar bjóði upp á slíkt nám og taki þannig þátt í því að skapa skólasamfélag án aðgreiningar. Loks er í yfirlýsingunni bent á að fjöldi nemenda sem innritast á sérnámsbrautir ætti ekki að koma skólayfirvöldum á óvart þar sem einfalt er að nálgast tölulegar upplýsingar frá grunnskólum með góðum fyrirvara.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að framfylgja, er fjallað um réttinn til menntunar í 24. gr.

Þar segir meðal annars:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum.“ (feitletrun Þroskahjálpar)

Landssamtökin Þroskahjáp harma þá stöðu sem upp er komin vegna innritunar á starfsbrautir framhaldskólanna og taka heilshugar undir yfirlýsingu kennslustjóranna.

Það er með öllu óásættanlegt að menntakerfið geri ekki ráð fyrir öllum útskrifuðum ungmennum úr grunnskóla í nám á framhaldskólastigi.

Bið sem þessi setur fötluð ungmenni í afar vonda stöðu. Það er með öllu óforsvaranlegt að ekki hafi verið gerðar ráðstafanir af hálfu hlutaðeigandi skólayfirvalda í tíma þar sem legið hefur lengi hversu fjölmennur hópurinn er ár hvert.

Landssamtökin Þroskahjálp krefjast þess að öllum nemendum sem vilja innritast á starfsbraut verði tryggð hnökralaus innritun og góðar og styðjandi aðstæður til náms þar sem þörfum hvers og eins nemanda er mætt.