Synjun úrskurðarnefndar velferðarmála um styrk vegna hjálpartækis ekki í samræmi við lög

Umboðsmaður Alþingis birti í síðustu viku á heimasíðu sinni mjög mikilvægt álit varðandi réttindi fatlaðs fólks til hjálpartækja og minnti þar stjórnvöld á skyldur þeirra til að standa við skuldbindingar ríkisins til að virða mannréttindi fatlaðs fólks og framfylgja ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í frétt á heimasíðu umboðsmanns segir:
 
Úrskurðarnefnd velferðarmála túlkaði lög um sjúkratryggingar of þröngt þegar hún synjaði umsækjanda um styrk til kaupa á hjálpartæki.
 
Fatlaður einstaklingur leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem honum hafði verið synjað um styrk til að kaupa handknúið hjól með aflbúnaði til að nota með hjólastól. Niðurstaða nefndarinnar var að þótt hjálpartækið gæti talist hentugt fyrir viðkomandi þá gæti það ekki talist nauðsynlegt, eins og áskilið væri í lögum um sjúkratryggingar, þar sem viðkomandi kæmist af án þess.
 
Settur umboðsmaður benti á að þótt úrskurðarnefndin hefði svigrúm til að meta hvort hjálpartæki teldist nauðsynlegt yrði að meta aðstæður umsækjenda einstaklingsbundið og heildstætt hverju sinni. Við túlkun á þessu skilyrði laganna yrði, meðal annars með hliðsjón af markmiðum laganna, að túlka það á þann veg að notkun tækisins næði þeim tilgangi að vernda heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi, og þá í ljósi þeirra hagsmuna sem væru undirliggjandi. Þar þyrfti einnig að hafa í huga þá réttarvernd sem fötluðu fólki væri búin í lögum til að tryggja því jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra. Nefndin hefði því með viðmiði sínu, um að hjálpartæki teljist ekki nauðsynlegt ef viðkomandi kæmist af án þess, þrengt með of fortakslausum hætti að því mati sem þurfi að fara fram við þessar aðstæður.
 
Settur umboðsmaður taldi að nefndin hefði hvorki byggt niðurstöðu sína á fullnægjandi grundvelli né tekið mið af þeim röksemdum sem umsækjandi færði fram vegna málsins.
 
Og í álitinu sjálfu segir umboðsmaður m.a. um skyldur Sjúkratrygginga Íslands til að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að gera:
 
Í ljósi þeirrar afstöðu úrskurðarnefndarinnar að jafnframt beri að leggja þröngan skilning í hugtakið daglegt líf í skilningi 26. gr. laga nr. 112/2008 tel ég tilefni til að minna á að á síðustu árum hefur fötluðu fólki verið búin aukin réttarvernd á grundvelli fjölþjóðlegra samninga og í lögum sem meðal annars leggja áherslu á að virðing sé borin fyrir sjálfsákvörðunarrétti þess. Þannig er löggjöf sem snýr að réttindum fatlaðs fólks almennt ætlað að tryggja því jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, sem voru í gildi þegar atvik þessa máls áttu sér stað.
 
Ef tekið er mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laga nr. 59/1992, í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laganna, þá hefur þar verið lögð áhersla á að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi, meðal annars með því að gera því kleift að komast ferða sinna og bæta aðgengi þess, sbr. til dæmis 9. og 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þessu sambandi hefur verið lögð áhersla á að fötluðu fólki sé þannig veittur stuðningur til að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í ljósi alls framangreinds get ég því ekki fallist á þá þröngu túlkun sem úrskurðarnefnd velferðarmála hefur lagt til grundvallar að þessu leyti.
 
Landssamtökin Þroskahjálp skora á Sjúkratyggingar Íslands að gera tafaralaust nauðsynlegar breytingar á verklagi sínu og þjónustu til að það samræmist þessu áliti umboðsmanns og önnur stjórnvöld til að gæta þess að reglur þeirra, verklag og framkvæmd uppfylli örugglega skyldur sem hvíla á þeim þar sem íslenska ríkið hefur fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.