Styrkur til að þróa fræðslu um heilbrigðan lífsstíl

AUÐLESIÐ

  • Þroskahjálp fær styrk frá Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
  • Styrkurinn er til þess að styðja fatlað fólk til að læra um heilsu og vellíðan.
  • Það er ekki til mikið af upplýsingum á auðlesnu máli um heilsu og lífstíl.
  • Að hugsa um heilsuna er mikilvægt fyrir okkur öll, þá líður okkur betur líkamlega og andlega.
  • Þroskahjálp ætlar að búa til fræðslu um hvernig er hægt að hugsa vel um heilsuna, til dæmis með mataræði og hreyfingu.
  • Þroskahjálp ætlar að vinna með fötluðu fólki við að búa til efnið.
  • Verkefnið verður unnið með ungmennaráði Þroskahjálpar, Átaki - félagi fólks með þroskahömlun og með Fjölmennt.

Þroskahjálp hefur fengið styrk frá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra til að ráðast í nýtt og spennandi verkefni á árinu 2023.

Markmið verkefnisins er að auka aðgengi fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir að fræðslu og stuðningi til þess að ástunda heilbrigðan lífsstíl og auka þannig lífsgæði þessa hóps.

Rannsóknir sýna að fólk með þroskahömlun er líklegra en aðrir hópar til að búa við ýmiskonar lífstílstengda lífsgæðaskerðingu og jafnvel sjúkdóma þar sem það getur, vegna fötlunar sinnar, átt erfitt með að leggja mat á áhættuhegðun sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu og lífsgæði. Heilsa er vítt hugtak og nær þetta verkefni yfir líkamlega, andlega og félagslega vellíðan.

Þroskahjálp hefur einsett sér síðustu ár að gefa nýsköpun meira vægi og vera framsækin í að finna nýjar og bættar leiðir til að þjónusta fatlað og til að tryggja að fatlað fólk fái aukin tækifæri og jafnt aðgengi að mikilvægum upplýsingum til jafns við aðra. Sem dæmi um þá nýsköpun sem Þroskahjálp hefur ráðist í má nefna Miðstöð um auðlesið mál og sýndarveruleikaverkefni Þroskahjálpar.

Þetta verkefni verður engin undantekning og munu samtökin mun leggja metnað í að útbúa aðgengilegt og skemmtilegt efni sem fatlað fólk getur nýtt sér til að fræðast um heilbrigðan lífsstíl út frá eigin forsendum.

Haft verður víðtækt samráð við gerð fræðsluefnisins en verkefnið verður skipulagt í samstarfi við Átak, félag fólks með þroskahömlun, ungmennaráð Þroskahjálpar og Fjölmennt. Leitað verður til starfsbrauta framhaldsskólanna sem og stórra vinnustaða fatlaðs fólks um þátttöku í verkefninu með því að koma efninu á framfæri.

Þroskahjálp er þakklátt Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fyrir stuðninginn. Það er dýrmætt að finna að félags- og vinnumarkaðráðuneytið taki undir þær áherslur Þroskahjálpar að bæta þurfi aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum og að mikilvægt sé að fara nýjar leiðir til að auka lífsgæði og tækfæri þessa hóps.