Skammtímadvalir og verk- og vinnustaðir fatlaðs fólks lokaðir!

*AUÐLESIÐ NEÐST*

Í kjölfarið þess að yfirvöld lýstu yfir neyðarstigi almannavarna í tengslum við kórónaveiruna eða COVID-19 hafa mörg sveitarfélög ákveðið að loka starfseiningum sem sóttar eru af einstaklingum í viðkvæmum hópum, þar með talið skammtímadvölum bæði fyrir börn og fullorðna.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa fullan skilning á þessari ákvörðun enda mikilvægt að vernda viðkvæma hópa. Hins vegar er það svo að þeir sem sækja þessa staði teljast ekki allir viðkvæmir eða eru með undirliggjandi sjúkdóma, þar sem fötlun er ekki sjúkdómur. Því skorum við á þá aðila sem hafa lokað starfstöðvum vegna COVID-19 að endurskoða ákvörðunina út frá þörfum þeirra sem ekki tilheyra viðkvæmum hópum. Til dæmis væri hægt að hafa þær opnar fyrir þá einstaklinga sem eru hraustir en bjóða þeim sem tilheyra viðkvæmum hópum upp á að fá þjónustuna heim.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja vekja athygli á að þjónusta við fatlað fólk þarf ekki að vera bundin innan ákveðinna fjögurra veggja og því mikilvægt að starfsfók sem vinnur á þeim stöðum sem hefur verið lokað tímabundið sinni þjónustunni þar sem notendurnir eru t.d. inni í búsetukjörnum, inni á heimilum foreldra eða á sambýlum.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar átti frumkvæði að því um leið og ákveðið var að grípa til aðgerða vegna neyðarstigsins að hafa samband við Landssamtökin Þroskahjálp og hafa samtökin verið vel upplýst um aðgerðir velferðarsviðs Reykjavíkurborg. Þar hefur verið lögð sérstök áhersla á einstaklingsbundna nálgun þar sem reynt er að mæta þörfum hvers og eins. Við skorum á önnur sveitarfélögum að vinna með sama hætti!

Samtökin hafa nú þegar lýst áhyggjum vegna foreldra og/eða annarra  aðstandenda fatlaðs fólks og fatlaðra barna sem þurfa að vera frá vinnu vegna lokana á þjónustu vegna COVID-19. Aðstæður þessar geta líka orðið raunveruleiki fyrir aðra foreldra ef leikskólum eða skólum verður lokað, en það er mikilvægt að horfa til þess að þessar aðgerðir koma verst niður á aðstæðum fatlaðs fólks og fjölskyldna þeirra sem við þurfum að vernda sérstaklega.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent erindi til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra varðandi stöðu foreldra og aðstandenda fatlaðs fólks sem þurfa að taka sér frí frá vinnu til að sinna þeim vegna þessara lokana. Mikilvægt er að aðstandendum sem þurfa að taka sér frí frá vinnu vegna lokana á þjónustu við fatlað fólk verði tryggðar tekjur til samræmis við þá sem þurfa að fara í sóttkví.

AUÐLESIÐ:

  • Mörg sveitarfélög hafa ákveðið að loka starfsemi þar sem fólk kemur saman, til dæmis skammtímadvöl fyrir fatlað fólk, vegna kóróna-veirunnar. 

  • Þroskahjálp skilur að það er mikilvægt að vernda fólk sem er viðkvæmt og gæti orðið mjög veikt af kórónaveirunni. Hins vegar eru ekki allir sem fara á þessa staði viðkvæmir eða með sjúkdóma. Mikilvægt er að muna að fötlun er ekki það sama og sjúkdómur. 

  • Þroskahjálp skorar á alla sem loka starfsemi vegna kóróna-veirunnar að endurskoða ákvörðun sína útfrá þeim sem eru ekki viðkvæmir. 

  • Það er hægt að bjóða þeim sem ekki eru viðkvæmir að mæta en þau sem eru viðkvæm gætu fengið þjónustuna heim til sín.

  • Starfsfólk á að geta farið til fatlaðs fólks þar sem það er og veitt þeim þjónustu.

  • Velferðar-svið Reykjavíkurborgar hefur komið til móts við þarfir einstaklinganna sem þurfa aðstoð. Þau hafa líka látið Þroskahjálp vita hvað þau eru að gera, það er jákvætt. Við hvetjum önnur sveitarfélög til að gera það líka.

  • Þroskahjálp hefur áhyggjur af því að foreldrar eða aðstandendur fatlaðs fólks geti ekki farið í vinnu útaf því að starfsemin er lokuð.

  • Þroskahjálp hefur spurt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvernig eigi að hjálpa fólki sem á fötluð börn eða ættingja og getur ekki farið í vinnuna. Þau þurfa að fá launin sín, eins og fólk sem þarf að fara í sóttkví.

  • Ef þú vilt lesa meira um kóróna-veiruna getur þú smellt hér.