Ræða Önnu Láru Steindal á mótmælum á Austurvelli

Anna Lára Steindal
Anna Lára Steindal
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna, talar:

Væri ekki eðlilegt að stjórnvöld sem hafa mannréttindi í hávegum tækju því fagnandi að látið sé reyna á umdeilda úrskurði umsókna fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd fyrir dómstólum?

Og sýndu fullan samstarfsvilja til að fá vandaða niðurstöðu í mál sem varðar gríðarlega mikilvæga hagsmuni og réttindi fatlaðs fólks?

Stjórnvöld telja sig fara að lögum og virða lágmarks mannréttindi og kröfur um mannúð -  en um þetta ríkir alls enginn einhugur, hvorki meðal lögfræðinga né almennings.

Væri ekki eðlilegt að stjórnvöld tækju því fagnandi að nú stendur til að dómstólar taki þennan ágreining til umfjöllunar og gerðu allt sem í þeirra valdi stendur til að greiða fyrir góðri málsmeðferð, til dæmis með því að sjá til þess að Hussein Hussein væri ekki fluttur af landi brott tveimur vikum áður en þetta mikilvæga mál er tekið fyrir?

Nú hefur mér verið tjáð að Hussein hafi fengið hjólastólinn sem hann notaði á Íslandi með sér. Ég biðst afsökunar hafi ég farið með rangt mál.

Ég leyfi mér jafnframt að benda á að það að stóllinn hafi farið með er engin málsvörn í þessum gjörningi. Þessi misskilningur sýnir bara aðrar og jafnvel alvarlegri brotalamir sem voru þær að hvorki lögfræðingur né réttindagæslumaður Hussein fékk að hitta hann eftir handtöku og þess vegna höfðu þessir aðilar ekki réttar upplýsingar til að miðla. Þá var komið í veg fyrir að fjölmiðlar gætu sinnt hlutverki sínu við að upplýsa almenning um hvernig að brottvísun var staðið.

Væri ekki nær að stjórnvöld leggðu sig fram við að svara hvers vegna það var gert frekar en að eltast við upplýsingar um hvaða hjólastóll fór úr landi eða réttlæta aðgerðir sem ganga fram af okkur með því að fyrir þeim hafi verið stoð í  lögum?

Hvers vegna máttu fjölmiðlar ekki flytja fréttir af þessari brottvísun ef hún var í raun mannúðleg, lögleg og bara fullkomlega eðlileg?

Ljóst er að það sem fram hefur komið í máli lögreglu um málið og framkvæmd brottvísunar, og Dómsmálaráðuneytið hefur svo tekið undir, stangast í veigamiklum atriðum á við aðrar upplýsingar sem fram hafa komið. Er því ekki bráðnauðsynlegt að aðili óháður lögreglu og yfirvöldum dómsmála rannsaki þennan atburð frá A til Ö? Og ætti lögreglan ekki að taka því fagnandi ef hún vill að við treystum henni til að fara vel með mannréttindi?

Já, kannski hljóp ég á mig með því að tala um hjólastólinn í fjölmiðlum. En í mínum huga snýst málið ekki um hjólastólinn.

Það alvarlega í þessu máli er í fyrsta lagi að lögmaður og réttindagæslumaður Husseins fengu ekki að hitta skjólstæðing sinn eftir handtöku og að stjórnvöld komu í veg fyrir að fjölmiðlar gætu flutt almenningi greinargóðar og réttar upplýsingar.

Það alvarlega í þessu máli er í öðru lagi að fatlaður maður, sem þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs, var sendur í aðstæður þar sem við vitum að hann fær ekki þá aðstoð sem hann þarf. Ég veit svei mér þá ekki hvernig hann á að komast af við þessar aðstæður. Við höldum það ekki - við VITUM það.

Og ekki síður alvarlegt er að stjórnvöld sýndu ekki fullan samstarfsvilja til þess að vanda til verka þegar loksins kemur að því að dómstólar taki afstöðu til máls sem við hjá Þroskahjálp höfum reynt að fá áheyrn með í tvö ár. Við höfum rætt þetta alls staðar sem við höfum getað fengið áheyrn - en því miður fyrir daufum eyrum og þess vegna er þetta dómsmál sérlega mikilvægt. Þetta er mál sem varðar gríðarlega mikla hagsmuni og mikilvæg mannréttindi fatlaðs fólks.

Um hvort og þá hvernig samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks talar inn í afgreiðslu umsókna fatlaðs fólks um alþjóðlega vernd.

Þetta er kjarni málsins í mínum huga. Og áhugaleysi stjórnvalda á því að fá sem vandaðast álit dómstóla á þessu mikilvæga mannréttindmáli finnst mér vægast sagt sorglegt. Og sama máli gegnir um hvítþvott sömu stjórnvalda á þessum gjörningi.

Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hafi verið í samræmi við lög verður það verkefni okkar hjá Þroskahjálp að fá lögunum breytt þar sem þau eru þá ómannúðleg og óásættanleg og alls ekki í okkar nafni eða samræmi við túlkun okkar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í öllu falli er gríðarlega mikilvægt að úr þessu skorið. Þess vegna þarf einfaldlega að flytja Hussein til baka svo hann geti verið viðstaddur þegar málið er tekið fyrir.

Að lokum vil ég vekja athygli á því að árið 2017 var samþykkt mótatkvæðalaust á alþingi að fullgilda svo kallaðan valfrjálsan viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir árslok það ár. 100 lönd hafa þegar fullgilt hann en fimm árum síðar bólar ekkert á efndum hjá íslenskum stjórnvöldum.

Með fullgildingu valfrjálsa viðaukans gæti fatlað fólk og samtök eins og Þroskahjálp leitað álits hjá nefnd SÞ um samninginn á ágreiningsmálum. Þennan möguleika höfum við ekki núna þar sem vilji alþingis hefur verið hunsaður í fimm ár!