Óskað eftir upplýsingum um fjölda COVID smita í búsetu fatlaðs fólks

[AUÐLESIÐ NEÐST]

Í erlendum fjölmiðlum hefur komið fram að allt bendi til þess að COVID-smit séu mun útbreiddari meðal fatlaðs fólks og aldraðra sem dveljast á sambýlum, búsetukjörnum og stofnunum en á meðal fólks almennt.

Sjá m.a. hlekki að neðan:


Af þessum sökum hafa Landssamtökin Þroskahjálp sent félagsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Landlæknisembættinu erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum um fjölda COVID-smita á sambýlum, búsetukjörnum og stofnunum þar sem fatlað fólk býr. Ef stjórnvöld hafi ekki safnað umræddum upplýsingum er óskað eftir að það verði gert. 

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 er mikil áhersla lögð á skyldur ríkja til að tryggja að fatlað fólk fái heilbrigðisþjónustu og vernd á því svið til jafns við aðra[1] og „að tryggt sé að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir“[2]  Þá er í 33. gr. samningsins kveðið á um að aðildarríkin skuldbindi sig til að safna tölfuræðilegum gögnum og rannsóknargögnum.[3]

 AUÐLESIÐ:

  • Við höfum heyrt fréttir af því að fatlað fólk og gamalt fólk sem býr í búsetu-þjónustu og stofnunum fái frekar kóróna-veiruna.

  • Smelltu hér til að lesa um kóróna-veiruna.

  • Útaf þessum fréttum hefur Þroskahjálp sent bréf til stjórnvalda. 

  • Þroskahjálp vill vita hvort stjórnvöld  eigi upplýsingar um það hvort fleira fatlað fólk á Íslandi sem býr í búsetu-þjónustu eða á stofnun fái kóróna-veiruna, en fólk sem er ekki fatlað eða fatlað fólk sem býr heima hjá sér.

  • Ef þessar upplýsingar eru ekki til vilja Þroskahjálp að stjórnvöld safni upplýsingunum.

  • Stjórnvöld eiga að hafa þessar upplýsingar til að hægt sé að skoða ástandið og stöðu fatlaðs fólks. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir það.

  • Þau sem fengu bréfið frá Þroskahjálp eru: félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, Samband íslenskra sveitarfélaga og landlæknir.


[1] Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks má nálgast hér.  Sjá m.a. 5. og 25. gr. samningsins[

https://www.stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/frettir-2013/CRPD-islensk-thyding---lokaskjal.pdf

[2] 11. gr.                    Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.

 Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, einnig samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og alþjóðlegum mannréttinda­lögum, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúru­hamförum. 

[3] 31. gr.                    Tölfræði og gagnasöfnun. 

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og fram­fylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar.

...

Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.