Nokkur orð um fjárlagafrumvarpið 2019.

Nokkur orð um fjárlagafrumvarpið 2019.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 og er það nú til meðferðar á  Alþingi. Í frumvarpinu er ýmislegt eða vantar ýmislegt sem hlýtur að vekja spurningar, athygli, vonbrigði og jafnvel undrun hjá fötluðu fólki og áhugafólki um mannréttindi og jöfn tækifæri fólks hér á landi.

Þroskahjálp taldi því óhjákvæmilegt að senda velferðarráðuneytinu (afrit til fjármálaráðuneytis og formanns fjárlaganefndar) þessa fyrirspurn:

„Þann 31. maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021. Í upphafi áætlunarinnar segir: „Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.“ 

Í áætluninni er eftirfarandi framkvæmd:


F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð. 
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós. 
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila. 
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið. 
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög. 
     Tími: 2017–2021. 
     Kostnaður: Innan ramma. 
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á. 

Með vísan til þess að félags-og jafnréttismálaráðherra lagði þingsályktunartillöguna fram og að  þessi framkvæmd er á ábyrgð velferðarráðuneytisins óska Landssamtökin Þroskahjálp eftir upplýsingum ráðuneytisins um hvernig staðið var að framkvæmdinni við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019 sem hefur verið lagt fram og er nú til meðferðar á Alþingi.“

 

Landssamtökin Þroskahjálp munu á næstunni koma athugasemdum sínum, áherslum og sjónarmiðum varðandi fjárlagafrumvarpið á framfæri við fjárlaganefnd, Alþingi og hlutaðeigandi ráðherra og treystir því að tillit verði til þess tekið áður en frumvarpið verður afgreitt sem lög.

Mig langar þó hér að nefna stuttlega þrjú atriði sem öll vekja mikil vonbrigði og furðu, ekki síst í ljósi yfirlýsinga forystufólks ríkisstjórnarflokkanna fyrir og eftir alþingiskosningar og þess sem er að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Endurskoðun örorkulífeyris.

Ekki verður séð að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir afnámi svokallaðrar „krónu á móti krónu skerðingar“ á örorkubótum í byrjun næsta árs. Hér er ekki aðeins um gríðarlega mikið réttlætismál að ræða og afar miklir hagsmunir og í lífsgæði í húfi fyrir örykja. Hér er einnig um óverjandi mismunun að ræða í ljósi þess slík breyting var gerð á kjörum aldrðra  um áramótin 2017 -2018 en öryrkjar voru sviknir um það. Samhliða þessari breytingu þarf að virkja að nýju aldurstengda uppbót á örorkulífeyri.

 

Innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks – Ný lög.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

„Ljúka þarf lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“

Ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hafa verið samþykkt og öðlast þau gildi 1. október nk. Þar er margt sem er til þess fallið að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks betur en nú er gert, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. En því miður verður ekki séð í fjárlagafrumvarpinu að nægilegt fé fylgi til að hrinda þeim lögum þannig í framkvæmd að tryggt verði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda sem samningurinn mælir fyrir um.      

Tækifæri fatlaðra ungmenna til menntunar og atvinnu

Að undanförnu hefur verið mikil umræða í samfélaginu um hversu takmörkuð tækifæri ungmenni með þroskahömlun hafa til náms og/eða atvinnu þegar þau hafa lokið  framhaldsskóla. Ýmsar upplýsingar hafa komið fram í fjölmiðlum sem varpa skýru ljósi á þá miklu mismunun og skort á tækifærum sem þessi ungmenni þurfa að þola vegna fötlunar sinnar. Hlutaðeigandi ráðherrar hafa viðurkennt vandann og talað um að þeir hafi ríkan vilja til grípa strax til markvissra aðgerða til að bæta úr.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað bent á nokkur atriði sem hægt er að gera nú þegar til að breyta þessum aðstæðum.  Fjölmennt veitir fólki með þroskahömlun tækifæri til margvíslegrar menntunar. Fjárveitingar til Fjölmenntar hafa þó farið hratt minnkandi að raunvirði mörg undanfarin ár og er nú svo komið að þar er mun minna í boði fyrir fólk með þroskahömlun en var fyrir nokkrum árum. Ekki verður séð að í fjáragafrumvarpinu sé gert ráð fyrir að úr þessu verði bætt þó að það sé mjög einföld og hraðvirk leið til að bæta stöðuna í þessum málum umtalsvert þó að vissulega þurfi margt annað að gera til að hún geti talist vera ásættanleg í ríki sem kennir sig við mannréttindi og jöfn tækifæri fólks. Hægt er að ganga til samninga við myndlistarskólann í Reykjavík um að endurvekja diplómanám í myndlist fyrir fólk með þroksahömlun. Hægt er kanna möguleika menntavísindasviðs HÍ á að innrita árlega nema í starfstengt diplómanám í stað annars hvers árs eins og nú er.

Samhliða þessu þarf að vinna markvisst að því að auka framboð á námi eftir framhaldsskóla og stórefla vinnumiðlun fyrir fatlað fólk. Setja þarf samstarf vinnumiðlunar og skólakerfis í fastari skorður, m.a. með því að innleiða yfirfærsluáætlanir fyrir einstaklinga sem í hlut eiga frá framhaldsskóla og í atvinnu  eða áframhaldandi nám.  

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar