Lög um sanngirnisbætur fyrir fötluð börn samþykkt á Alþingi!

Nú er stór stund fyrir fólk með þroskahömlun en Alþingi hefur samþykkt lög um sanngirnisbætur fyrir fötluð börn sem vistuð voru á vistheimilum á vegum ríkisins, öðrum en Kópavogshæli en þau sem þar voru vistuð hafa þegar fengið viðurkenningu á slæmum aðbúnaði, vanrækslu og ofbeldi sem þau bjuggu við.

Þetta er einnig gleðilegur dagur fyrir Landssamtökin Þroskahjálp, sem hafa barist fyrir réttlæti þessa hóps í rúm 12 ár. Snemma árs 2008 sendu samtökin forsætisráðherra bréf og óskuðu eftir að forsætisráðuneytið hlutaðist til um að fram færi opinber rannsókn á aðbúnaði fatlaðra barna á þar til gerðum stofnunum. Í bréfinu segir m.a.: „Óskað er eftir því að einkum verði skoðað hvort þau urðu fyrir hvers kyns ofbeldi á meðan á stofnanavistinni stóð og hvað það var í starfsemi stofnananna sem einkum stuðlaði að slæmu atlæti og ofbeldi.“ Samtökin ítrekuðu þessa beiðni sína, m.a. með bréfi sem þau sendu í september 2009. Um mitt ár 2012 brást forsætisráðherra við þessu erindi Þroskahjálpar með því að endurskipa vistheimilanefnd „með það fyrir augum að taka til sérstakrar rannsóknar vistun og aðbúnað barna með fötlun á opinberum stofnunum“.

Þegar skýrslan kom út, árið 2017, kom í ljós það sem margir vissu: fötluð börn voru beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi á Kópavogshæli og grunnþarfir þeirra vanræktar. Hlutaðeigandi stjórnvöld brutu með alvarlegum hætti gegn skyldum sínum. Augljóst var og er að fötluð börn eru mjög berskjölduð og stjórnvöld eiga að gæta þess sérstaklega að veita þeim stuðning, aðbúnað og vernd og að eftirlit sé haft með réttindum þeirra. Þessi réttur er tryggður með íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum.

Samtökin fagna því að Alþingi hafi samþykkt að gera upp þessi grafalvarlegu mál, en áætlað er að uppgjörið nái til 80-90 einstaklinga, er kemur fram á síðu stjórnarráðsins.

Hins vegar munu samtökin halda áfram að krefjast að fatlað fólk sem vistað var á stofnunum á fullorðinsaldri og þau sem sættu illri meðferð í vistun á einkaheimilum hljóti einnig samskonar uppgjörs og sanngirnisbóta!