Kosningar, lýðræði og fatlað fólk.

Þroskahjálp vekur athygli á afar áhugaverðri grein Rannveigar Traustadóttur og James G. Rice, Kosningar, lýðræði og fatlað fólk, sem birtist í júníhefti af tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Þar er fjallað um þær fjölmörgu hindranir sem eru í vegi þess að allt fatlað fólk njóti réttinda til að taka þátt í stjórnmálum og kosningum til jafns við aðra.

 Greinina má nálgast á hér

 Í greininni kemur fram að stór hluti borgaranna, fatlað fólk, nýtur ekki þessara grundvallarréttinda sem lýðræðið byggist á til jafns við aðra. Sú mismunun er augljóst brot gegn mjög mikilsverðum mannréttindum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja, verja og framfylgja, nú síðast með fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sl. haust. Hlutaðeigandi stjórnvöld, Alþingi og dómsmálaráðherra, hljóta því að gera viðeigandi ráðstafanir án ástæðulauss dráttar, s.s. nauðsynlegar breytingar á kosningalögum, reglum og stjórnsýslu.

 Í greininni kemur m.a. eftirfarandi fram:

 Rannsóknir sýna að fólk með þroskahömlun og fólk með geðræn vandamál mætir flestum hindrunum þegar kemur að kosningum (FRA 2010). Þar kemur meðal annars fram að fólk með þroskahömlun mætir margs konar hindrunum og erfiðleikum við að kjósa og fáir í þeim hópi kjósa. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar sem orsök þessa, svo sem vanþekking fólks með þroskahömlun á þáttum tengdum kosningum og skortur á vilja foreldra, aðstandenda eða stuðningsaðila til að aðstoða fólk til þátttöku (Agran, MacLean & Andren 2015). Sama rannsókn sýndi jafnframt að meðal annarra þátta sem útilokaði fólk með þroskahömlun frá stjórnmálaþátttöku er að kosningabæklingar og annað efni var ekki til á auðlesnu máli, kjörstaðir voru óaðgengilegir og erfitt var að fá að kjósa því að illa upplýst eða fordómafullt starfsfólk á kjörstöðum vísaði fólki frá (Agran, MacLean & Andren 2015).

...

Í þriðja lagi vekur það athygli að ekki skuli hafa verið notað tækifærið þegar verið var að breyta kosningalögum varðandi aðstoð við að kjósa og horfið frá hinu forneskjulega orðalagi að kjósendur eigi rétt á aðstoð sé hann „eigi fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt … sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf“. Þetta orðalag er ótrúlega forneskjulegt og í engu samræmi við nútímaorðalag eða skilning á fötluðu fólki. Eftir stendur hins vegar að aðeins þeir sem búa við sjónskerðingu eða hreyfihömlun geta, samkvæmt framangreindum ákvæðum í kosningalögum, átt rétt á aðstoð til að kjósa með aðstoð fulltrúa að eigin vali. Þetta útilokar hópa fólks með aðrar skerðingar sem þurfa aðstoð við að kjósa, til dæmis fólk með þroskahömlun sem getur þurft aðstoð, fólk á einhverfurófi sem á erfitt með að tjá sig í viðurvist ókunnugra og við nýjar og óþekktar aðstæður. Þá geta einstaklingar með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu svo og aðrir, sem nota óhefðbundin tjáskiptaform, verið útilokaðir frá því að kjósa með fulltrúa að eigin vali á grundvelli þess að geta ekki „með skýrum hætti tjáð kjörstjóra vilja sinn óþvingað“ (eins og segir í lögunum) vegna þess að kjörstjóri skilur ekki tjáningarmáta viðkomandi manneskju.

...

Ljóst er því að í fyrirliggjandi tillögum til breytinga á kosningalögum er ekki að finna áætlanir eða ákvæði sem uppfylla skilyrði Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks varðandi jafnrétti, bann við mismunun á grundvelli fötlunar og rétt til virkrar og fullrar þátttöku í stjórnmálum, þar með töldum kosningum, og í opinberu lífi til jafns við aðra.

...

Alþjóðastofnanirnar sem hér er vísað til (sjá FRA 2010; IFES 2014; OHCHR 2011) vekja allar athygli á því að í meirihluta þeirra landa sem kannanir þeirra og rannsóknir ná til eigi tveir hópar einkum á hættu að vera meinað að taka þátt í kosningum. Þetta er fólk með þroskahömlun og fólk með geðræn eða sálfélagsleg vandamál. Alþjóðastofnanir leggja því mikla áherslu á að sérstaklega sé hugað að því að þessir hópar njóti kosningaréttar og fái þá aðstoð sem nauðsynleg er til að svo geti orðið. Minnt er á að grein 29(a) (iii) í SRFF kveði á um skyldur ríkja til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að veita fötluðu fólki, sem ekki getur kosið upp á eigin spýtur, aðstoð einstaklings að eigin vali. Hér á landi hafa stjórnvöld fengið ítrekaðar ábendingar um að allir kjósendur sem þess þurfa fái viðeigandi aðstoð að eigin vali. Fram til þessa hafa stjórnvöld ekki orðið við slíkum beiðnum.