Kjartan hafði betur gegn Reykjavíkurborg í biðlistamáli

Kjartan Ólafsson og fjölskylda hans vöktu mikla athygli fyrir baráttu sína. Mynd af heimasíðu Kjarta…
Kjartan Ólafsson og fjölskylda hans vöktu mikla athygli fyrir baráttu sína. Mynd af heimasíðu Kjartans.

Kjartan Ólafsson og fjölskylda hans hafa vakið mikla athygli fyrir baráttu sína fyrir því að Kjartan fái að eignast eigið heimili, en hann er fatlaður og þarf stuðning allan sólarhringinn.

Kjartan sótti um húsnæði árið 2016 en engar upplýsingar var að fá um hvar Kjartan væri staddur á biðlista. Málið endaði því fyrir héraðsdómi þar sem Kjartan og fjölskylda hans þurftu að sækja rétt sinn gagnvart Reykjavíkurborg. Hérðasdómur komst að þeirri niðurstöðu í júní á síðasta ári að Kjartan ætti rétt á að vita hvar hann væri á biðlista eftir húsnæði hjá sveitarfélaginu og ætti rétt á miskabótum vegna þessarar biðar. Reykjavíkurborg ákvað í kjölfarið að áfrýja málinu til Landsréttar. Taka átti málið fyrir á morgun, föstudaginn 9. september í Landsrétti en nú hafa þær fregnir borist að Reykjavíkurborg ætli að una dóminum sem féll síðasta sumar.

Mikill skortur var á gagnsæi og fyrirsjáanleika þegar kom að biðlistum hjá Reykjavíkurborg eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Fyrirkomulagið hefur verið með þeim hætti að þegar úthlutun húsnæðis fyrir fatlað fólk fór fram hafi þjónustumiðstöðvarnar fengið að velja eina umsókn. Hver og einn umsækjandi hafi verið settur í ákveðinn flokk eftir því hve brýn þörfin var fyrir húsnæði en utan þess var enginn fyrirsjáanleiki eða gagnsæi í ákvörðunartöku sveitarfélagsins. Í dómnum frá júní 2021 segir að almenn tímasett uppbyggingaráætlun sveitarfélags geti ekki komið í stað áætlunar um úrlausn einstakra umsókna. Almennar uppbyggingaráætlanir gefa fötluðu fólki ekki mynd af því hvenær það getur átt von á því að fá húsnæði.

Fatlað fólk á rétt á að búa á eigin heimili og lifa sjálfstæðu lífi, samkvæmt íslenskum lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig að framfylgja. Fatlað fólk á að njóta friðhelgi og einkalífs og heimili er einnig lykilþáttur í því.

Mál Kjartans er mikilvægur sigur fyrir allt fatlað fólk, og hefur fordæmisgildi í sveitarfélögum um allt land þegar kemur að því að stjórnsýslan tryggi gagnsæi og fyrirsjáanleika þegar beðið er eftir þjónustu. Það er ótækt hve lengi fatlað fólk þarf að bíða eftir þjónustu, en það hlýtur að teljast lágmarkskrafa að fólk fái upplýsingar um hver staða þess er. Það er einnig gleðiefni að Kjartani hafi verið greiddar miskabætur, en með því viðurkennir ríkið þau óþægindi og álag sem fylgir því að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu.

Til hamingju Kjartan og fjölskylda!

Lesa má dóminn frá júní 2021 hér.