Fundur með forsætisráðherra.

Formenn Landsamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands áttu í morgun fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Á fundinum var farið yfir stöðuna í kjaramálum öryrkja og hvaða leiðir eru færar til að bæta sem fyrst kjör þeirra sem verst standa í þeim hópi. Formenn Þroskahjálpar og ÖBÍ ítrekuðu og fóru þar m.a. yfir það sem fram komi í erindi þeirra til forsætisráðherra í síðasta mánuði þegar þeir óskuðu eftir þessum fundi með henni en þar sagði:

„Eins og þú veist er mjög mikil óánægja meðal umbjóðenda okkar, þ.e. öryrkja, með kjör sín og þær ákvarðanir sem ríkisstjórn þín hefur tekið varðandi þau. Hvernig stjórnvöld hafa spyrt umræðu um þau saman við ráðgerðir þeirra um að taka upp starfsgetumat o.fl.  Þessi óánægja birtist t.a.m. mjög skýrlega þegar tekin var ákvörðun við meðferð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019 að lækka framlag til málaflokksins um 1100 milljónir króna á árinu 2019.

Sú breyting ein leiðir til þess að öryrkjar á Íslandi verða af ellefu hundruð milljónum króna á árinu 2019 eða sem svarar 55 þúsund krónum að meðaltali á hvern einstakling á ári. Að halda því fram að þetta hafi verið gert vegna vinnu starfshóps sem samtök okkar hafa í góðri trú tekið þátt í stenst enga skoðun. Það er því engin furða að mjög margir öryrkjar telji að stjórnvöld vilji með þessu þvinga þá til að samþykkja nýtt kerfi um starfsgetumat.

Þá er það, að mati samtaka okkar, mjög mikið áhyggju- og umhugsunarefni að í allri umræðunni um skerðingar, fjölgun öryrkja og hugsanlega nýtt matskerfi hefur að mestu gleymst að ræða megintilgang almannatrygginga sem er að tryggja framfærslu þess hóps sem vegna fötlunar eða langvarandi sjúkdóma getur ekki séð sér farborða.  Nú er óskertur örorkulífeyrir 238.594 kr. sem er, eins og allir hljóta að viðurkenna, afar lág fjárhæð og t.a.m. rúmum 30.000 krónum lægri en atvinnuleysisbætur síðan í maí sl. Í janúar mun þessi upphæð hækka í rúmar 247 þúsund kr. og atvinnuleysisbætur í tæpar 280 þúsund kr. Með vísan til þess sem að framan er rakið óskum við hér með eftir að fá sem fyrst fund með þér til að fara yfir þessi mál, skýra afstöðu og áherslur samtaka okkar og heyra sjónarmið þín, eyða hugsanlegum misskilningi og leita leiða og lausna sem flestir geta sætt sig við.“

 

Á fundinum í morgun lögðu formennirnir einnig fram minnisblað um vistun fatlaðs fólks á stofnunum og ræddu við forsætisráðherra um skyldur stjórnvalda til að bregðast við því sem fyrir liggur um þau mál með viðeigandi hætti sem og að bæta þeim sem urðu fyrir órétti eftir því sem mögulegt er.

Minnisblaðið um vistun fatlaðs fólks sem forsætisráðherra var afhent á fundinum má nálgast hér.

Þá  ræddu formennirnir við forsætisráðherra um mikilvægi þess að stofna sjálfstæða mannréttindastofnun og að samhliða verði komið á embætti umboðsmanns öryrkja og langveikra.

Bryndís Sæbjörnsdóttir segir að fundurinn með forsætisráðherra í morgun hafi verið gagnlegur „Við áttum gott samtal við forsætisráðherra sem tók vel í mál okkar og lýsti yfir vilja til að finna lausnir sem gætu nýst þeim sem verst standa í hópi öryrkja og einnig kvaðst forsætisráðherra vera með vistun fatlaðs fólks til skoðunar“, sagði Bryndís og kvaðst vera vongóð um að forsætisráðherra myndi beita sér fyrir því að þau miklu hagsmuna- og réttindamál fatlaðs fólks sem voru rædd á fundinum yrðu leyst fljótt og vel og þannig að fatlað fólk gæti vel við unað.