Félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar

Frumvarp félagsmálaráðherra um breytingar á lögum varðandi örorkubætur.

Frumvarpið felur í sér að fullar örorkubætur einstaklinga með aldurstengda uppbót hækka lítilega, t.d. mun sá sem orðið hefur öryrki fyrir 25 ára aldur og býr með öðrum, fá kr. 270.423 á mánuði (fyrir skatt) og bætur sambærilegs einstaklings sem býr einn verða kr. 334.240 á mánuði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar breytingar verði afturvirkar frá 1. janúar sl.

 Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að svonefnd krónu á móti krónu skerðing verði breytt þannig að skerðingarhlutfall verði lækkað úr 100% í 65%.

 Landssamtökin Þroskahjálp telja að ef þessar breytingar ná fram að ganga sé um að ræða lítið skref í rétta átt. Fatlað fólk sem á vegna fötlunar sinnar og lítilla tækifæra á vinnumarkaði litla eða enga möguleika til að afla sér atvinnutekna verður eftir sem áður að draga fram lífið á sultarkjörum. Kjörum sem eru í engu samræmi við lífskjarasamningana svonefndu og verða greiðslur til um 70% öryrkja töluvert lægri en atvinnuleysisbætur sem enginn er of sæll af en flestir verða þó sem betur fer aðeins tímabundið að láta duga fyrir framfærslu sinni.

Landssamtökin Þroskahjálp skora á ríkisstjórnina og Alþingi að bæta nú þegar kjör fatlaðs fólks þannig að það eigi möguleika á mannsæmandi lífi og getið tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra sem í landinu búa.