Ályktun stjórnar Landssamtakanna Þroskahjálpar varðandi NPA.

 Eftirfarandi ályktun samþykkt á stjórnarfundi Landssamtakanna Þroskahjálpar 22. september:

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar mótmælir því harðlega að gildistöku ákvæða varðandi notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir verði frestað, eins og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt til við félags- og jafnréttismálaráðherra.

Stjórnin bendir á að velferðarráðuneyti og sveitarfélög hafa haft marga mánuði til að undirbúa gildistöku og framkvæmd ákvæðanna. Stjórnin skorar því á ríki og sveitarfélög að leysa án tafar úr þeim atriðum sem enn kunna að vera óljós þeirra á milli hvað varðar kostnað, framkvæmd og ábyrgð. Stjórnin telur óverjandi að mjög mikilsverð réttindi og gríðarlega miklir hagsmunir fatlaðs fólks líði lengur fyrir seinagang og togstreitu ríkis og sveitarfélaga og telur hvorki tilefni til né réttlætanlegt að sú mikla óvissa sem fatlað fólk hefur lengi búið við hvað varðar NPA verði enn framlengd.