Alþjóðlegur dagur fólks á flótta

Mynd: Ahmed Akacha / Pexels
Mynd: Ahmed Akacha / Pexels

Í dag, 20. júní, er alþjóðlegur dagur fólks á flótta. Aldrei fyrr í mannkynssögunni hefur jafn margt fólk verið á flótta, eða um 100 milljónir manna sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka, ofsókna, hamfara, fátæktar eða annarra ástæðna.

Fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað í hamfara- og neyðarástandi enda fjallar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sérstaklega um stöðu fatlaðs fólks sem býr við slíkar aðstæður og hlutverk stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins. Fatlað fólk getur illa flúið, orðið sér úti um vatn, mat og nauðsynjavörur. Þá taka neyðaráætlanir sjaldan mið af þörfum þess og það er líklegra til að vera skilið eftir.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa lagt ríka áherslu á að íslensk stjórnvöld sinni skyldum sínum gagnvart fötluðu fólki á flótta. Samtökin hafa starfað m.a. með Rauða krossi Íslands, utanríkisráðuneytinu og Útlendingastofnun til þess að reyna að tryggja að fatlað fólk njóti verndar, þörfum þess sé mætt og að í allri vinnu sé hugað að þessum hópi fólks á flótta.

Á þessum degi, alþjóðlegum degi fólks á flótta, hugsum við til þeirra sem hafa þurft að flýja heimili sín og heitum því að sofna aldrei á verðinum í baráttunni fyrir betri heimi fyrir fatlað fólk, hvar sem það býr.