Allt fatlað fólk skuli fá að nýta kosningarétt sinn án hindrana!

Landssamtökin Þroskahjálp hafa lengi barist fyrir auknum lýðræðislegum réttindum fatlaðs fólks sem hefur í gegnum tíðina verið skertur hér á landi eins og víðast í heiminum. Óskertur réttur til að kjósa er þar grundvallarþáttur. Nýverið tóku Landssamtökin Þroskahjálp þátt í samráði við starfshóp um breytingu kosningalaga og þakka þau hópnum fyrir virkt og gott samráð.

Mikilvægasta niðurstaða hópsins er sú að leggja til að lögum um kosningar verði breytt þannig að fatlað fólk fái að hafa manneskju að eigin vali við að aðstoða sig við að kjósa, burtséð frá því hver fötlun þess er. Samkvæmt tillögu hópsins á fólk með þroskahömlun að njóta þess réttar eins og annað fatlað fólk! Þetta er í samræmi við það sem mælt er fyrir um í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Þroskahjálp fagnar þessari niðurstöðu og tillögu starfshópsins og hvetur Alþingi til að hraða því að kosningalögum verði breytt til samræmis við tillöguna. Það er löngu tímabært að þessi mismunun verði afnumin og þau mannréttindi alls fatlaðs fólks að fá að nýta kosningarétt sinn án hindrunar af þessu tagi verði tryggð í lögum.

 

Samtökin munu halda áfram að berjast fyrir mannréttindum og lýðræðislegum réttindum fatlaðs fólks, t.a.m. að tryggt verði að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð eins og kveðið er á um í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks!