Áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á vinnumarkaðinn

Greinin birtist fyrst í 3. tölublaði Tímaritis Þroskahjálpar 2019.
Auðlesin útgáfa er neðst á síðunni.

 

Myndin er af Árna Múla Jónassyni greinahöfundi. Á myndinni stendur nafn hans og starfstitill, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Um mitt ár 2018 skipaði forsætisráðherra nefnd um fjórðu iðnbyltinguna og var markmiðið með skipan nefndarinnar að „greina frá umræðu um fjórðu iðnbyltinguna á alþjóðavettvangi, afleiðingar hennar fyrir íslenskt samfélag og tækifæri Íslands í þessum breytingum“.

Í skýrslu sem nefndin skilaði sl. vor segir m.a.:

Verulegar breytingar á vinnumarkaði í vændum. Með aukinni sjálfvirknivæðingu verða sum störf óþörf en jafnframt verða til ný störf.Nefnd um fjórðu iðnbyltinguna fékk aðstoð frá Hagstofu Íslands við að reikna út möguleg áhrif sjálfvirknivæðingar á grundvelli aðferðafræði OECD. Þær niðurstöður sýna að á Íslandi eru miklar líkur á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar. Þetta eru um 54.000 einstaklingar á vinnumarkaði miðað við árið 2017 og svipar þessu hlutfalli til áætlaðra áhrifa tækniframfara annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig er því spáð að 58% starfa (rúmlega 113.000 einstaklingar) taki talsverðum breytingum vegna áhrifa tækni en aðeins 14% starfa (tæplega 27.000 einstaklingar) breytist lítið. Út frá þessari spá er líka hægt að sjá að hópar í samfélaginu verða fyrir mismiklum áhrifum af þessum breytingum og skoðuð eru áhrif út frá menntun, kyni, aldri, búsetu og ríkisfangi. (undirstr. höf.).

Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu tækifæri fatlað fólks á ósveigjanlegum íslenskum vinnumarkaði eru lítil og takmörkuð né heldur hversu augljóst er að þær breytingar á vinnumarkaði sem nú þegar leiða af og munu leiða af fjórðu iðnbyltingunni munu hafa mjög mikil áhrif á stöðu og tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Það á við fatlað fólk almennt og ekki síst fólk með þroskahömlun. Það hlýtur því að vekja furðu, vonbrigði og áhyggjur að fatlað fólk skuli ekki vera einn þeirra hópa sem nefndin taldi tilefni til að skoða sérstaklega.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja öllum ákvæðum hans.

Í 31. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina „Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun“, segir:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar.

Það verður alls ekki séð að stjórnvöld hafi munað eftir þessari skyldu sinni þegar þau skipuðu nefndina um fjórðu iðnbyltinguna og lögðu fyrir hana hvað hún ætti að skoða og meta.

Það er því enn og aftur og því miður fullt tilefni til að minna íslensk stjórnvöld á að þau hafa ýmsar og mjög skýrar skyldur til að gera margvíslegar ráðstafanir á þessu sviði og þau hafa einnig til þess tæki sem duga ef þau vilja nýta þau.

27. gr. samnings SÞ hefur yfirskriftina „Vinna og starf“. Þar segir:

Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að mynda með lagasetningu, til þess meðal annars:

a) að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,

b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, einnig jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað og til verndar gegn áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,

c) að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,

d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa með virkum hætti aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og endurmenntun,

e) að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnu-markaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,

f) að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa sam¬vinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,

g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,

h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum

i) að tryggja að fatlað fólk á vinnustað fái notið viðeigandi aðlögunar,

j) að stuðla að því að fatlað fólk geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,

k) að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðs fólks, að því að það haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að það geti snúið aftur til starfa.

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.

2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.

Skyldan til að tryggja „viðeigandi aðlögun“ er mjög mikilvæg þegar unnið er að því að tryggja tækifæri fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði.

Myndin er af hvítu vélmenni sem hefur mannlega andlitsdrætti og líkamsbyggingu, góðlátlegt að sjá og hefur spjaldtölvu framan á sér. Að baki vélmenninu sést aftan á skrifstofustarfsfólk.Um viðeigandi aðlögun segir í samningi SÞ:

„viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi.“

Þá eru ákvæði í jafnræðisreglu samningsins varðandi „sértækar ráðstafanir“, þ.e. svonefnda jákvæða mismunun, einnig mjög mikilvæg þegar litið er til mjög veikrar stöðu og takmarkaðra tækifæra fatlaðs fólks á íslenskum vinnumarkaði sem er almennt mjög ósveigjanlegur gagnvart fötluðu fólki, aðstæðum þess og þörfum.

Í júlí sl. skipaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verkefnisstjórn um aðgerðir Íslands vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Í frétt um það á heimasíðu ráðuneytisins kom fram að verkefni hennar væri að koma fram með 20 til 30 aðgerðir sem marki fyrstu skref Íslands til móts við þær breytingar sem í farvatninu eru með fjórðu iðnbyltingunni. Í fréttinni kom einnig fram að verkefnisstjórnin muni skila tillögum að aðgerðum fyrir lok nóvember 2019.

Það verður mjög áhugavert að sjá hvaða aðgerðir verkefnisstjórnin mun leggja til þannig að tryggt verði að fatlað fólk og ekki síst fólk með þroskahömlun muni njóta ávinnings af fjórðu iðnbyltingunni en verði ekki enn verr sett vegna hennar í framtíðinni en það er nú. Samningur SÞ er öflugt tæki til að koma í veg fyrir að þannig fari en þá verða íslensk stjórnvöld að muna eftir samningnum og skyldum sínum samkvæmt honum og hafa raunverulegan vilja til að beita ákvæðum hans til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til jafns við aðra.

 

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar