Um grundvöll, stefnu og framkvæmd í málefnum nemenda með sérþarfir

VIÐ ÍTREKUM rétt hvers einstaklings til menntunar, eins og kveðið er á um í Mannréttindayfirlýsingu
Sameinuðu þjóðanna frá 1948, og staðfestum það fyrirheit, sem samfélag þjóðanna gaf árið 1990 á Alþjóðaráðstefnunni um menntun öllum til handa, að sá réttur verði öllum tryggður, hversu sundurleitir sem einstaklingarnir eru.

VIÐ HÖFUM HUGFASTAR endurteknar yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, síðast og eindregnast í
Viðmiðunarreglum um jöfnun tækifæra fyrir fatlað fólk, samþykktum árið 1993, þar sem lagt er að ríkjum heims að tryggja að skólaganga fatlaðra verði heildstæður þáttur í almenna menntakerfisinu.

VIÐ GERUM OKKUR GREIN FYRIR þeirri ánægjulegu breytingu sem orðið hefur með aukinni viðleitni af
hálfu ríkisvalds, hagsmunasamtaka og foreldrasamtaka og ekki síst samtaka fatlaðra til að auðvelda skólagöngu þorra þeirra sem háðir eru sérþörfum og enn eiga vanda sinn óleystan. Virk þátttaka háttsettra fulltrúa margra ríkisstjórna, sérstofnana og alþjóðasamtaka á þessari alþjóðaráðstefnu staðfestir þennan áhuga.

--------------------------------------------------------------------------------


1.
Í ljósi þessa viljum við, fulltrúar 92 ríkisstjórna og 25 alþjóðlegra samtaka, saman komnir í Salamanca á Spáni dagana 7. til 10. júní 1994 á alþjóðlegri ráðstefnu um menntun nemenda með sérþarfir, staðfesta skuldbindingar okkar við markmiðið um menntun öllum til handa og viðurkenna brýna nauðsyn þess að veita börnum, ungmennum og fullorðnum með sérþarfir á sviði menntunar, menntun innan almenna skólakerfisins. Jafnframt tökum við undir Rammaáætlun um aðgerðir vegna nemenda menð sérþarfir og væntum þess að ríki og stofnanir hafi að leiðarljósi þann boðskap sem felst í ákvæðum hennar og tillögum.

2.
Við lýsum yfir þeirri sannfæringu okkar að

  • menntun sé frumréttur hvers barns og skylt sé að gefa því kost á að ná og viðhalda viðunandi stigi menntun;
  • börn séu mismunandi og hafi sérstök áhugamál, hæfileika og námsþarfir;
  • í skipulagi menntakerfis og tilhögun náms beri að taka mið af miklum mun á einstaklingum og þörfum þeirra;
  • einstaklingar með sérþarfir á sviði menntunar skuli hafa aðgang að almennum skólum og þar beri að mæta þörfum þeirra með kennsluaðferðum í þeim anda að mið sé tekið af barninu;
  • almennir skólar séu virkasta aflið til að sigrast á hugarfari mismununar, móta umhverfi sem tekur fötluðum opnum örmum, móta þjóðfélag án aðgreiningar og koma á menntun öllum til handa; enn fremur megni þeir að veita þorra barna góða menntun og stuðli að skilvirkni menntakerfisins í heild og bæti, þegar til lengdar lætur, nýtingu fjármuna.


3.
Við skorum á stjórnvöld allra landa að

  • leggja á það allt kapp, bæði í stefnumótun og með fjárveitingum, að koma fram umbótum á menntakerfum landanna svo að þau verði fær um að sinna öllum börnum án sérstakrar aðgreiningar, hvað sem líður mismun þeirra og örðugleikum sem þau eiga við að glíma;
  • leiða í lög eða taka upp sem yfirlýsta stefnu þá meginreglu að öll börn sæki almenna skóla nema knýjandi ástæður séu til annars;
  • hrinda af stað tilraunaverkefnum til eftirbreytni og stuðla að gagnkvæmum heimsóknum við lönd sem reynslu hafa af skólum án aðgreiningar;
  • stuðla að valddreifingu og sem almennastri þátttöku við að skipuleggja námsframboð fyrir börn og fullorðna með sérþarfir á sviði menntunar, fylgjast með framkvæmd þess og meta árangur;
  • örva og greiða fyrir þátttöku foreldra, heimabyggðar og samtaka fatlaðra í skipulagsstarfi og ákvörðunum um hvernig mæta skuli sérþörfum á sviði menntunar;
  • verja auknum kröftum til að greina sérþarfir snemma og bregðast við þeim með virkum hætti, svo og til starfsmenntunar þar sem ekki er beitt aðgreiningu;
  • tryggja það að jafnhliða slíkri kerfisbreytingu sé, bæði í grunn- og endurmenntun kennara, fjallað um kennslu nemenda með sérþarfir í skólum þar sem ekki er aðgreining;

4.
Við skorum á samfélag þjóða og sér í lagi á stjórnvöld ríkja sem standa að alþjóðlegum samstarfsverkefnum, svo og alþjóðlega styrktaraðila, öðrum fremur þá sem stóðu straum af Alþjóðaráðstefnunni um menntun öllum til handa, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og Alþjóðabankann:

  • að gerast fylgjendur skólagöngu án aðgreiningar og stuðla að því að þróun kennslu nemenda með sérþarfir verði heildstæður þáttur allra verkefna á sviði menntunar;
  • Sameinuðu þjóðirnar og sérstofnanir þeirra, einkum og sér í lagi Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO), Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO), UNESCO og UNICEF;
  • að leggja meira að mörkum til tæknilegrar samvinnu, jafnframt því sem þær efli samvinnu sína og myndun tengslaneta til að veita virkari stuðning við að efla kennslu og skólagöngu án aðgreiningar fyrir nemendur með sérþarfir;
  • óopinberar stofnanir sem hlut eiga að því í einstökum löndum að koma á verkefnum og veita þjónustu:
  • að treysta samstarf sitt við opinbera aðila í landinu og efli starf sitt við að skipuleggja námsframboð án aðgreiningar fyrir nemendur með sérþarfir, hrinda því í framkvæmd og meta árangur;
  • Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO):
  • að sjá til þess að um menntun nemenda með sérþarfir sé fjallað hvarvetna þar sem hún á hlut að umræðum um menntamál;
  • að afla stuðnings hjá samtökum kennara við ráðstafanir sem beinast að því að efla kennaramenntun með hliðsjón af sérþörfum nemenda;
  • að örva fræðimenn og vísindastofnanir til að efla rannsóknir, koma á tengslanetum og stofna til svæðisbundinna gagnabanka og upplýsingamiðstöðva; einnig að hún taki að sér miðstöðvarhlutverk í slíkum verkefnum og við að kynna fengnar niðurstöður og árangur sem einstök lönd hafa náð í þeim efnum sem yfirlýsing þessi fjallar um;
  • að útvega fjárframlög með því að koma á, innan ramma starfsáætlunar frá 1996-2002, öflugu verkefni helguðu skólum án aðgreiningar og aðgerðum til aukins stuðnings í heimabyggð. Með því móti yrði kleift að koma á tilraunaverkefnum sem yrðu áþreifanleg kynning til að útbreiða ný tök á málum. Jafnframt standi hún að þróun viðmiðana um þörf fyrir menntun nemenda með sérþarfir og leiðir til að veita hana.

5.
Að síðustu viljum við tjá einlægar þakkir okkar til ríkisstjórnar Spánar og til UNESCO fyrir að standa að ráðstefnunni. Hvetjum við þær til að kosta kapps um að vekja athygli á þessari yfirlýsingu, ásamt meðfylgjandi rammaáætlun, á alþjóðavettvangi, einkum á lykilþingum svo sem Alþjóðlegum leiðtogafundi um samfélagsþróun (Kaupmannahöfn 1995) og Alþjóðaráðstefnu um málefni kvenna (Peking 1995).


Samþykkt með lófataki.

Gjört í Salamanca á Spáni
hinn 10. júní 1994.